Fara í efni

SEINHEPPIÐ SAMKEPPNISEFTIRLIT OG EINELTIÐ GAGNVART MS

Nú þegar allt er að fara á hliðina dúkkar upp eina ferðina enn hin makalausa Samkeppnisstofnun, sú sama og sektaði Bændasamtökin um árið upp á tugi milljóna fyrir að skapa vettvang á landsfundi fyrir bændur að ræða verðlagningu a búvörum. Þetta væri ólöglegt verðsamráð! Þessa vitleysu létu stjórnvöld viðgangast. Væri sá fjarlægi möguleiki til staðar að þessi afstaða Samkeppniseftirlitsins væri í samræmi við lög hefði átt að breyta þeim lögum hið snarasta. Fyrir því var hins vegar ekki stemning á Alþingi.

MS er samvinnufyrirtæki íslenskra kúabænda sem framleiða ofan í okkur og börnin okkar mjólkurafurðir. Með samvinnufyrirkomulaginu hefur reynst unnt að halda verðlagi á mjólk og mjólkurafurðum lágu og áttu verkalýðssamtökin aðkomu að verðlagsnefndum sem fengu því framgengt að með millifærlsum á milli vöruflokka var hægt að halda þeim hluta afurðanna sem eru barnafólkinu mikilvægastur á sem lægstu verði. En millifærslur, hvað þá mismunun má það ekki heita, hver eining verði að standa sjálfbær eins og það heitir og hráefni öllum í greininni til boða á sama prís óháð því hvernig þeir koma að framleiðslunni að öðru leyti og þar með óháð þeim markmiðum sem lýðræðið kann að vilja setja. Þetta þýðir að ef verðlagi er haldið niðri á nauðsynlegustu “barnavörunni” þannig að hún gefi lítið sem ekkert af sér, sé jafnvel í minus, þá segir það sig sjálft að enginn framleiðandi vill vera þar nái hann ekki að jafna leikinn annars staðar í keðjunni. Meint misnotkun gengur meira og minna út á þetta.  

Markaðshyggjumenn í verkalýðshreyfingunni urðu feimnir við þetta fyrirkomulag og vildu fyrir bragðið út úr þessu kerfi sem þó gagnaðist skjólstæðingum þeirra afbragðs vel. Síðan hefur Samkeppniseftirlitið ásamt markaðshyggjukór hamast gegn þessu samvinnufyrirtæki kúabændanna og virðist nú ætla að fá því framgengt að það verði látið greiða næstum hálfan milljarð í sekt vegna meintrar misnotkunar á stöðu sinni.

Nær væri að stofnanir hins opinbera og réttarkerfið beindu sjónum að risunum í sjávarútvegi þar sem ásaknair hafa verið um grófa misnotkun í eigin hagnaðarskyni. Það er af allt öðrum toga og er á engan hátt samanburðarhæft við mjólkurframleiðsluna.

Ég set hér nokkra tengla um fyrri skrif mín um þetta efni en efsti tengillinn vísar í eineltið gagnvart MS. Mæli ég með því að lesendur síðunnar renni að minnsta kosti yfir þá grein.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/ms-enn-i-einelti

https://www.ogmundur.is/is/greinar/kreddufolki-bregdur-i-brun

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hugmyndafraedingar-kominr-a-kreik

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvad-gagnast-neytendum-og-baendum-best

https://www.ogmundur.is/is/greinar/tharfar-adfinnslur-abendingar-og-varnadarord

https://www.ogmundur.is/is/greinar/ein-kredda-er-ekki-betri-en-onnur

https://www.ogmundur.is/is/greinar/blessadir-kerfiskallarnir