Fara í efni

SIÐFRÆÐI MARKAÐSSINNA OG RÁÐHERRANN HAMINGJUSAMI

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, segir rangt að fyrirtæki eins og Landsvirkjun niðurgreiði rafmagnsnotkun landsmanna. Slíkar niðurgreiðslur eigi að koma frá skattborgurunum úr ríkissjóði. Þetta er vissulega samkvæmt kokkabókum peningafrjálshyggjunnar sem Framsóknarmenn boða nú öllum öðrum ákafar. Öðru vísi mér áður brá. Sú var tíðin að fullkomlega eðlilegt þótti að innan starfsemi á borð við síma- og póstþjónustu og raforkuframleiðslu væri tilflutningur á fjármunum til jöfnunar. Samkvæmt nýju hugsuninni skal hins vegar markaðsvæða allt sem arðvænlegt er en láta skattborgarann sitja uppi með hið óarðvænlega.

 En Jóhannes Geir gleymdi að svara einni spurningu. Kannski var aldrei spurt. Er í lagi að Landsvirkjun og eigendur hennar og aðrir viðskiptavinir niðurgreiði orkusölu til stóðriðjufyrirtækja? Og þykir stjórnarformanni Landsvirkjunar í lagi að mismunað sé í þágu erlendra stóriðjufyrirtækja í ofanálag með skattaívilnunum? Samræmist það hinni nýju siðfræði Framsóknarflokksins?

Allt þetta þykir Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra og flokkssystur Jóhannesar Geirs, hið besta mál . Hún sagði á Alþingi í gær að sér þætti það álitlegur kostur að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í orkufyrirtækjunum. Það mega þeir hins vegar ekki gera lögum samkvæmt nema þeim bjóðist hámarksarður. Ekki veit ég hvort ráðherrann hefur hugleitt það. Nema Valgerði þyki það vera í góðu lagi og finnist raforkukaupendur ekkert of góðir til að borga brúsann. Þeir sem standa verst að vígi fengju þá væntanlerga aðstoð úr skattbuddunni.

Mér er spurn: Er hægt að búa til vitlausara kerfi? Samkvæmt nýrri skýrslu Evrópusambandsins hefur hin nýja skipan raforkumála í ESB alls ekki gengið upp. Fyrir þessu gerði ég grein á Alþingi í gær. En eins og fyrri daginn var það eins og að skvetta vatni á gæs. Hvorki þessi einstaki ráðherra né ríkisstjórnin í heild hefur áhuga á að hlusta á röksemdir og frásagnir af reynslu annarra. Þegar veruleikinn og kenningarnar rekast á hlýtur veruleikanum að vera ábótavant! Ekki kenningunum. Þetta hlýtur að lagast, sagði ráðherrann í gær þótt hún yrði að játa að ekki hefðu skipulagsbreytingarnar komið út alveg eins og búist var við.

En áfram heldur hún ótrauð, hamingjusöm í þeirri vissu að hún sé að gera rétt. Allt í anda yfirlýsingar sem hún gaf við umræður um nýskipan í raforkurekstri 26. nóvember: Það er heldur ekkert launungarmál að það voru ekkert óskaplega margir aðdáendur frumvarpsins hér á landi þegar það kom fyrst fram. Það er eiginlega alveg stórmerkilegt að það skuli þó hafa náð að verða að lögum og vera komið á þann stað í stjórnsýslunni sem raun ber vitni. Ég er þó alltaf jafnhamingjusöm með frumvarpið og lögin og ég held að það hljóti að segja sína sögu. “

Jú, vissulega segir það sína sögu, bæði um frumvarpið og ekki síður ráðherrann.