Fara í efni

SIÐMENNT EN EKKI KÁRAHNJÚKAR

Frettablaðið
Frettablaðið

Birtist í Fréttablaðinu 25.10.12.
Sagt hefur verið í mín eyru að það komi úr hörðustu átt þegar ég vilji að almennt gildi það um mál sem fyrir Alþingi eru lögð, að þau komi til atkvæðagreiðslu. Fyrr á árum hafi ég iðulega gengið hart fram í því að koma í veg fyrir einmitt þetta með langri og stundum óbilgjarnri umræðu í þingsal. Í því sambandi eru síðan nefnd mál á borð við Kárahnjúkavirkjun, einkavæðingu Símans, bankanna og grunnvatnsins, hlutafélagsvæðingu Ríkisútvarpsins og sitthvað fleira. Nokkuð er til í þessari gagnrýni. Í fámennri stjórnarandstöðu varð þrautalendingin stundum sú að reyna að skjóta málum á frest og skapa þannig ráðrúm til almennrar umræðu í þjóðfélaginu, mætti hún verða til að koma í veg fyrir hið óumflýjanlega í atkvæðagreiðslu á Alþingi, þar sem úrslitin réðust oftar en ekki af flokksaga.
Málþóf og tafir er vissulega umdeilanleg baráttuaðferð og eftir því sem þingmenn verða sjálfstæðari í skoðunum og vinnubrögðum mun hún án efa úreldast. Vonandi.
En nú hefur komið vel á vondan því nú hendir það mig eins og forvera mína á ráðherrastóli að mál sem ég hef lagt fram komast ekki til endanlegrar afgreiðslu. Eitt slíkt mál er frumvarp um lífsskoðunarfélög, lagaheimild til að virða tilverurétt félags á borð við Siðmennt, til jafns við trúfélög.
Andstæðingar þessa frumvarps hafa hingað til komið í veg fyrir að það komi til atkvæðagreiðslu.
Viðurkenning á lífsskoðunarfélögum á borð við Siðmennt gengur ekki á rétt nokkurs manns til að velja sér trú, trúarbrögð eða trúleysi. Um er að ræða að jafna stöðu fólks sem kýs sér mismunandi vettvang fyrir mannrækt, tilvistarspurningar og andlega þekkingarleit. Mér hefur þótt það bera vott um víðsýni ýmissa leiðandi aðila innan Þjóðkirkjunnar að styðja þetta frumvarp og þar með viðurkenningu á Siðmennt og því góða starfi sem þar er unnið. 
Ætli menn að koma í veg fyrir  að lífsskoðunarfélög geti öðlast  viðurkenningu til jafns á við trúfélögþá verða hinir sömu að gera grein fyrir þeirri afstöðu sinni og þeim hagsmunum sem eru í húfi. Siðmennt er hvorki Kárahnjúkar né bankaeinkavæðing. Siðmennt hefur uppskorið almenna viðurkenningu og virðingu. Jákvæð afstaða til uppbyggilegra lífsskoðunarfélaga ætti að eiga hljómgrunn í öllum stjórnmálaflokkum. Á það þarf að láta reyna á Alþingi.