Fara í efni

SIGRÍÐAR KRISTINSDÓTTUR MINNST

sigga kristins 2
sigga kristins 2

Í dag klukkan 13 fer fram kveðjuathöfn í Neskirkju í Reykjavík um Sigríði Kristinsdóttur, sjúkraliða, sem lengi stóð í forystusveit launafólks. Við Sigríður vorum nánir samstarfsmenn og vinir um áratugaskeið og minnist ég hennar í minningargrein í Morgunblaðinu í dag: 

Einn mesti eldhugi íslenskrar félagsmálabaráttu er fallinn frá.
Spor Sigríðar Kristinsdóttur liggja víða, í kvennabaráttunni, í hreyfingu herstöðvaandstæðinga og friðarsinna að ógleymdri kjarabaráttunni. Allar götur frá því ég man eftir mér starfandi á vettvangi BSRB var Sigríður Kristinsdóttir einhvers staðar nærri, sem áhugasamur félagi, sem formaður Sjúkraliðafélags Íslands, sem stjórnarmaður í Starfsmannafélagi ríkisstofnana, SFR, og formaður þess félags um árabil, að ógleymdri stjórnarsetu hennar í BSRB. Fyrir þessi samtök og í nafni þeirra gegndi hún síðan ótal mörgum trúnaðarstörfum. Nefni ég þar Vinnueftirlitið þar sem hún sat í stjórn. 
Ég minnist Sigríðar Kristinsdóttur eiginlega síðan ég fór að draga andann sem áhugamaður um verkalýðs- og félagsmál, alls staðar hafði hún komið við sögu og alltaf staðið í stafni.
Mest urðu samskipti okkar á vettvangi BSRB. Þar urðum við mjög nánir samstarfsmenn og trúnaðarvinir. Bæði höfðum við miklar skoðanir og var áfram um þær, en aldrei minnist ég þess að okkur hafi orðið sundurorða.

Það sem mér er efst í huga við fráfall Siggu Kristins, eins og við vinir hennar kölluðum hana, er umhyggja hennar fyrir þeim sem stóðu höllum fæti í lífinu. Hún barðist fyrir jöfnuði, þar lágu alltaf áherslur hennar, einnig í kvenna- og kjarabaráttunni og þegar atvinnuleysið bankaði uppá í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar, áttu hinir atvinnulausu hauk í horni þar sem hún var. Hún var einn helsti hvatamaður þess að Miðstöð fólks í atvinnuleit var sett á laggirnar og helgaði hún þessari starfsemi krafta sína á meðan á þurfti að halda.
Það var skoðun Sigríðar Kristinsdóttur að verkalýðsbaráttu bæri alltaf að tengja menningunni sem traustustum böndum. Í stórmerkri nýútkominni sögu SFR eftir Þorleif Óskarsson, sagnfræðing, birtir hann viðtal við Sigríði þar sem hann spyr hana út í þennan þátt.  Hún svarar því til að mikilvægt sé að stéttarfélög reyni að halda menningarstarfi að sínu fólki en það sé ekki sama upp á hvað sé boðið. Verkalýðshreyfingin eigi aðeins að bjóða upp á það sem sé vandað og það eigi ekki síst við um menningarlegt efni. Það hafi hún kappkostað að gera í formennskutíð sinni. Uppá það leyfi ég mér að skrifa.
Sigríður Kristinsdóttir háði baráttu við illvígan sjúkdóm eins og það er orðað þegar krabbamein er annars vegar. Í þeirri baráttu sýndi hún mikla hetjulund enda marg oft sýnt hver hetja hún var í lífsbaráttunni, sem framan af lífi hennar var oft erfið.
Að henni stóð gott fólk og eftir sig skilur hún gott fólk, tvær dætur og einn son ásamt barnabörnum. Þeim og eiginmanni hennar, Jóni Torfasyni, færi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur um leið og ég minni á þau góðu verk sem Sigríður Kristinsdóttir vann í lífi sínu og munu um ókomin ár lifa hana og ylja þeim sem nutu.

Minningarræða flutt í Neskirkju í dag:

Hinn 19. júní síðastliðinn töluðum við lengi saman við Sigríður Kristinsdóttir - Sigga Kristins eins og við vinir hennar þekktum hana og kölluðum hana. Þetta var semsé á kvenréttindadaginn. Það var að mörgu leyti við hæfi og táknrænt að hún legði mér línurnar á þeim degi.

Jafnréttisbaráttan hafði verið Siggu hugleikin alla tíð, nánast í blóð borin og við vorum mörg sem lögðum við eyrun þegar hún kvað upp raust sína um jafnréttismál. Áhersla hennar var öðru fremur á jöfnuð - jafnrétti byggt á jöfnuði  - enginn átti að standa öðrum neðar hvorki karl né kona nema hvað það voru konur sem almennt báru skarðan hlut frá borði. Og það vildi þessi mikla baráttukona laga og leggja nánast allt í sölurnar til að það mætti takast. Ég held að enginn geti því í móti mælt að fyrir hennar tilverknað og baráttufélaga af hennar kynslóð þokaðist vel í kvenfrelsisbaráttunni. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Um það get ég vitnað eftir þúsund fundi með Sigríði Kristinsdóttur. Á þessu sviði sem öðrum hafði hún áhrif á okkur mörg.

Og þarna sátum við semsé á kvennadaginn, Sigga Kristins og ég, á fallegu heimili hennar og horfðum yfir Sundin blá og upp í Esjuna. Hún á lokametrunum í hetjulegri baráttu sinni við illvígt krabbamein.
Hún talaði, ég hlustaði.
Ég hafði reyndar sagt henni í upphafi okkar samatals að fyrir dyrum stæði hjá mér í hádeginu daginn eftir að mæta til fundar með forsætisráðherranum ásamt oddvitum verkalýðssamtakanna frá tíunda áratugnum.

Ég sagðist gefa mér að forsætisráðherrann vildi vita hvort í þjóðarsáttinni frá 1990 leyndust einhverjir nýtilegir vegvísar inn í komandi ár.
Varla gæti ríkisstjórnin gert sér von um frið nema hún kúventi  helstu stefnumálum sínum, hætti að gefa vinum sínum arðbærar ríkiseignir og í stað þess að markaðsvæða velferðarþjónustuna efldi hún hana og opnaði öllum, óháð efnahag, afnæmi bónusa og jafnaði kjörin. Og -  að ef þetta gerðist ekki, þá myndi þjóðarsátt eða Salek eins og stofnanavædd þjóðarsátt heitir víst nú, leika verkalýðshreyfinguna grátt.

Ég spurði Siggu hvort þetta væri ekki mergurinn málsins. Samþykkjandi bros færðist yfir andlitið og hún sagði, að ég mætti ekki gleyma jöfnuðinum og vörninni fyrir velferðina,  og -  mikilvægi þess að verkalýðshreyfingin væri baráttuhreyfing, ekki hagfræði-reikni-stokkur.   

„Vertu þversum. Ekki gefa spönn eftir, mundu að þessi ríkisstjórn er varasöm. En þú verður ekki einn Ögmundur minn. Ég verð þarna líka. Ég verð í gættinni."

Í seinni tíð var Sigga Kristins alltaf  í gættinni og fylgdist með öllu, stóru og smáu sem fram fór í pólitík og verkalýðsmálum, aldrei þögul, alltaf sívakandi og fram á völlinn var hún stiginn þegar henni þótti þörf á, nú síðast um áherslur í rekstri Landspítalanas í blaðagrein sem birtist fyrir um mánuði síðan. Þar segir:
„Við ættum ekki að ameríkanísera heilbrigðisþjónustuna og ég mun berjast gegn því eins lengi og ég hef krafta til og reyna að fá fólk með mér, enda er ástandið í heilbrigðismálum í Bandaríkjunum ekki gæfulegt, að minnsta kosti ekki fyrir þá sem eiga lítið af peningum, og varla batnar það í tíð núverandi forseta þar.
Ég byrjaði að vinna á Landspítalanum 1968 og hef unnið þar mestalla starfsævina og fylgst með peningaleysi þar á bæ. Það er ekki sómasamlegt þegar kemur fyrir að fötur standi á göngunum til að mæta húsleka. Ég þekki spítalann vel, bæði sem starfsmaður og notandi, vann þar rúm 40 ár og þykir mjög vænt um vinnustaðinn. Hef fengið þar mjög góða þjónustu og starfsfólkið sýnt mér hlýju og umhyggju.
Það þarf bæði að huga að ytra útliti og innri starfsemi og þar þarf Alþingi heldur betur að taka sig á, bæði með að bæta tækjakost og viðhald, en það hafa stjórnvöld vanrækt mjög undanfarin ár."

Sigga Kristins átti nokkra daga ólifaða þegar þetta var skrifað. En takið eftir, hún ætlaði að berjast eins lengi og kraftar leyfðu og hún ætlaði að safna liði, fá eins marga með sér og kostur væri, staðráðin í að snúa varnarbaráttunni upp í sókn, brjótast fram á við og upp á við „beint, þó brekkurnar verði þar hærri", eins og Þorsteinn Erlingsson kvað.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá stóð Sigríður Kristinsdóttir sjaldnast í gættinni, þótt hún sjálf orðaði það með þeim hætti. Hún var annað hvort innandyra eða utandyra, hún var þar sem slagurinn var hverju sinni og þá í honum miðjum, þar sem heitast brann - menn gátu alltaf gengið að því vísu að Sigga Kristins væri í miðju hringiðunnar!

Sigríður Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík 13. júlí árið 1943. Foreldrar hennar voru Sigfríð Sigurjónsdóttir verkakona  og Kristinn Stefánsson skipstjóri, bæði ættuð frá Eskifirði. Systkini Sigríðar eru Áslaug Jónína Sverrisdóttir bankastarfsmaður, Stefán Kristinsson múrari, en hann er látinn og Guðrún Kristinsdóttir doktor í félagsráðgjöf. Fyrri eiginmaður Sigríðar var Sigurður Hjörtur Stefánsson kennari, en hann lést um aldur fram árið 1975. Síðari  eiginmaður hennar er Jón Torfason skjalavörður. Börn Sigríðar eru Sigfríð, fædd 1963, Erna Kristín, fædd 1975 og Torfi Stefán, fæddur 1983. Barnabörn eru Sigurður Hjörtur Þrastarson, Aðalheiður Rán Þrastardóttir, Sigrún Stella Þrastardóttir, Stefán Tumi Þrastarson, Eybjört Ísól Torfadóttir og Jón Markús Torfason, en barnabarnabörnin eru tíu.

Á æskuárum var Sigríður fimm sumur í sveit á Glúmsstöðum í Fljótsdal og framan af ævi vann hún margs konar störf, saltaði m.a.síld tvö sumur á Eskifirði - fékk náttúrlega viðurkenningu fyrir að vera hraðvirkust og eflaust vandvirkust líka, lauk svo sjúkraliðaprófi árið 1972 og var starfsvettvangur hennar eftir það að mestu á Landspítalanum, bæði á geðdeildum og Kvennadeild spítalans. Árið 1990 vann hún á Kvennaathvarfinu og 1990- 96 var hún starfandi formaður Starfsmannafélags ríkisstofnana. Næstu ár sá hún um Miðstöð fólks í atvinnuleit og vann síðast á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans til 2010.

Sigríður fór fljótt að skipta sér af kjaramálum, var trúnaðarmaður SFR 1972-1990, í stjórn Sjúkraliðafélags Íslands frá 1974 til 1982 og 1984 til 86, þar af formaður þar 1979-1982. Var í stjórn Starfsmannafélags ríkisstofnana um árabil og formaður sem áður segir; hún sat í stjórn BSRB nær allan tíunda áratuginn.

Sigríður tók virkan þátt í starfsemi Rauðsokka frá stofnun og fram undir 1980, var einn af stofnendum Kvennaframboðsins sem bauð fram til sveitarstjórna 1982, einnig stofnfélagi í Samtökum kvenna á vinnumarkaði sem störfuðu á árunum 1984-1988. Þá var hún stofnfélagi í Vinstri hreyfingunni, grænu framboði árið 1999 og starfaði af krafti í þeim flokki allt til loka, formaður Reykjavíkurdeildar um hríð og átti sæti í flokksráði.

„Þú byrjar af miklum krafti og kemur víða við í félagsmálum, í verkalýðsbaráttu, kvennabaráttu og almennri baráttu fyrir félagslegu réttlæti. Hvaðan kom þessi baráttuandi allur?" Þannig spyr Þorleifur Óskarsson, sagnfræðingur, Sigríði í viðtali sem hann átti við hana og birtist í nýútkominni sögu SFR. Sigríður svarar:

„Mín skólaganga í þessum efnum var einfaldlega það uppeldi sem ég fékk hjá foreldrum mínum, einkum móður minni Sigfríði Sigurjónsdóttur. Ég var alin upp við sjónarmið félagslegs réttlætis. Móðir mín var í Félagi afgreiðslustúlkna í brauð
a- og mjólkurbúðum og gegndi starfi ritara í stjórn félagsins um tíma. Vart þarf að taka fram að í þessum afgreiðslustörfum var ekki lögð stund á neitt dekur í launamálum - þetta voru hreinræktuð láglaunastörf. Þessar konur voru óhemjuduglegar og stóðu svo sannarlega fyrir sínu. Félagið var mjög róttækt og naut meira að segja þess heiðurs oftar en einu sinni að vera kallað kommúnistafélag í Morgunblaðinu. Félagskonurnar sýndu alltaf samstöðu með þeim sem bjuggu við svipuð kjör, þær vissu hve mikils virði samstaðan var. 1. maí-göngur voru hluti af lífinu frá því að ég man fyrst eftir mér.
Faðir minn var í Sósíalistaflokknum. Hann var skipstjóri og sat í stjórn Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar. En hann féll frá þegar ég var sjö ára þannig að mamma hafði mest að segja um hvernig ég mótaðist félagslega. Ég man þó vel eftir pabba. Hann stóð á sínu og lét ekki setja á sig nein höft. Þannig var hann einhvern tímann rekinn frá borði fyrir pólitískar skoðanir. Útgerðin vildi ekki hafa kommúnista um borð. Þessi tími má aldrei koma aftur.
Ég neita því ekki að stundum hef ég óttast að einmitt þetta gæti gerst með vaxandi atvinnuleysi og harðneskju á vinnustöðum. Verkalýðshreyfingin þarf að gæta sín á því að byggja öll samskipti við atvinnurekendur á grundvelli samstöðu en ekki knýja hvern og einn til að bera ábyrgð á sjálfum sér eins og tilhneiging hefur því miður verið til að gera. Einstaklingurinn getur orðið býsna berskjaldaður við slíkar aðstæður. Allt þetta lærði ég ung að árum og hef ekki gleymt því.
Það má ekki gerast að farið verði að reka stéttarfélög eins og fyrirtæki. Verkalýðshreyfingin má aldrei gleyma því hver hún er og hún þarf að vera sjálfri sér samkvæm. Það sem verkalýðshreyfingin krefst af öðrum þarf hún að sýna í verki inn á við. Verst er náttúrulega þegar hún yfirfærir hugsun markaðshyggjunnar inn í eigin rann. Gagnvart þessu þurfum við stöðugt að vera á verði. Það er auðvelt að verða ágengum tíðaranda að bráð."

Það varð Sigríður Kristinsdóttir aldrei sjálf. En hún vann með sjálfa sig ef svo má að orði komast. Sem formaður SFR fór hún fyrir fangavörðum. Hún bar hag þeirra fyrir brjósti en einnig hinna sem lokaðir voru inni í fangelsum landsins. Til að skilja þennan vinnustað og hina mannlegu örlagaþræði sem þar spunnust, lét hún einhverju sinni loka sig inni í einangrunaklefa, nægilega lengi til að fá, þó ekki væri nema nasasjón af því hvað það þýddi - að því marki sem það yfirleitt væri hægt - að vera innilokuð og einangruð og einnig hitt, hvað það þýddi að þurfa að loka aðra manneskju inni á þennan hátt. Um þetta talaði Sigríður Kristinsdóttir ekki, en ég veit að þessi reynsla og íhugun í kjölfarið hafði djúp áhrif á hana.

Hennar eigið líf hafði ekki alltaf verið dans á rósum og fyrir vikið átti hún auðvelt að skilja til fullnustu erfiðleika annarra. Erfiðustu stundir hennar í starfi voru hjá Kvennadeildinni þegar mæður voru að deyja frá börnum sínum. Börn Sigríðar sjálfrar geyma minningar um syrgjandi móður sína yfir erfiðu hlutskipti barna sem misst höfðu mömmu sína. Og fátækar einstæðar mæður  áttu hauk í horni í Sigríði Kristinsdóttur. Það fór ekki hátt en ég veit - þó ekki frá henni sjálfri - að oft gaf Sigga af vanefnum sínum - til stuðnings einstæðum fátækum mæðrum sem leitað höfðu ásjár hjá henni. Allt það gerðist í kyrrþey.

Leiðir okkar Siggu Kristins lágu stundum saman á kontórnum á BSRB á árunum upp úr 1980 og sérstaklega í aðdraganda og í tengslum við verkfall BSRB 1984. Það var einhvern tímann á þessum árum að við sátum ásamt fleira fólki á kaffistofunni. Sigga hélt smáræðu yfir okkur um ríkisstjórnina sem þá sat við lítinn fögnuð rauðsokkunnar, en svo andvarpaði hún og brosti fjarrænu brosi: "Mikið er annars yndislegt að vera ástfangin, haldið þið ekki að ég sé orðin ástfangin. Hann heitir Jón og er Torfason. Hann er að norðan og engum manni líkur!"

Það vitum við að ást Sigríðar Kristinsdóttur var endurgoldin og hefur kærleikur einkennt sambúð þeirra Jóns Torfasonar vel á fjórða áratug. Kerskni og smástríðni hefur stundum gætt eins og gerist þar sem grunnurinn er það traustur að allt skilst á réttan veg. Sigga hafði fundið mann að sínu skapi; mann sem var hvers manns hugljúfi en fastur fyrir ef því var að skipta. Sviptivindar tíðarandans hafa aldrei hreyft mikið við skákmeistaranum frá Torfalæk. Þegar það fór úr tísku að ganga Keflavíkurgöngur mætti Jón í verkalýðsgönguna 1. maí með sín andstöðuskilti við Nató og burt með herinn. Slík skilti voru ekki mörg undir lok tíunda áratugarins en Sigga hefði kært sig kollótta þótt hún hefði gengið með eina manninum sem bar Ísland úr NATÓ skilti enda sjálf ekki ókunnug slíkum skiltum úr ótal Keflavíkur göngum.  

Mynd kemur upp í hugann - myndin er af andliti manns sem nánast hafði misst kjálkann ofan í eigin bringu. Hann var að panta orlofshús á skrifstofu BSRB. Þaðan sem hann stóð við afgreiðsluskenkinn mátti sjá inn í lítinn fundarsal. Þar hafði verið dekkað upp. Skjannahvítur dúkur þakti borðið sem hlaðið var dýrindis bakkelsi, súkkulaðitertum með þeyttum rjóma og öðru góðmeti. Í gljáfægðum silfurstjökum, sem aldrei áður höfðu sést í BSRB, loguðu kertaljós. Þetta var uppúr hádeginu, Við borðið sat starfsfólk hússins. Yfirbragðið var virðulegt.
Aðkomumaðurinn hefur eflaust spurt sjálfan sig, hvert hann væri kominn eða hvort þetta væri vinnulagið á þessum bæ. Því ekki gat hann vitað að skrifstofukona sem annast hafði símavörslu í BSRB var að láta af störfum fyrir aldurs sakir og að Sigríður Kristinsdóttir hafði tekið upp hjá sjálfri sér að skipuleggja kveðjusamsæti henni til heiðurs. Hún skyldi kvödd með virktum og virðuleik og henni sýndur fullur sómi.

Vörn Siggu í baráttunni við skortinn var að sækja fram - búa sér og sínum hlýlegt umhverfi, óaðfinnanlega tekið til, sjálf ávallt vel til höfð. Hún kom aldrei á nýjan stað án þess að fyrr en varði allt var þar orðið tandurhreint, komin ný gluggatjöld og í kosningamiðstöðina uppþvottavél  - sem safnað var fyrir á staðnum - og ætla ég ekki að tala um alla fyrirhöfnina og allan rjómann sem þau hjón þeyttu í aðdraganda kosninga fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð og eflaust öll framboð sem Sigga hafði komið að um dagana. Ég ætla hins vegar að minnast á að í starfi sínu hjá Unglingageðdeildinni var í hennar tíð dúkað upp borð á sunnudögum með hátíðarveitingum svo miklum, að börnin spurðu hver ættti afmæli, "Það er sunnudagur í dag," svaraði Sigríður Kristinsdóttir, "og hér gerum við okkur dagamun."

Reyndar lét Sigga ekki bakkelsið nægja, hún var alla tíð meðvituð um mikilvægi hins andlega fóðurs. Um það bera ekki aðeins menningarvökur hjá SFR vitni; hjá Miðstöð fólks í atvinnuleit voru settir á laggirnar leshringir um bókmenntir og einnig þar voru skáld fengin til að lesa úr verkum sínum og enn aðrir til að kenna framsögn. Á Unglingageðdeildinni skipulagði hún kvöldvökur með menningarefni. Menning og listir voru ætíð sýnilegir þræðir í þeim félagslega vefnaði sem hún óf.   

Dætur Siggu segja mér að þegar hún hafi verið með þær ein í uppvextinum hafi lífsbaráttan stundum verið erfið því úr litlu hafi verið að spila. En hver einasta króna hafi verið nýtt til að kaupa á þær sem fallegust fötin og alltaf hafi þær verið látnar fá það sem eftirsóknarverðast þótti hverju sinni af hálfu unglinganna. Að vísu hafi mamma spurt í búðunum og stundum óþægilega hvassyrt, hvort ekki væri öruggt að það sem keypt var, væri ekki framleitt af barnaþrælum í Bangladesh.

"Mamma, af hverju þarftu endilega alltaf að spyrja svona?"
Svarið lá í loftinu. Sigga vildi hugsa vel um öll börn. En umhyggja hennar og ást á eigin börnum var án takamarka. Sá ránfugl hefði ekki verið öfundsverður sem ráðist hefði á hreiður Sigríðar Kristinsdóttur!
Nú eru ungarnir flognir en aldrei fóru þeir svo langt frá mömmu sinni að þeir sneru ekki aftur með takmarkalausri ástúð og umhyggju þegar hún nú þurfti á stuðningi þeirra að halda í sinni erfiðri glímu ...

... og fram á síðasta dag stóð Sigga í miðri samstöðusveit baráttunnar -  í rigningunni  1. maí  síðastliðinn, var Sigriður Kristinsdóttir mætt. Af henni var dregið en þarna stóð hún samt, fárveik.
En andinn var brennandi.

Við áttum okkar stund á baráttudegi kvenna  - um kvöldið fór hún í klippingu og fékk andlitsförðun - Sigga var að búa sig undir hið óumflýjanlega. Það gerði hún af sama æðruleysi sem hún jafnan hafði sýnt í lífinu. Hún hafði orð á því að dagur kæmi eftir þennan dag og að við yrðum að gera hann betri en daginn í dag og vinna að því af endurnýjuðum krafti.
Ég er sannfærður um að í þeirri hugsun vildi Sigga Kristins að við leituðum huggunar á kveðjustund.

Grunntónninn í Gamalli vísu Steins Steinars um vorið er einmitt huggun og æðruleysi en um leið fyrirheit um að í gróandanum gangi lífið og ástin í endurnýjun lífdagana   ...

Ó, sláðu hægt mitt hjarta
og hræðstu ei myrkrið svarta.
Með sól og birtu bjarta
þér birtist vor á ný.
Og angan rósa rauðra,
mun rísa af gröfum dauðra.
Og vesæld veikra og snauðra
mun víkja fyrir því.

Um daga ljósa og langa
er ljúft sinn veg að ganga
með sól og vor um vanga
og veðrin björt og hlý.
Þá rís af gömlum grunni
hvert gras í túni og runni.
Hún, sem þér eitt sinn unni,
elskar þig kannski á ný. 

Gömul vísa um vorið er áminning um þá hugsun sem Sigríði Kristinsdóttur var svo kær, að reisa hið fallna og frelsa hinn veika og snauða og um trúna á endurnýjandi kraft lífsins ... þá rís af gömlum grunni hvert gras í túni og runni...

Nei, í lifanda lífi stóð Sigríður Kristinsdóttir sjaldnast í gættinni. En hún á eftir að standa þar, halda dyrunum opnum inn í þá framtíð sem hún vildi sjá;
framtíð þar sem litil börn þekkja ekki fátækt
og engum er úthýst;
hinn veiki fær lækningu af því hann er veikur, ekki vegna þess að hann geti framvísað greiðslukvittum.

Sigga Kristins vill halda dyrunum opnum inn í heim án hernaðarbandalaga, þar sem ekki bara einn eða tveir eða tvö hundruð halda á skilti,
- heldur allir -  og segja einum rómi, Ísland úr NATÓ, við viljum herlaust land og óflekkað þjóðarmannorð af illvirkjum hervelda ...
Og síðast en ekki síst, inn í framtíð þar sem viðkvæðið verður áfram stelpur.

Það var þetta sem Sigga Kristins sagði við mig á kvenréttindadaginn. "Ekki tala um mig heldur um það sem gera þarf."
Nákvæmlega það er ég að reyna að gera Sigga mín, um leið og við minnumst ömmu, móður og eiginkonu, félaga og vinar, skulum við nú hugsa í gefandi þögn til Sigríðar Kristinsdóttur og segjum í þeim skilningi sem bestur gerist - blessuð sé minning hennar.
SK III