Fara í efni

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN BREGST!!!


I
cesave er ekki mál sem afgreitt er í eitt skipti fyrir öll. Sú var ekki raunin þegar fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins gekk að ítrustu kröfum Hollendinga og Breta síðastliðið haust - í október. Málið var heldur ekki klárað með "viljayfirlýsingum" Alþingis í nóvember og aftur í desember um að ganga að afarkjörum Breta og Hollendinga. Alltaf voru Íslendingar með hnífinn gömlu nýlenduherranna á barkanum. Handrukkararnir í  AGS  mættu þeim til fulltingis með sínar þumalskrúfur og ESB sýndi að þegar á reynir þjónar bandalagið fyrst fjármagni, síðan fólki. Meira um það síðar. En allt sem við gerðum var á forsendum andstæðings í yfirburðastöðu. Ekkert sem gert er við slíkar aðstæur er bindandi og endanleg niðurstaða. Álitamál hvort svo er enn.    

Icesave á ekki að ljúka fyrir fullt og allt!  

Icesave er dæmigert fyrir "dínamískt" mál; - mál í þróun. Og þróunin hefur verið skrautleg. Þannig kom "samningur" fram í vor eins og við þekkjum. Einnig hann var unninn undir hótunum. Þingið tók hann til sín og setti skýrar skorður - lagalegar og efnahagslegar við hvers kyns ríkisábyrgð. Þetta byggði á þverpólitískri málamiðlun í þinginu. Málið var þannig þróað áfram - alltaf inn í illskárri farveg.  
Í vinnslu málsins í sumar hófu þingmenn sig upp úr hjólförum hefðbundinna flokkastjórnmála. Þess vegna náðu þingmenn allra flokka árangri. Þeir gerðu sér einfaldlega grein fyrir því að Icesave var stærra en nokkur flokkur - og nokkur ríkisstjórn.  

"...að bjarga málum"?  

Svo kom núna upp úr helgi nýjasti kapítulinn: Viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörum Íslands. Þeir eru súrir en gangast engu að síður inn á fyrirvara Alþingis nema ákvæði um einhliða vald Íslands til að afskrifa skuldina.  
Gott og vel. En hvað skal gera? Niðurstaðan varð sú að fara með málið inn í þingið og ræða saman þverpólitískt - sem þingmenn, sem Íslendingar, ekki flokksmenn - um hvað gera skuli. Ríkisstjórnin sýndi að hún hafði lært sína lexíu frá í sumar. Nú var hún ekki að kynna gerðan hlut - fait accompli. Hún var að óska eftir samráði - þverpólitísku samráði.
Ég ætlaði ekki að trúa því þegar fram kom í fréttum að Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði þessu vinnulagi. Hann stakk sér á bólakaf ofan í hjólför gærdagsins! Honum kom Ísland ekkert við. Hann kvaðst ekki ætla að bjarga ríkisstjórninni!!! Varaformaður flokksns, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sagði orðrétt í fréttum Sjónvarps í kvöld:  "Það er ekki þannig að ríkisstjórnin geti alltaf hlaupið til stjórnarandstöðunnar í hvert sinn sem hún þarf að bjarga málum en ég held það sé réttast að við leyfum fjármálaráðherra að fara yfir þetta."   Það er nefnilega það. Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að leyfa fjármálaráðherra að fara yfir þetta!

Agnarsmár flokkur  

Hvað hafði fjármálaráherrann sagt? Hann hafði sagt - einnig í Sjónvarpsfréttum kvöldsins um leið og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, að nú lægju fyrir   "vissar hugmyndir frá Bretum og Hollendingum um það hvernig þeir sjái fyrir sér að hægt sé að leysa málin með hliðsjón af þessum, af afgreiðslu Alþingis ..."   Undir þetta hafði forsætisráðherrann tekið. Í þessum anda hafði framkvæmdavaldið farið með málið inn í þingið,  skuldbindingalaust - gengið til samráðs - í anda vinnulags sumarsins. Svarið sem ráðherrarnir fá er hins vegar afdráttarlaust. Við ætlum ekki að draga ríkisstjórnina að landi!!! Þetta voru skilaboð Sjálfstæðisflokksins.
Svona hugsa þeir sem telja að flokkur sinn sé stærri en þjóðin. Þjóðin veit hins vegar að svo er ekki. Sjálstæðisflokkuriunn sýndi í kvöld hve agnarsmár hann er.