Fara í efni

Sjálfstæðisflokkurinn, Morgunblaðið, forsetaembættið og framtíð þess

Morgunblaðið hefur lengi verið langöflugasta og stærsta dagblað á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn er að sama skapi stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Báðir aðilar voru hins vegar smáir í sér í nýafstöðnum forsetakosningum. Reyndar var smæð þeirra slík að almennt rak fólk í rogastans. Stærð getur verið huglæg. Styrkur Sjálfstæðisflokksins hefur að nokkru leyti legið í þeirri ímynd hans að hann sé stór og búi í krafti stærðar yfir festu og stöðugleika. Sama gildir um Morgunblaðið. Þegar sú ímynd er brotin þá láta afleiðingarnar ekki á sér standa. Framferði Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins mun smækka báða aðila til lengri tíma litið. Þeir létu heiftina í garð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands stjórna gjörðum sínum. Á kosningadag kom ákall til landsmanna á forsíðu Morgunblaðsins um að skila auðu í kosningunum: Auð atkvæði verða birt sérstaklega í fyrsta sinn sagði í flennistórri fyrirsögn. Að afloknum kosningum sagði Davíð Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins síðan að hyldýpisgjá hefði myndast á milli forseta og þjóðar. Framsóknarforystan endurómaði að venju Valhallartalið – að undanskildum Guðna Ágústssyni, varaformanni – einnig að venju. Um Framsókn ætla ég ekki að ræða frekar í þessu samhengi að sinni. En frá því er skemmst að segja að þau Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir voru með mjög áþekkar yfirlýsingar  í kjölfar kosninganna og Davíð Oddsson. Minn skilningur er sá að þessir aðilar hafi reynt að gera þessar forsetakosningar flokkspólitískar í þröngum skilningi og er það mjög miður. Þessir aðilar höfðu að vísu ekki nema takmarkaðan árangur – og til skamms tíma - af þessari viðleitni sinni. En skaðinn er engu að síður mikill í stærra samhengi skoðað því með þessu háttalagi er torvelduð mjög tímabær umræða um forsetaembættið, eðli þess og þeirra væntinga sem menn hafa um framtíðarþróun embættisins.

Andóf úr grasrótinni?

Morgunblaðið sagði í leiðara daginn eftir kosningar að grasrótin hafi verið að andæfa forsetanum. Án efa er þetta rétt að einhverju leyti en Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn hafa drepið á dreif allri slíkri umræðu með framferði sínu.
Ólafur Ragnar Grímsson bauð nefnilega upp á málefnalega umræðu um forsetaembættið fyrir kosningar. Hann sagði að hann vildi gera embættið meira afgerandi á komandi árum til dæmis á sviði utanríkismála og vildi hann gegna veigameira hlutverki í samskiptum við erlend ríki í framtíðinni en hann hefði gert til þessa.
Í fréttum Ríkissjónvarpsins 15. mars sl var skýrt frá fjórum meginþáttum sem Ólafur Ragnar hygðist leggja megináherslu á yrði hann kjörinn að nýju: "Í fyrsta lagi að forsetinn taki á skynsamlegan hátt virkan þátt í samræðum um helstu verkefni þjóðarinnar. Í öðru lagi, virkara hlutverk forsetans við að styrkja margvíslega starfsemi innanlands. Í þriðja lagi að treysta stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna, greiða götu á sviði menningar, viðskipta og vísinda. Og í fjórða lagi hyggst forsetinn leggja mikla áherslu á að efla tengsl við forystusveitir annarra ríkja, Íslendingum til hagsbóta. Forsetinn segir fjarri sanni að embættið sé valdalaust. Hann segir að kosningarnar framundan séu kærkomið tækifæri til að ræða stöðu þess og boðar almennt virkari þátttöku í umræðunni".

Vill að forsetaembættið sé valdaembætti – viljum við það?

Athygli vekur sú áhersla sem lögð er á völd annars vegar og afskipti af utanríkismálum hins vegar. Að afloknum kosningum, sunnudaginn 27. júní, sagði ÓRG eftirfarandi í sérstökum hádegisfréttatíma á Stöð 2 : "Ja, ég er mjög þakklátur fyrir þetta traust og met af einlægni og auðmýkt mikils að þjóðin skuli hafa greitt atkvæði á þennan hátt. Það þekkja allir þá lotu sem hér hefur verið á undanförnum vikum og mánuðum og í ljósi alls þessa þá er þetta mjög afgerandi traustyfirlýsing, mjög sterkt umboð. Og ég mun starfa á næstu fjórum árum á grundvelli þessa umboðs sem meðal annars byggist á þeirri yfirlýsingu sem ég gaf núna í vor þegar ég gaf kost á mér þar sem ég rakti fjögur áhersluatriði sem ég myndi kappkosta á næstu fjórum árum að settu svip á mína forsetatíð og geng glaður og hress til þeirra verka á næstu árum í krafti þessa umboðs."

Hér kemur fram að Ólafur Ragnar Grímsson telur sig hafa fengið umboð til að þróa embættið í þá átt að það sé meira afgerandi í þjóðmálaumræðunni og að hann hafi vald til afskipta af utanríkismálum – þ.e. með samskiptum sínum við forystusveitir annarra þjóða. Nú vill svo til að ég treysti núverandi forseta betur til slíkra samskipta en núverandi forsvarsmönnum á sviði utanríkismála. En ekki dugir að horfa á málin í svo þröngu samhengi. Ég tel mjög óheppilegt að gera forsetaembættið að slíkum valdapósti. Ég vildi meira að segja fara í gagnstæða átt og fyndist koma til greina að málskotsrétturinn hvíldi ekki hjá embættinu, heldur hjá þjóðinni. Til dæmis með því fyrirkomulagi að með tilteknum fjölda undirskrifta mætti knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta þýddi að það kostaði átak og brennandi áhuga hjá stórum fjölmennum hluta þjóðarinnar að knýja slíkt fram. Í því tilviki sem við stöndum nú frammi fyrir hefði þessi formúla tryggt þjóðaratkvæðagreiðslu. Það á hins vegar að heyra sögunni til að treysta á dómgreind og afstöðu eins manns hvað þetta snertir, hversu ágætur sem hann annars kann að vera. Þetta er hins vegar framtíðarmúsík sem rækileg og yfirveguð umræða þyrfti að fara fram um áður en hugað væri að breytingum og á alls ekki að blanda inn í þá atburði sem við nú stöndum frammi fyrir.

Nóg komið af kóngafólki og auðmönnum

Ég tel að forsetaembættið geti áfram haft hlutverk í samfélaginu. Ég er heldur ekki að mælast til þess að forseti Íslands hafi ekki skoðun og láti hana í ljós. Með hófsemi og yfirvegun getur hann haft áhrif – en á allt annan hátt en með þeirri aðkomu sem nú er boðuð. Að lokum vil ég ítreka þá skoðun mína sem ég hef margoft látið í ljós bæði hér á síðunni og í fjölmiðlum almennt að kónga- og auðmannadekur hefur í seinni tíð keyrt úr hófi fram á Bessastöðum og væri æskilegt að mínu viti að draga þar stórlega úr.

Sjá m.a. þessi  og þessi  og þessi fyrri skrif.