Fara í efni

SATT OG ÓSATT UM SKATTA

D listi skatt
D listi skatt


Í kosningabaráttunni hef ég reynt að beina umræðunni í þann farveg sem ég tel að varði lífskjör fólks á komandi kjörtímabili. Þar er ég tala um stefnu í skattamálum. Sjálfstæðisflokkurinn segist ætla að lækka skatta og hækka ráðstöðfunartekjur. Ég hef innt bæði formann og varaformann Sjálfstæðisflokksins eftir því hvað hér sé átt við, hvort við séum að tala um sömu áherslur og voru uppi á árunum í aðdraganda hruns. Þá voru skattbyrðar auknar verulega á millitekjuhópa og lágtekjufólk en létt var sköttum af þeim sem höfðu allra mestu tekjurnar. Hvorki Bjarni, flokksformaður né Hanna Birna, varaformaður hafa viljað taka þessa umræðu upp og sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir mig fara með rangt mál þegar ég hélt því fram í sjónvarpsþætti að skattbyrðin hefði þróast með þessum hætti í stjórnartíð Sjáfstæðsflokks og Framsóknarflokks.

En er ekki einfalt að finna út úr því hvað rétt er í þessu efni? Það verkefni fékk sérstök nefnd sem starfaði í aðdraganda hrunsins ( frá febrúar 2006 til september 2008) undir formennsku Friðriks Más Baldurssonar. Í þessari nefnd sátu á meðal annarra Tryggvi Þór Herbertsson, Vilhjálmur Egilsson og Indriði H. Þorláksson.
Lokaskýrsla nefndarinnar fór ekki víða og varð fljótlega að feimnismáli því hún sýnir svart á hvítu afleiðngarnar af skattastefnu Sjálfsætðisflokksins og framsóknarflokksins á þessu tímabili.
Skýrsluna má nálgast á vef BSRB og leyfi ég mér að benda lesendum að fletta þar upp á síðu 90 en þar er að finna töflu sem sýnir hvernig skattbyrði heiildartekna breyttist frá árunum 1993 til 2005 (sjá aftasta dálk og texta undir töflu).

Skattleysismörkin lækkkuðu jafnt og þétt að raungildi og fjölgaði smám saman í hópi þess lágtekjufólks sem greiddi skatta og byrðin þyngdist hjá þeim sem stóðu þar fyrir ofan þar til komið var upp í hæðir hátekjufólksins - þá fór að birta til.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa persónuafslátturinn og þar með skattleysismörkin verið vísitölubundin sem er grundvallaratriði. Þá hefur verið tekið upp þrepaskipt skattkerfi sem í reynd jafnar kjörin og fjármagnstekjuskatturinn hefur verið hækkaður jafnframt því sem þar hafa verið innleidd skattleysismörk sem valda því að drýgstur hluti landsmanna greiðir ENGAN fjármagnstekjuskatt.

Ofan af öllu þessu hyggjast Sjálfstæðismenn vinda og gefa kjósendum (ÖLLUM KJÓSENDUM) til kynna að þeir fái skatta sína lækkaða komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda. Þetta mun ekki gerast, ef stefnu flokkisins er framfylgt þá eru þetta falsloforð. Gangi skattalækkanir hins vegar almennt eftir mun það birtast annað hvort í niðurskurði á þjónustu  eða í hærri notendagjöldum, til dæmis í heilbrigðiskerfinu, með versnandi lífskjörum fyrir þá sem þangað þurfa að leita.

Hér eru slóðir á nokkrar greinar um þetta efni:
Indriði H. Þorláksson:
http://blog.pressan.is/indridih/2013/04/22/uppdiktud-skattbyrdi/
http://blog.pressan.is/indridih/2013/04/17/morg-er-bumanns-raunin/
http://blog.pressan.is/indridih/2013/04/15/skattbyrdi-og-skattapolitik/

Greinar Einars Árnasonar, hagfræðings sem lengi var hagfæðingur Landssambands eldri borgara og síðar hagfræðingur BSRB en hefur verið ráðgjafi í innanríkisráðuneytinu undanfarin misseri: https://www.ogmundur.is/is/greinar/einar-arnason-hagfraedingur-stodvum-osannindin 
https://www.ogmundur.is/is/greinar/einar-arnason-skrifar-opid-bref-til-forystu-manna-framsoknar-flokks-og-sjalfstaedis-flokks-svar-oskast