Fara í efni

SIGGA SYSTIR KVÖDD

Sigríður Knudsen var ekki systir mín. Samt var hún það okkar í milli. Þegar hún kynnti sig fyrir mér í síma einhvern tímann í kringum aldamótin sagðist hún vera bekkjarsystir mín úr Melaskóla. Eftir nánari samræður sagði ég að það gæti ekki staðist því eitt ár væri á milli okkar í aldri. Gott og vel sagði Sigga, þá var ég alla vega skólasystir þín. Og þar við sat en til styttingar sleppti hún skóla-tilvísuninni og úr varð einfaldlega Sigga systir.

Og þannig átti ég eftir að fá símtöl úr ýmsum áttum þar sem vísað var til “systur minnar” sem síðar kom á daginn að var Sigga. Þegar hún vildi styrkja stöðu sína í viðureign við “kerfið” sem hún stóð andspænis í sínum margbreytilegu myndum dró hún gjarnan upp mynd af sínu baklandi og þar var “Ömma bróður” að finna. Þannig að þegar upp var staðið var það ekki bara okkar Siggu í milli að hún væri systir mín. Sú staðreynd var þekkt í félagasamtökum, hjá innheimtustofnunum, í húsfélögum, hjá Félagsbústöðum og víðar.

Ég var mjög sáttur við þetta, vildi gjarnan standa þétt með Siggu systur enda vissi ég hve góð og velviljuð manneskja hún var. Ég vissi líka að hún hafði á marga lund átt erfiða daga allt frá barnæsku. Þetta þekki ég að vísu ekki gerla en veit hins vegar að hún átti gott fólk að og naut ástríkis þess, en hjá ömmu sinni og afa ólst hún upp.

Aldrei hef ég heyrt annað en gott af fólki Sigríðar Knudsen og sjálf var hún gull að manni. Þegar hún missti eiginmann sinn, Einar, í febrúar á síðasta ári, fór að halla hratt undan fæti hjá henni sjálfri, talaði ekki, missti hreinlega málið, og sambandið við umhverfið tók að rofna. Í allra síðustu tíð var ég farinn að sakna þess að heyra ekki frá Siggu en grunaði hvernig komið væri. Andlátsfregnin kom því ekki á óvart. En leitt þótti mér að hafa ekki haft frumkvæði að því að leita hana uppi.

Þótt Sigga væri ekki mikil um sig og virtist auk þess ekki búa yfir miklum styrk þá var hún seig og komst langt á staðfestu og ákveðni. Þegar fyrri eiginmaður hennar, Gunnar, stóð frammi fyrir því að missa húsnæði sitt trommaði hún fram honum til varnar ásamt Einari, manni sínum, og að sjálfsögðu “Ömma bróður” til að taka upp glímu við kerfið. Enginn þurfti að velkjast í vafa um að þar var Sigga leiðtogi og bjargvættur, við kallarnir skipuðum fótgöngulið hennar. Á endanum fagnaði herforinginn sigri að sjálfsögðu! Höfðu þá bankar og stofnanir verið heimsóttar af hálfu herflokksins.

Sigga taldi mig búa yfir meiri fælingarmætti en ég í raun reis undir. Þegar hún átti einhverju sinni í útistöðum við Félagsíbúðir út af eldavél – en Sigurður Friðriksson, forstöðumaður þar á bæ, sýndi henni jafnan bæði skilning og stuðning – þá kom að því að hún sló sér á lær yfir barnaskap viðmælenda sinna: “Ja, það ætla ég að vona að Ömmi bróðir frétti ekki af þessum viðbrögðum ykkar.” Hvers vegna, var hváð á móti. “Þá verðið þið allir reknir”, sagði Sigga og horfði vorkunsömum augum á þá.

Sigga vildi alltaf styðja mig til góðra verka, hvort sem var í pólitík eða öðru. Og vináttu sína sýndi hún einnig með því að gefa mér útsaumaða púða sem ég átti áður en yfir lauk mjög marga og stórar púslumyndir sem hún hafði raðað saman og innrammað. Með þessu var skrifstofa mín í þinginu ætíð fagurlega skreytt.

Minnisstætt er símtal síðla kvölds í byrjun október árið 2008. Ég var að ganga frá skrifstofu minni í Vonarstræti yfir í Alþingishúsið. Þá um daginn höfðu borist fréttir af því að bankakerfið íslenska væri hrunið. Öll stæðum við í rústum efnahagshruns. Ég man þetta allt gerla, hve ógnvekjandi himinninn var, hvernig óveðursskýin hrönnuðust þar upp og hve öllum var þungt í sinni. Þá hringdi Sigga. “Er ekki allt gott Ömmi bróðir?” Mér varð í fyrstu orðavant. En svo svaraði ég “jú, það er allt gott Sigga mín.”
Og þá fannst mér líka allt gott.

Þannig er lífið afstætt. Fólkið sem maður kynnist á lífsleiðinni gefur af sér með mismunandi hætti. Frá sumum stafar græskuleysi og góðsemi, gjafmildi og velvilji. Öllu þessu fékk ég að kynnast hjá Sigríði Knudsen, henni Siggu systur minni.
Og nú kveð ég hana með söknuði.