Fara í efni

SENN ANDAR SUÐRIÐ SÆLA VINDUM ÞÝÐUM

Í frétt í Morgunblaðinu frá í gær segir: 

“Orkustofnun kynnti fyrr á þessu ári 34 vindorkukosti til fjórðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar, sem nú er að störfum. Ástæðan fyrir áhuga innlendra og erlendra orkufyrirtækja er væntanlega sú að kostnaður við að koma upp vindorkugörðum hefur farið lækkandi og þessi orkukostur er að verða samkeppnisfær.”

Nú mætti segja mér að Jónas Hallgrímsson, listaskáldið góða, hefði orðið glaður, væri hann á meðal okkar, sæi hann hvað gera má með “vindum þýðum” fyrir land og þjóð, enda örugglega það sem hann átti við þegar hann kvað:
“Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.”

Jónas yrði að vísu að bíta í það súra epli að ekki er víst að “vindmyllu-lundirnir” verði endilega í þágu landsins og þjóðarinnar: Nýlega féllst Skipulagsstofnun á matsáætlanir fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna tveggja fyrirhugaðra vindorkuvera með skilyrðum. Það er annars vegar tillaga EM Orku að matsáætlun vegna allt að 130 MW vindorkuvers í landi Garpsdals í Reykhólahreppi. Hins vegar tillaga Storm-Orku að 80-130 MW vindorkuveri í landi Hróðnýjarstaða í Dalabyggð.”

Og enn skal vitnað í frétt Morgunblaðisns um þessa nýju tegund gróðurræktar. Þar er vísað í fyrirhugaðan “lund” Landsvirkjunar: “Fram kemur á vef Landsvirkjunar að lundinum hafi verið valinn nýr staður, hann verði mun minni en ráðgert var í fyrstu, eða um 18 km² í stað 33 km² og vindmyllur verða um 30, í stað 67 áður.”

Hvílík hófsemi og hve vel það er til fundið að tala um lund, einhvern veginn yljar það og er notalegt, mannvænt, jafnvel barnvænt; um lund leika sælir vindar. En sennilega verður lítið um bí bí og bra bra í þessari tegund nýræktar á Íslandi.

En það er önnur saga.