Fara í efni

SIGRAR RÉTTLÆTIÐ AÐ LOKUM?

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 21.11.14.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp, stutt af öllum þingmönnum sem sæti eiga í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins, sem gerir ráð fyrir að lögum verði breytt á þann veg að aðstandendur dómþola í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu fái heimild til að krefjast endurupptöku fyrir Hæstarétti á þessum þekktustu sakamálum íslenskrar réttarsögu.

Brotið réttarkerfi

Í réttarhöldunum, í kjölfar langvinnrar rannsóknar, voru sex einstaklingar sakfelldir fyrir að hafa átt þátt í hvarfi Guðmundar Einarssonar og/eða Geirfinns Einarssonar og hlutu þunga fangelsisdóma.  Allt frá dómsuppkvaðningu hefur því verið haldið fram með rökum að margt hafi farið úrskeiðis við rannsókn málsins. Sterkur orðrómur hefur verið á kreiki um að hinir dómfelldu hafi hlotið ómannúðlega meðferð undir rannsókn málsins og því hefur ítrekað verið haldið á lofti - enda útbreidd skoðun í þjóðfélaginu að réttarkerfið hafi brugðist þessu máli.

Starfshópur Arndísar

Hinn 7. október 2011 skipaði ég sem innanríkisráðherra sérstakan starfshóp sem var falið að fara yfir Guðmundar- og Geirfinnsmálið í heild sinni, en sérstaklega þá þætti sem lutu að rannsókn málsins. Starfshópnum var jafnframt falið að taka til athugunar gögn sem komið höfðu fram á síðustu árum.  Arndís Soffía Sigurðardóttir lögfræðingur, veitti starfshópnum forystu, en í honum voru auk hennar færustu sérfræðingar heims á sviði réttarsálfræði þeir Gísli Guðjónsson og Jón Friðrik Sigurðsson réttarsálfræðingar og Haraldur Steinþórsson lögfræðingur. Þá starfaði með starfshópnum Valgerður María Sigurðardóttir lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu. Niðurstaða starfshópsins, sem skilaði um 500 blaðsíðna skýrslu að verki loknu, var í grófum dráttum til að staðfesta margt af því sem haldið hefur verið fram um Guðmundar- og Geirfinnsmálin í næstum 40 ár. Það sem vó hvað þyngst í niðurstöðum starfshópsins var niðurstaða sérstaks sálfræðimats að það væri hafið yfir allan skynsamlegan vafa að játningar dómfelldu í málinu væru ýmist óáreiðanlegar eða falskar.

Guantanamo fangelsi

Á fréttamannafundi sem haldinn var í innanríkisráðuneytinu, þegar starfshópurinn skilaði skýrslu sinni, sagði Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur frá reynslu sinni en hann hefur unnið sem réttarsálfræðingur við að meta trúverðugleika játninga um allan heim, að aldrei hefði hann séð jafn langa einangrunarvist og í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, þ.e. ef frá væri talin einangrunarvist fanga í hinu illræmda fangelsi í Guantanamo Bay. Að þetta mál skuli enn standa óhaggað eftir öll þessi ár er undarlegt og í reynd stórskaðlegt fyrir alla. Það er skaðlegt fyrir dómfelldu, það er skaðlegt fyrir aðstandendur, það er skaðlegt fyrir íslenskt réttarkerfi sem hefur glatað trúverðugleika sökum þessa, og það er skaðlegt fyrir almenning sem ber ugg í brjósti sökum þess að hingað til hefur réttarkerfið neitað að horfast í augu við niðurstöður í Guðmundar- og Geirfinnsmálin.

Endurupptaka

Eftir að skýrsla starfshópsins var gerð opinber í mars 2013 var ríkissaksóknara afhent eintak. Það var niðurstaða starfshópsins að ein þeirra leiða sem væri fær í málinu væri að ríkissaksóknari óskaði eftir endurupptöku málanna. Það gerði ríkissaksóknari ekki. Annar valkostur sem starfshópurinn benti á var að hin dómfelldu krefðust sjálf endurupptöku málanna. Þá ferð hafa a.m.k. tveir dómfelldu þegar lagt í með því að senda beiðni þar um til Endurupptökunefndar. Endurupptökunefnd hefur óskað umsagnar ríkissaksóknara á því hvert hans mat sé á tilefni endurupptöku, eins og lög gera ráð fyrir. Eftir skoðun á málinu komst ríkissaksóknari, Sigríður Friðjónsdóttir, að þeirri niðurstöðu að hún væri vanhæf til að veita slíka umsögn sökum fjölskyldutengsla við einn aðalrannsakenda málsins á sínum tíma. Skipaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, dómsmálaráðherra, Davíð Þór Björgvinsson fyrrv. dómara við Mannréttindadómstól Evrópu til að fara með málið, og hefur hann það nú til skoðunar. 

Hvað með hina látnu?

Hvað sem líður niðurstöðu sérstaks saksóknara í Guðmundar- og Geirfinnsmálum er það að lokum  Endurupptökunefndar að skera úr um hvort málin skuli endurupptekin. Samkvæmt mati starfshópsins á gildandi lögum er ekki hægt að krefjast endurupptöku mála fyrir hönd látinna manna. Tveir hinna dómfelldu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum eru nú látnir, þeir Sævar Marinó Ciecielski og Tryggvi Rúnar Leifsson. Af því tilefni var framangreint frumvarp lagt fram, sem vakin er athygli á í upphafi þessarar greinar en samkvæmt því er ætlunin að tryggja með lögum rétt  nákominna skyldmenna hinna látnu dómþola að krefjast endurupptöku. Gangi þetta eftir, og Guðmundar- og Geirfinnsmálin verði endurupptekin, þá hefur íslenskt samfélag stigið mikilvægt skref í þá átt að auka tiltrú almennings á íslenskt réttarkerfi. Hvað sem endanlegar niðurstöður um endurupptöku málanna kunna að bera í skauti sér er hitt morgunljóst að við rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálum voru framin alvarleg brot á mannréttindum. Það er yfir allan vafa hafið.