Fara í efni

Siðlaus Sýn

Birtist í Mbl
Í kjarasamningum undangenginna áratuga hafa samtök launafólks lagt mikla áherslu á að tryggja réttindi fólks í veikindum. Mikið hefur áunnist í þessu efni en þó ber þess að gæta að stöðugt þarf að standa vaktina svo það sem unnist hefur verði ekki frá okkur tekið. Þær raddir hafa nefnilega heyrst að rétt sé að skerða veikindaréttinn, klípa af honum fyrstu tvo til þrjá dagana í hverju veikindatilviki, jafnvel lengri tíma. Þá daga fengi fólk ekki launaða en með þessu móti væri að sögn komið í veg fyrir misnotkun á veikindaréttinum. Þeir sem hafa haldið þessu sjónarmiði á lofti segja að það sé algengt að fólk líti á veikindaréttinn sem eins konar frí sem hver og einn eigi rétt á óháð heilsufarinu.

Innan samtaka launafólks höfum við harðlega mótmælt þessu og bent á að misnotkun örfárra einstaklinga á veikindarétti megi ekki bitna á fjöldanum sem fari að settum reglum. Við höfum einnig bent á þá augljósu staðreynd að það er ekki vinnustaðnum til framdráttar að knýja fólk til að koma sjúkt til vinnu. Slíkt leiðir iðulega til þess að fólki slær niður og að sjálfsögðu er hætt við því að fólk smiti aðra ef það mætir veikt til vinnu. Á þessu eru margar fleiri hliðar. Þannig má ætla að tekjulítið fólk sem ekki hefði ráð á því að verða af tveggja til þriggja daga launum myndi öðrum fremur brjótast til vinnu sinnar jafnvel þótt það væri fárveikt. Auðvitað byggist þetta kerfi á heiðarleika. Ef kerfið er misnotað mun það ekki standast tímans tönn. Misnotkunin felst í því að fólk tilkynni veikindi án þess að vera veikt. Ég leyfi mér að fullyrða að slíkt heyri til algjörra undantekninga.

Það er sorglegt að sjá auglýsingar sem nú birtast frá sjónvarpsstöðinni Sýn vegna íþróttaviðburða sem verða á dagskrá stöðvarinnar á næstunni. Auglýsingarnar verða ekki skildar á annan veg en að fólk sé hvatt til að velja sér „veikindadaga“ þegar leikir eru sýndir. Þetta er eflaust hugsað sem auglýsingabrella og má vonandi fella undir hugsunarleysi. Ef ekki þá er greinilegt að mönnum finnst réttlætanlegt að nota öll meðul, jafnvel grafa undan réttindum launafólks, í þeim tilgangi að örva áhorf og þar með auka auglýsingatekjur stöðvarinnar.

Þetta er siðlaus auglýsingamennska og stöðinni ekki til framdráttar. Ég leyfi mér að beina því til Sýnar að endurskoða þessa auglýsingaherferð.