Fara í efni

SFR 70 ÁRA!



SFR - Stéttarfélag í almannaþjónustu heldur nú upp á 70 ára afmæli. Hefur félagið af þessu tilefni sent landsmönnum félagsblað með kveðjum og sögulegum upplýsingum um sjálft sig sem Þorleifur Óskarsson sagnfræðingur hefur tekið saman.
Í ritinu er m.a. að finna kveðjur frá mér sem ég sendi sem fráfarandi formaður BSRB, nýkominn út úr áratuga löngu samstarfi við þetta félag á vettvangi BSRB. Fylgir ávarpið hér:

BARÁTTUKVEÐJUR TIL SFR

Ég færi SFR baráttukveðjur inn í framtíðina jafnframt því sem ég þakka félaginu gott samstarf um langt skeið.
SFR er stærsta félagið innan BSRB og hefur af þeim sökum jafnan haft mikil áhrif innan bandalagsins. Þessi áhrif voru þó ekki einvörðungu stærðarinnar vegna heldur vegna kraftmikilla SFR félaga sem skipuðu sér í framvarðarsveit opinberra starfsmanna.
Mér eru minnisstæðir margir slíkir einstaklingar allar götur frá því ég steig fyrst inn á vettvang verkalýðsbaráttunnar í BSRB fyrir þremur áratugum.
Frá því ég var kjörinn formaður BSRB árið 1988 hef ég starfað með fjórum formönnum SFR. Fyrst Einari Ólafssyni, þá Sigríði Kristinsdóttur, síðan Jens Andréssyni og loks Árna Stefáni Jónssyni núverandi formanni. Allir þessir einstaklingar hafa látið mjög að sér kveða innan heildarsamtakanna.
Þannig má geta þess að Einar Ólafsson var afgerandi í stefnumótun og ákvörðunum sem lutu að orlofsbyggðum, ekki aðeins í SFR heldur einnig hjá BSRB. Þá var hann og áhrifamikill í kjarabaráttunni og átti sinn þátt í því hvernig farvegur var mótaður í aðdraganda Þjóðarsáttarsamninganna árið 1990. Sigríður Kristinsdóttir var í sinni formannstíð ötul baráttukona fyrir velferðarþjóðfélaginu og beitti sér af alefli í þágu jafnréttis og jafnaðar. Jens Andrésson var með svipaðar áherslur, drífandi framfaramaður sem lét verkin tala. Sömu sögu er að segja af Árna Stefáni Jónssyni núverandi formanni SFR.
Þessum einstaklingum öllum svo og þeim mikla fjölda fólks úr SFR sem ég hef átt saman við  að sælda á undangengnum áratugum þakka ég gott samstarf á sameiginlegri vegferð.
SFR er blandað félag sem kallað er, þar er að finna fólk úr mörgum starfsstéttum en ekki neinni einni fagstétt. Tilhneigingin í seinni tíð hefur verið sú að fagfélög hafa myndað stéttarfélög. Það hefur hrikt í þegar fagstéttirnar hafa rifið sig lausar og farið sínar leiðir út úr hinum blandaða félagsskap. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt hlutskipti fyrir blönduðu félögin, hvort sem það er SFR eða bæjarstarfsmannafélögin sem einnig eru blönduð, þegar þau hafa þurft að sjá á eftir fagstéttum hverfa úr sínum röðum.
Fagstéttarfélögin hafa sína kosti. Þannig getur það verið auðveldara að skapa sterkan liðsanda í einsleitum félögum því félagsmenn eiga hægar með að fylkja liði að baki skýrum markmiðum sem augljóst er að allir eiga sameiginleg. Það breytir því hins vegar ekki að það er öllu launafólki sameiginlegt hagsmunamál að beita sér fyrir almennri velferð og félagslegu réttlæti í samfélaginu. Það er mín reynsla að slík sýn á  kjarabaráttuna sé líklegri þegar mismunandi hópar koma saman undir einu félagslegu þaki. Í þessu er fólginn styrkur hinna blönduðu félaga. Þessi félagslega sýn er rík í baráttuhefðum SFR og hafa þeir sem valist hafa til forystu í félaginu jafnan lagt rækt við þessa arfleifð. Fyrir þetta vil ég sérstaklega færa SFR þakkir jafnframt því sem ég á þá ósk félagsfólki og reyndar öllu launafólki til handa að verkalýðshreyfingin missi aldrei sjónar á hinum samfélagslegu gildum.
Sjötíu ár eru óneitanlega all hár aldur í íslenskri félagasögu. Hvar SFR verður statt í þróunarferlinu á aldar afmælinu getur enginn sagt fyrir um með vissu. Sjálfur er ég sannfærður um að SFR á bjarta framtíð - hún verður björt ef menn sameinast um að gera hana bjarta.
Sjaldan hefur það verið eins augljóst að launafólk þarf á kröftugri og lifandi verkalýðshreyfingu að halda sjálfs sín vegna; stjórnvöld þurfa á henni að halda sér til halds og trausts og þá ekki síst nú sem aðhaldsafli og mótvægi við frek fjármagnsöflin. Án sterkrar verkalýðshreyfingar, gagnrýninnar og róttækrar, munum við aldrei rétta út kútnum. Það ætlum við hins vegar að gera. Þess vegna er sterk verkalýðshreyfing þjóðarhagur. Megi SFR rísa undir væntingum okkar og óskum.

Ögmundur Jónasson,
fyrrverandi formaður BSRB