Fara í efni

SÍUNGUR DENIS HEALEY


Það er nokkur aldursmunur á þeim Einari Árnasyni, ráðgjafa í innanríkisráðuneytinu, og Denis Healey, lávarði, fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, og eins helsta stjórnmálaskörungs síðari hluta tuttugustu aldarinnar þar í landi.
Annar fæddur 1917, og því níutíu og fjögurra ára, hinn fæddur 1956, og því 55 ára. Tæplega fjórir áratugir skilja þá að. En vináttu þeirra naut ég þegar Einar kynnti hinn virðulega öldung fyrir mér á heimili hans í Sussex í vikunni sem leið. Já, virðulegur vissulega, en ekki í þeim skilningi að hann taki sjálfan sig hátíðlega, því léttur er hann í lund og gerir óspart grín að sjálfum sér.

Arfleifðin í nafninu
Reyndar heitir hann Denis W. Healey og stendur tvöfalda vaffið fyrir Winston. Verkamannaflokksforinginn Denis Winston hafði nefnilega verið skírður í höfuðið á forsætisráðherranum, stríðshetjunni og íhaldsmanninum Winston Churchill. Reyndar var Churchill hvorki orðinn forsætisráðherra, né sú stríðshetja sem hann síðar varð, eða íhaldsmaður (því á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri var hann í Frjálslynda flokknum) þegar Denis Winston Healey var skírður í höfuðið á honum.
Winston Churchill var á þessum árum meira að segja í hálfgerðri ónáð vegna hernaðarmistaka sem hann var talinn bera ábyrgð á í Dardanella-sundi við Tyrklandsstrendur. En það hefði ekki komið að sök, skrifar Denis í minningum sínum því „eins og margir Írar var faðir minn hugfanginn af þeim sem börðust fyrir glötuðum málstað."
Tíminn leið. Churchill varð leiðtogi Íhaldsmanna - oft á tíðum óvæginn í garð andstæðinga sinna - og reyndist Denis þessi tenging við nafna sinn ekki happadrjúg þegar hann tók að sækjast til áhrifa í Verkamannaflokknum. Hefur hann sjálfur orð á þessu - að vísu í hálfkæringi - í ævisögu sinni.

Aldrei mjög rauður en gagnrýninn á Blair
Fyrir seinna stríð hafði Denis Healey verið félagi í Kommúnistaflokki  Bretlands. Sú vitneskja kom mér á óvart þegar hann ræddi þetta við okkur, gesti sína. Í mínum huga hafði Denis Healey alla tíð verið ímynd hins hægfara og íhaldsamari arms í Verkamannaflokknum (ég hefði sjálfur farið sparlega með hugtakið hægri-sinnaður um hann - í mínum huga beið sá merkimiði Blairs og félaga). En aldrei hefði ég haft hugarflug til að tengja Denis Healey neinu eða neinum vinstra megin í Verkamannaflokknum, hvað þá vinstra megin við flokkinn! Þetta sagði ég við Healey. Hann sagði að þarna væri ég haldinn sagnfræðilegri ranghugmynd. Stuðningur við Kommúnstaflokkinn í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar síðari hefði fyrst og fremst byggst á því að sá flokkur hefði verið sá eini sem barðist óskiptur gegn fasisma. Eftir að Stalín og Hitler gerðu með sér bandalag hafi hann samstundis verið rokinn úr flokknum og hann bætti því við til enn frekari skýringar að breski Kommúnstaflokkurinn hafi á þessum árum alls ekki verið róttækur og rauður. Denis Healey sór með öðrum orðum af sér rauða sósíaliska róttækni. En annað sór hann einnig af sér: Fylgispekt við hægrislagsíðu Tony Blairs og Nýja Verkamannaflokksins sem svo var nefndur eftir að hann var „nútímavæddur" undir síðustu aldamót. „Tony og félagar gerðu margt gott fyrstu tvö árin," sagði Healey, „síðan gerðu þeir allt rangt!" Hér er ég ekki að uppljóstra neinu nýju því þetta hefur Denis Healey sagt opinberlega.


Í stríði við mína menn!

Sjálfur fylgdist ég af áhuga með breskum stjórnmálum þegar Denis Healey var á hátindi pólitískra afskipta sinna, á sjöunda og áttunda áratugum liðinnar aldar. Healey gegndi lykilembættum í öllum ríkisstjórnum Verkamannaflokksins á þessum tíma. Hann átti jafnframt í langvarandi átökum við valinkunna einstaklinga í vinstri armi Verkamannaflokksins; tapaði fyrir Michael Foot í formannsslag árið 1980 eftir að James Callaghan sagði af sér en var þá kosinn varafromaður. Þá stöðu þurfti hann að verja ári síðar fyrir Anthony Wedgewood Benn en hafði sigur þótt naumur væri. 
Báðir voru þeir Benn og Foot mínir kandídatar en alls ekki Healey. Svo væri eflaust enn. Engu að síður skil ég mæta vel höfundinn sem skrifaði bók um framúrskarandi stjórnmálamenn sem þó aldrei urðu forsætisráðherrar. Bókin heitir The best Prime Ministers we never had! Á bókarkápu var Denis Healey í öndvegi og mátti þannig skilja á höfundinum að hann hefði verið sá allrabesti sem aldrei varð!
Flestum virðist bera saman um að Healey hafi verið afburðamaður og tilfinning mín fyrir manninum eftir þessa heimsókn og lestur í sjálfsævisögu hans  ber mjög að þeim sama brunni.

Er hægt að hverfa til fortíðar
Fyrir þessa heimsókn til Healeys hafði ég blaðað sem áður segir í stórmerkilegri sjálfsævisögu hans The Time of my Life. Titillinn er tvíræður og skemmtilegur sem getur í senn höfðað til bestu ára ævi hans - eða sem stendur nærri sögusýn höfundar - að horfa beri til breytileika og þróunar; tímanna sem breytast. 
Ég gleymdi að spyrja hann heimspekilegrar spurningar sem kviknað hafði í huga mínum við lestur ævisögunnar: Er eitthvað til sem heitir að hverfa til upprunans eins og oft er sagt um pólitíska flokka sem farið hafa af leið sem kallað er og eru komnir langt frá þeim stefnumarkmiðum sem þeir lögðu upp með? Eða erum við öll ætíð í sí-nýjum tíma,  veruleikanum eins og hann er hverju sinni, veruleika samtímans eins og hann birtist á sínum eigin forsendum?
Ég var jafnvel að hugsa um að senda Healey línu og spyrja en hætti við því eftir meiri lestur var svarið augljóst. Í ævisögu sinni vitnar Healey í Hereclitus sem sagði: „Allt hreyfist - þú stígur ekki út í sömu ána tvisvar". Af þessari speki geta stjórnmálamenn dregið lærdóma, bætti Healey við og þar með hafði ég svarið: Þú hverfur aldrei aftur í tímann, það er ekkert sem heitir að hverfa til upprunans. Þú getur hins vegar skapað nýtt upphaf. Þannig vil ég altént skilja Denis Healey og sá skilningur er mér að skapi. 

Sjónlaus sagnfræði 
 
Í formála bókarinnar, The Time of my Life, vísar Denis Healey, að því er virðist með velþóknun, í bandaríska rithöfundinn og einstaklingshyggjumanninn Emerson, sem gaf lítið fyrir sagnfræðina: „Það er engin saga til, bara ævisögur." 
Sjálfur hafði Healey efasemdir um tilraunir sagnfræðinga og hagfræðinga til að koma sögunni inn í auðskildar og skýrar formúlur og vitnar hann í þessu samhengi í skrif rithöfundarins, Virginíu Woolf, „sem reglulega endurhæfir anda minn", þar sem hún hafnar vélrænum söguskýringum og talar um  „dapurlega litlaus og máð sögubindin" sem aldrei fangi neinn sögulegan skilning enda sé sagnfræðin sjónlaus - „hafi ekki auga".
Fram kemur hjá Healey að listamenn hafi að hans mati betri sýn á samfélagið í samtímanum en stjórnmálamenn og þessu til áréttingar úir og grúir af tilvitnunum í ljóð og heimspeki í öllum ritum hans. Þetta gerir hann, að eigin sögn,  til að ljá frásögnum sínum innsæi og dýpt.
Sama hugsun býr að baki þegar hann vísar sögulegri efnishyggju Marxismans á bug. Hann segist á hinn bóginn hafa hrifist af heimspekingum á borð við Kant sem reyndu að skilgreina hina hreinu rökhyggju en hafi jafnframt verið reiðubúnir að viðurkenna að rökhyggjunni væru takmörk sett: „Ég vil þann vísdóm sem segir: Við sjáum ekki handan árinnar í myrkrinu. En myrkrið eyðileggur ekki það sem við sjáum ekki. Það sem þú þekkir ekki kann að vera mikilvægara en það sem þú þekkir."
Þessi tilvitnun í skrif Healeys þykir mér ágætur vegvísir inn í hugsun hans.

Virðing fyrir einstaklingsfrelsinu

Hér þarf að hafa í huga að söguleg efnishyggja reið röftum í vinstri pólitík á þessum tímum innan stjórnmálanna, í verkalýðshreyfingunni og í vinstri sinnuðu háskólasamfélagi. Það jákvæða við nálgun Denis Healeys og Virginiu Woolf - sem ég skrifa upp á að hálfu leyti, ekki öllu - er sú að hún getur af sér ákveðna hógværð og meiri virðingu fyrir einstaklingsviljanum en kaldhömruð og persónusnauð efnishyggjan gerir - alla vega á stundum. Í þessum söguskilningi er líka að finna ákveðinn lykil að Denis Healey sjálfum eins og hann kemur mér fyrir sjónir: Maður fjölbreytileikans, plúralismans og virðingar fyrir einstaklingnum. Í mínum huga og í stuttu máli, eftirsóknarverður maður.
Þetta breytir því ekki að á sínum tíma þótti mér honum ekki liggja nægilega mikið á að bæta heiminn og þótti mér hann ætíð vera of tilbúinn að miðla málum við gagnstæð öfl í grimmum heimi kapítalismans. Kannski örlar á þessari sjálfs-gagnrýnu hugsun hjá honum sjálfum núna? Það er mín  tilfinning. Kannski röng, kannski lá honum alltaf á - en minnumst þess að allt  er á hreyfingu, líka Denis Healey, sá sem þetta ritar og þau sem þetta lesa! 

Að yngjast inn í framtíðina
Ég spurði Healey hvort honum hefði tekist að standa við ásetning sinn sem hann greindi frá í fyrrnefndri ævisögu sinni, sem vel að merkja kom út  1990 þegar Healey var rúmlega sjötugur,  að hann ætlaði að fara að dæmi Benjamíns Franklins sem heitið hefði því um sjötugt að yngjast frá þeim tíma að telja í stað þess að eldast. „Já, ég hef verið að reyna að láta þetta gerast", sagði öldungurinn glaðbeittur. Því til sönnunar gekk hann með okkur um landareign sína léttur á fæti þótt stafur væri til halds og trausts; fór með okkur í bílferð til að sýna okkur Sjösystrastapa - Seven Sisters - hvíta krítarkletta sem gnæfa upp yfir Ermarsundið. Hann ljósmyndaði án afláts. Og heyra mátti hann segja í hálfum hljóðum, eins og við sjálfan sig - að aldrei hefði verið eins fallegt og í dag!
Þessi öldungur mun deyja ungur, hugsaði ég.