Fara í efni

SÉRA GUNNAR FÓR TIL BETLEHEM

Ég sagði hér á síðunni að mér fyndist að prestar landsins ættu að bregða sér til Betlehem samtímans í jólapredikunum sínum, ekki láta sér nægja að bregða upp mynd af atburðum þaðan fyrir tvö þúsund árum. Sú kúgun sem fólk á þar við að stríða núna hlyti að verða mönnum umfjöllunarefni. Mér var bent á að þetta hefði einmitt verið viðfangsefni í jólamessum prófastsins á Kjalarnesi, séra Gunnars Kristjánssonar á Reynivöllum í Kjós. Oft hef ég vitnað í frábærar predikanir séra Gunnars og geri nú enn. Í upphafi predikunar hans í jólamessu á Reynivöllum komst hann svo að orði:

“Ég er að fara til Betlehem og ætla að vera þar yfir jólin” sagði kunningi minn þegar ég hitti hann fyrir nokkrum dögum. “Til Betlehem...” Upp í hugann kom myndin af Maríu og Jósef á leið yfir fjöllin til litla þorpsins sem er táknmynd í hugum kristinna manna. Þau voru einnig á leið til Betlehem.

Við vorum í Litlu kaffistofunni vestan til á Hellisheiði. Barnabörnin, sem voru með afa á leið í Kjósina, hættu skyndilega að drekka skyrdrykkinn sinn þegar kunningi minn, sem er læknir, sagði þessa setningu: “Ég er að fara til Betlehem.” Svo bætti hann við að hann væri ekki að fara í skemmtiferð heldur til að heimsækja vini sína og kunningja, Palestínufólk, sem þekkir ugg og ótta flestum jarðarbúum betur. Hjá þeim ætlaði að hann að vera um jólin, vinna aðeins á sjúkrahúsi, binda um sár og hlú að fólki sem berst fyrir því að fá rétt til að lifa í sínu eigin landi.

Flestir íbúar í Betlehem eru múslimar; en kristnir menn eiga þar langa og merka sögu. Borgin litla, í útjaðri Jerúsalem, er á svæði Palestínumanna og umgirt múrvegg sem skilur hana frá umhverfinu. Fátækt er gífurleg og atvinnuleysi mikið.

Yfirlæknir á barnaspítala í Betlehem, Dr. Hiam Marzouqa, segir í erlendu fréttatímariti í dag: “Ég hef það á tilfinningunni að jólin séu haldin hátíðleg alls staðar annars staðar í heiminum en hér í Betlehem, þar sem Jesús fæddist. Ég óska mér þess að framtíðin beri annað í skauti sínu, að við fáum að gleðjast á jólum á nýjan leik.“

Betlehem var skyndilega komin inn í samtímann þarna á Hellisheiðinni og spurningin vaknaði: Var það eitthvað þessu líkt þegar Jesús fæddist, var þá fólk sem barðist fyrir lífi sínu og fyrir landi sínu? Já, svo sannarlega og þar á meðal voru foreldrar jólabarnsins, Jósef og María sem komu lúin til litla þorpsins þar sem Davíð ættfaðir Jósefs hafði verið fjárhirðir í bernsku sinni. Jesús kom til að gefa þessu fólki vonina að nýju. Um það snúast jólin, um vonina sem gefur manninum kraftinn til að lifa....

Undir lok predikunar sinnar beinir séra Gunnar huganum aftur til Jerúsalem því "þangað stefnir hugur okkar á þessari stundu." Hann vísar í orð Jesaja spámanns: "Í framtíðinni sér spámaðurinn þá daga renna upp þegar engin þjóð muni sverð reiða að annarri þjóð og öll hertygi skuli brennd og verða eldmatur.

Það er engin tilviljun að einmitt þessi texti skuli prýða torgið fyrir framan aðalbyggingu Sameinuðu þjóðanna í New York, þetta er texti þar sem orðum er komið að einni glæsilegustu framtíðarsýn mannsins og allir eiga sameiginlega.

Það gefur þessum texta aukna dýpt þegar við hugsum til þess að hann varð til við dapurlegustu aðstæður Ísraelsþjóðarinnar, þegar hún var umsetin hinu mikla herveldi fyrri tíma, Assýríumönnum, Jesaja hefur verið nefndur spámaður hins heilaga.

Spádómur Jesaja um nýja von fyrir þjóðina sem í myrkri gengur og um fæðingu barnsins sem mun leiða hana til farsældar og friðar – þann spádóm túlkuðu kristnir menn sem spádóm um Jesúm Krist.

Spádómur Jesaja um nýja von fyrir þjóðina sem í myrkri gengur og um fæðingu barnsins sem mun leiða hana til farsældar og friðar – þann spádóm túlkuðu kristnir menn sem spádóm um Jesúm Krist.

Annar spámaður, sem skrifaði um von mannsins öðrum fremur, skrifaði einnig tímamótaverk í stríði. Í síðari heimsstyrjöldinni skrifaði þýski heimspekingurinn Ernst Bloch tímamótaverk þegar land hans og ættjörð lá í rústum stríðsins, hann var þá landflótta í Bandaríkjunum en sneri aftur strax að stríði loknu. Enginn hefur skrifað eins sterkt um vonina sem grundvallareiginleika mannsins. Hann hafði gríðarleg áhrif á aðra heimspekinga, á stjórnmálamenn og guðfræðinga – janvel þótt hann teldi sig vera guðleysingja. Ástæðan er sú að hann gerði grein fyrir þeim sterka þætti sem vonin á í mannlegri tilvist.

Í tímamótaverki sínu um vonina, sem er hátt á annað þúsund síðar, sýnir hann fram á að trú og von heyra saman og verða ekki skilin að: sá sem á vonina hann á einnig trúna.

Sterkasta myndin sem hann fann í bókmenntum heimsins um von mannsins og draum hans um frið er jólaguðspjallið. Engin saga er eins sterk: hún höfðar beint til mannsins í innstu veru hans. Ástæðan er sú að í þessu litla barni í jötunni í Betlehem verður þessi draumur að veruleika. Hér var ekki að fæðast konungur eða keisari, enginn valdsins maður og enginn sem átti eftir að gæta sinna eigin hagsmuna, hann átti ekki eftir að safna auði og eignum. Jatan er sterkt tákn: hér er sá sem ekkert á – ekkert – nema það sem öllu máli skiptir: von handa manninum, handa fjárhirðum og vitringum, handa öllum þeim sem leita hans og þrá hann í hjarta sínu.

Jatan er tákn um annars konar veruleika en við erum vön, um annan heim en þann sem okkur finnst við lifa í þar sem lífsgildin eru harðari og önnur, þar sem okkur finnst allt á því velta að við berum sigur úr býtum, að jólaguðspjallið sé að vísu falleg og hugljúf saga en ekki raunhæf.

Heimspekingurinn Ernst Bloch lítur málið öðrum augum. Einmitt í þessum draumi um betri heim er manninum borgið, það er hann sem heldur uppi lífi hans, vonin í hvaða mynd sem hún er, er það sem gefur honum kraftinn til að lifa og ekki aðeins til að lifa heldur einnig til að leggja sig fram, berjast fyrir góðum málstað, láta eitthvað í sölurnar fyrir það sem er gott, fagurt og satt. Sumum finnst nútíminn ofurseldur annarlegum öflum sem höfða til lægstu hvata mannsins, ekki aðeins til afþreyingarinnar heldur einnig til hvata sem eru í beinni andstöðu við hinn ævaforna draum mannsins um hið góða, fagra og sanna.

Trúarbrögðin varðveita þennan draum mannsins jafnvel þótt þau taki stundum á sig ógeðfelldan svip. Sama á við um hugsjónahreyfingar, jafnvel stjórnmálahreyfingar.

Jesús Kristur er ímynd þeirrar vonar sem býr dýpst í hjarta mannsins. Hann leitaði ekki síns eigin heldur gaf allt í sölurnar og gaf öðrum sama eldmóð og fyllti aðra sömu von sem gefst aldrei upp – en  leitaði einskis fyrir sjálfan sig eins og jatan og krossinn sýna best. Jesús er tákn þess afls í þessum heimi sem brýtur fjötra sérhvers valds sem hneppir manninn í viðjar, af hvaða tagi sem það er. “Óttist ekki” var jólaboðskapurinn sem hirðarnir heyrðu og festu í hjarta sínu. Sá sem horfir á hann, tekur mið af honum, sá sem gerir málstað hans að sínum og lætur anda hans leiða sig og vera sinn mælikvarða í daglegu lífi sem hinum stóru ákvörðunum: hann varðveitir málstað hans í hjarta sínu..."

Séra Gunnar Kristjánsson messaði einnig í Brautarholtskirkju á jóladag og var henni útvarpað. Þar fjallaði séra Gunnar einnig um vonina og kom víða við. Ég fékk leyfi séra Gunnars Kristjánssonar til að birta predikun hans á heimasíðunni og fer hún hér á eftir:

Jólin 2006. Brautarholtskirkja. Útvarpsmessa
Textar: Jes. 9. 1-7; Tít. 3. 4-7; Lúk. 2. 1-14
Náð sé með yður og friður.
Aðeins birtan frá ljóskeri hirðanna lýsir upp fjárhúsið í einni af fjölmörgum myndum hollenska málarans Rembrandts um jólaguðspjallið.

Í niðamyrkri hafa þeir safnast saman kringum jesúbarnið og eftirvæntingin liggur í loftinu eins og ljós í myrkri. Meistarinn kunni ekki aðeins að koma myrkrinu til skila og gera það nánast áþreifanlegt; enginn gerir ljósinu betur skil en hann.

Á þessu ári eru fjórar aldir liðnar frá fæðingu Rembrandts og hafa Hollendingar stillt upp verkum meistarans í sýningarsölum í Amsterdam vítt og breitt, í tilefni af afmælinu.

Þar á meðal er koparstungan um fjárhirðana sem Rembrandt gerði um fimmtugt. Hún sýnir tökin sem meistarinn hafði á atburðum jólanna, þar sem ljós og myrkur eigast við. Jólin túlkar hann ekki af minni snilld í myndum en samtímamaður hans Hallgrímur Pétursson fæst við þjáninguna í orðum.

Reyndar eru sumar koparstungurnar afar dökkar enda gerast margir atburðir jólafrásagnanna um nótt. Jesúbarnið fæðist um nótt, vitringarnir koma til sögunnar um stjörnubjarta nótt og í skjóli nætur flýr “hin heilaga fjölskylda” – eins og Rembrandt nefnir hana ávallt – til Egyptalands, undan grimmd Heródesar.

Sama á við um þessa tilteknu mynd af hirðunum í fjárhúsinu sem ber heitið “Lotning fjárhirðanna”. Þeir koma beint af vettvangi harðrar lífsbaráttunnar, þessir fulltrúar fólksins í neðsta þrepi samfélagsstigans. Hina helgu nótt lenda þeir óvænt í sviðsljósinu.

Hirðarnir komu mér í hug skömmu fyrir jól þegar ég sá fréttamyndir ársins í bandaríska vikuritinu Time. Þar er opnumynd úr hverfi Hizbollamanna í Beirut í Líbanon eftir sprengjuárásir Ísraelsmanna á hverfið í haust, sú mynd hverfur ekki úr huga mínum. Ungur maður, sem staulast yfir brotna húsveggi á uppsprengdum götum, milli bílhræja og húsarústa, lendir óvænt í sviðsljósi fréttamiðla heimsins. Hér er vettvangur ólýsanlegs harmleiks. Kannski var þetta ungur Hizbolladrengur með sorg í auga en ódrepandi þrá til framtíðarinnar í hjarta, staðráðinn í að halda áfram baráttu fyrir réttlæti og friði í dimmri veröld sem engu eirir ef henni sýnist svo. Hizbolladrengur, sem laut í lægra haldi fyrir þeim tíðaranda sem tilbiður sigurvegarann, og vill kenna þér þá lexíu að best sé að óttast þá sem sterkastir eru og lúta þeim sem standa keikir á verðlaunapöllum lífsins. Kannski einn palestínskur fjárhirðir í leit að réttlæti lífsins. Hér er ekkert heilagt nema eitt: vonin sem býr í hjarta drengsins.

Frásagnir jólanna í hinum fornu ritum endurspegla þennan heim ljóss og skugga, þar er slegið á strengi mannlegrar tilvistar, þetta er okkar heimur. Hér er grimmdin ekki síður en umhyggjan, þarna eru hirðar og vitringar, og skammt undan er Heródes með lið sitt til að útrýma nýfæddum börnum. Stef jólanna eru mörg. Þar er ekki aðeins friður, einnig ófriður, ekki aðeins von, einnig vonleysi, ekki aðeins englasöngur, einnig vopnaglamur, ekki aðeins ljós, einnig myrkur.

Í næturmyrkrinu á koparstungu Rembrandts berst birtan frá ljóskeri hirðanna og lýsir dauft upp nokkur andlit sem öll horfa í sömu átt. Fleiri koma í ljós þegar rýnt er í myndflötinn. Á miðri myndinni sést í Maríu þar sem hún hvílir þreytt á fleti sínu og Jósef situr með bók í hendi. Á milli þeirra kúrir Jesúbarnið í myrkrinu.

Markmið meistarans liggur nokkuð ljóst fyrir. Hér hvílir myrkur yfir djúpinu eins og að morgni hins fyrsta dags, óvissa og eftirvænting liggja í loftinu. Kraftur nýrrar sköpunar býr í myrkrinu.

Þetta er svipmynd af heilögu augnabliki þar sem tíminn hefur numið staðar og eilífðin hefur brotið sér leið inn í veröld mannsins.

Hið heilaga augnablik, sem meistarinn kemur til skila í þessum verkum, er kjarni málsins. Stundin er þrungin af návist guðdómsins. Þetta er stund langþráðrar vonar þar sem hið nýja brýtur sér leið inn í tilvist fjárhirðanna og þeir falla í lotningu fram fyrir nýfæddu barninu.

Rembrandt vinnur hér í anda langrar dulhyggjuhefðar meðal alþýðumanna á Rínarsléttum þar sem markmiðið var eitt: að hverfa inn í veruleika guðdómsins og verða gagntekinn af hinu heilaga “eitt augnablik tímans” svo notað sér orðalag Gerhardi hugvekja sem gefnar voru út hér á landi um sama leyti og Rembrandt gerði myndina af fjárhirðunum.

Það er barnið sem hvílir hér sofandi í allsleysi sínu sem táknar návist hins nýja veruleika í lífi mannsins. Líkt og önnur börn vekur þetta barn til lífsins það besta sem býr í hverjum manni.

Hver undrast ekki takmarkalaust trúnaðartraustið sem skín úr augum barnsins? Er hægt annað en undrast og dást að því sem birtist í einlægni hvítvoðungsins – og hvernig er hægt að misnota trúnaðartraust barns? “Undrun” er einmitt orðið sem Oddur Gottskálksson notar í þýðinu sinni á jólaguðspjallinu. Undrun frammi fyrir hinum heilaga leyndardómi í mynd barnsins. Hljótum við ekki að undrast þegar við horfum á varnarlausan hvítvoðunginn í heimi sem er svo fullur af sjálfselsku og samkeppni? Hversu oft höfum við ekki heyrt afa og ömmur lýsa óvæntri tilfinningu sinni yfir nýfæddu barni? Þetta á einnig við um fólk sem telur sig ekki sérlega næmt á umhverfi sitt og virðist tilfinningadauft fyrir gleði og góðvild í hinu hversdagslega: jafnvel það fólk getur óvænt og skyndilega nánast fallið fram og tilbeðið hvítvoðunginn í orðlausri undrun.

Ekkert af þessu þarf að koma á óvart því að sérhvert barn, ekki aðeins jesúbarnið, kallar margt óvænt fram í fari hins fullorðna: hugsum t.d. um löngun til að verja hinn varnarlausa, eða einlægar tilfinningar sem vakna og blómstra við vöggu barnsins en eru oft svo daufar og vandlega faldar í hópi hinna fullorðnu. Hugsum um viljann til að draga sig í hlé svo að barnið fái að njóta sín, hugsum um þolinmæði, umburðarlyndi, eftirvæntingu, von – svo margt gott sem ungbarnið kallar fram og sýnir að við eigum öll innra með okkur.

Lúkas segir sögu sem er öðrum sögum dýrmætari vegna þess að hún fjallar um það sem býr innst með manninum, löngun hans til hins góða og til að gera þennan heim betri. Mætum við ekki jólabarninu í hverju mannsins barni? Er það ekki jólaboðskapurinn, að hið góða, fagra og fullkomna er ekki fjarri í þessum heimi heldur nærri?

Það er innra með fjárhirðunum sem undrið gerist, þegar hin yfirþyrmandi návist guðdómsins grípur þá, stundin þegar eilífðin verður hlutskipti þeirra eitt andartak. Draumur mannsins rætist í þessari sögu, draumur dulhyggjumanna allra tíma um að fá að finna návist hins heilaga.

Eilífð og andartak mætast á þessari stund. Maðurinn er snortinn af hinu heilaga líkt og örin úr boga Amors hafi hæft hann í hjartastað og hann verður aldrei samur aftur.

Í hjarta hirðanna hefur vonin kviknað að nýju.

Einn þekktasti heimspekingur tuttugustu aldar, Ernst Bloch, hefur kallað þennan atburð ímynd draumsins sem allir menn eiga sameiginlegan, um betra líf.

Í verkum þessa heimspekings er eitt meginþema: það er vonin sem lokkar og dregur til hins óorðna. Það sem framundan er ákvarðar líf mannsins, segir hann. Hvorki hið liðna né hið líðandi, heldur hið óorðna: hvað er framundan, hvað býr í hinum ókomna tíma?

Heimspekingurinn dregur málið saman í fáum orðum í meginriti tuttugustu aldar um vonina, sem var reyndar skrifað í hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar: „Þar sem von er, þar er trú“. Hann á við von sem hefur í sér „sprengikraft“ og horfir fram á við,  til þess tíma þegar lausnin kemur, þegar paradís framtíðarinnar verður að veruleika. Vonin “er eins og tígrisdýr sem liggur í makindum en stekkur þá fyrst er augnablikið rennur upp” hefur nemandi Blochs sagt. Von sem er ekki blekking eða orðið eitt heldur sprengikraftur hins nýja.

Hugsjónamenn allra tíma eru knúðir áfram af von og þrá til að gera líf mannins betra. Meginhlutverk trúarbragðanna er að varðveita von mannsins, hún er innsti kjarni þeirra. Því er sjaldnast langt á milli hugsjónastefna og trúarbragða.

Jólaguðspjallið er meira en saga, það stillir manninum upp andspænis nýjum veruleika vonarinnar, eða öllu heldur: það bregður á loft nýjum valkosti, það leysir úr læðingi nýja von og nýja lausn sem gefur honum vilja og löngun til að berjast fyrir því sem gott er, fagurt og satt.

Valkosturinn snýr að þeirri von sem býr yfir sprengikrafti hins nýja sem höfundur Opinberunarbókarinnar orðar svo með þessum þekktu orðum: “Sjá ég geri alla hluti nýja.” Hinn nýi veruleiki er ekki sýndarveruleiki, heldur von í þessum heimi, þar sem óttanum er úthýst í hvaða mynd sem hann birtist.

Trúin sem tengist barninu í jötunni snýst ekki um að festa hið liðna í sessi heldur opna hinu nýja leið inn í þennan heim, bjóða myrkrinu byrginn og feta sömu slóð og hann sem átti jötuna að tákni ekki síður en krossinn.

Trú okkar kristinna manna snýst um þá von. Að láta anda hans leiða sig í þessum heimi, hvort sem er í daglegu lífi eða í hinum stóru ákvörðunum í pólitík og málefnum samfélagsins. Að varðveita hann í hjarta sínu líkt og María varðveitti hann í fangi sér á leið til Epyptalands.

Fyrir hálfri öld orti Snorri Hjartarson ljóð um vonina, það var skömmu eftir innrás Sovétríkjanna í Ungverjaland árið 1956.  Í þeirri mynd sem dregin er upp í ljóðinu er sagan um Jósef og Maríu á flótta til Egyptalands. Tákn vonarinnar í ljóðinu er nýfætt barnið sem María felur í faðmi sínum.

Eg heyrði þau nálgast
í húminu, beið
á veginum rykgráum veginum.

 Hann gengur með hestinum
höndin kreppt
um tauminn gróin við tauminn.

 Hún hlúir að barninu
horfir föl
fram á nóttina stjarnlausa nóttina.

Og ég sagði: þið eruð
þá enn sem fyr
á veginum flóttamannsveginum,

en hvar er nú friðland
hvar fáið þið leynst
með von ykkar von okkar allra?

Þau horfðu á mig þögul
og hurfu mér sýn
inn í nóttina myrkrið og nóttina.

Við jötuna áttu hirðarnir stefnumót við hinn heilaga veruleika Guðs. Við þekkjum okkur í sporum þeirra í rökkvuðu fjárhúsinu áður en þeir hverfa aftur út í myrkrið líkt og aðrar persónur sögunnar – en birta Jesúbarnsins er í hjarta þeirra.

Við þekkjum okkur sjálf í sporum þeirra, í eftirvæntingarfullum svip þeirra. Nú er hið uppfyllta augnablik. Hinn heilagi veruleiki Guðs kemur til þeirra sem þrá hann innst inni og vilja gera hjarta sitt að jötu hans. Amen

Takið hinn postullegu kveðju:

Náð drottins vors Jesú Krists og kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen


78   Í dag er glatt í döprum hjörtum;

94   Jesús þú ert vort jólaljós;

72   Nóttin var sú ágæt ein;

73 Í Betlehem er barn oss fætt;

82   Heims um ból

Drottinn blessi þig og varðveiti þig
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.