Fara í efni

Sendum þá til Íraks

Vaxandi reiði gætir nú hér á landi yfir fylgispekt íslensku ríkisstjórnarinnar við Bandaríkjastjórn. Ísland er í hópi 30 ríkja sem Bandaríkjstjórn telur upp sem sauðtrygga stuðningsmenn sína og forsætisráðherra Íslands lýsir því fjálglega yfir að Íslendingar hafi veitt "heimild til yfirflugs yfir íslenska flugumsjónarsvæðið. Í öðru lagi heimilum við afnot af Keflavíkurflugvelli ef þurfa þykir. Í þriðja lagi tökum við þátt í uppbyggingu í Írak eftir að ófriði lýkur. Í fjórða lagi tökum við pólitíska afstöðu með því að ályktun 1441 verði fylgt eftir, að loknu fjögurrra mánaða þófi." Þingflokkur VG setti fram þingsályktunartillögu á þingi um að Íslendingar lýstu því yfir að hvorki yrði veitt aðstaða hér á landi né nokkur stuðningur við árásarliðið. Þvert á móti yrði því lýst yfir afdráttarlaust að Íslendingar fordæmdu yfirvofandi hernaðarofbeldi Bandaríkjastjórnar. Þessi tillaga fékkst ekki borin undir atkvæði. Síðan leyfa menn sér að tala á þann veg sem hér er gert, meira að segja heitið efnahagsaðstoð í kjölfar eyðileggingar sem framkvæmd verður af ásetningi og með stuðningi Íslands!! Bæði Davíð Oddsson forsætisráherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hafa í öllu þessu ferli endurómað yfirlýsingar Gerge Bush Bandaríkjaforseta þó jafnan með mærðarlegu tali um að þeir vilji forðast stríð. Þeir gefa hins vegar grænt ljós á árásina þegar á reynir. Ég leyfi mér að taka undir með þeim einstaklingi sem ég heyrði haft eftir í dag segja að réttast væri að senda þá félaga Davíð og Halldór til Íraks þó ekki væri nema til að fylgjast með afleiðingum orða sinna og gerða. Það er forkastanlegt að þeir skuli leyfa sér fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að lýsa stuðningi við ofbeldisaðgerðina og gera okkur sem þjóð þannig meðábyrg.