Fara í efni

SÁRT SAKNAÐ: SVEINS AÐALSTEINSSONAR MINNST

Það er með miklum söknuði sem ég kveð vin minn Svein Aðalsteinsson. Eftirfarandi eru minningarorð mín um hann sem birtust í Morgunblaðinu í dag:

Andlát Sveins Aðalsteinssonar kom ekki aðeins í opna skjöldu. Það kom sem algert reiðarslag. Enginn gat búist við að það myndi gerast að slokknaði svo skyndilega á þessum kraftmikla og öfluga manni. Hann er þó ekki horfinn því Sveinn á eftir að lifa lengi með okkur svo mikið skilur hann eftir sig. 

Við höfðum ræðst við í síma daginn fyrir andlátið og ákveðið að hittast yfir kaffibolla á næstu dögum. Sveinn fór mikinn í símtalinu eins og oft vildi verða. Ég hlustaði og meðtók og skaut inn orði og orði.  
Þannig var Sveinn, áhuginn, eldmóðurinn, baráttugleðin og bjartsýnin hreif menn með sér. Mig alla vega. Ég hafði unun af því að fylgja Sveini á fluginu.
Alveg sama hve þungbúið var í þjóðfélaginu, sem Sveini óneitanlega þótti oft vera, þá kom hann alltaf auga á glufur í óveðurskýjunum þar sem sjá mátti til sólar. Og þar vildi Sveinn stilla liði sínu upp til sóknar.
Og hverjir voru liðsmennirnir? Það voru allir sem vildu beita sér í þágu réttláts samfélags. Og réttlátt gat samfélagið ekki orðið nema það losaði sig við hvers kyns spillingu. Af henni væri allt of mikið á Íslandi. Sveinn vildi allt til vinna að finna samherja á vinstri vængnum sem í sameiningu virkjuðu krafta sína gegn Íhaldinu. Og alltaf sá hann sóknarfærin í því stríði.
Ef menn skoða ræður mínar á Alþingi um Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma kemur í ljós að ég hafði tölulegar upplýsingar á hraðbergi um álverð, orkuverð, flutningskostnað, allt sem laut að virkjun í þágu stóriðju, talsvert umfram það sem ég bjó sjálfur yfir að jafnaði.
Lærirfaðir minn í þessari baráttu var Sveinn Aðalsteinsson. En því nefni ég þetta að allt það sem Sveini tókst að vista lærisvein sinn með inn í umræðuna, allar tölurnar og upplýsingarnar, reyndust hárréttar þegar á var látið reyna. Vald hans á tölum var nefnilega nánast yfirnáttúrulegt. Hann mundi allt og gat alltaf raðað ólíkum brotum og brotabrotum saman í heillega mynd, slíkur var skilningur hans. Þar stóð honum enginn á sporði.
Sveinn átti sæti í stjórn hollvinasamtaka Reykjalundar og varð ég þess var  hve mjög hugur hans að undanförnu beindist  að framtíð þeirrar merku stofnunar, að hún yrði á félagslegum nótum og gróðasjónarmiðum úthýst.
Ég sakna vinar míns Sveins Aðalsteinssonar mikið og finn að svo verður lengi.
Við Vala færum Sigrúnu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Minningarsíða hefur verið stofnuð um Svein á feisbók: https://www.facebook.com/photo/?fbid=3840748449278039&set=pcb.3840737982612419 

Útför Sveins verður frá Fossvogskirkju kl. 13 í dag, þriðjudag, og verður athöfninni streymt:
youtu.be/CxeevZfloNU