Fara í efni

Sanngirni Ómars sannfærandi

Birtist í DV 03.03.2003
Sjónvarpsmynd Ómars Ragnarssonar um þjóðgarða og virkjanir var áhrifarík. Ég hef þegar hitt fólk sem segist hreinlega hafa snúist í afstöðu til fyrirhugaðra virkjana við Kárahnjúka vegna myndarinnar. Hvers vegna? Svörin hafa ekki látið á sér standa. Í myndinni var á yfirvegaðan hátt sýnt fram á hver munur er á afturkræfri röskun á náttúrunni og óafturkræfum náttúruspjöllum. Hið síðara á við um Kárahnjúkavirkjun. Lónið sem myndast við virkjunina mun fyllast upp, gróðureyðing hlýst af og breytingarnar sem verða á landinu verða ekki aftur teknar. Þá er ljóst að þegar jökulá sem ber með sér 10 milljónir tonna af aur á ári er veitt í annan farveg þá mun það hafa verulegar afleiðingar í för með sér bæði á því svæði sem fljótið áður rann um og einnig í hinum nýja farvegi. Þetta segir sig sjálft. En fyrst þarf að upplýsa okkur um þessar staðreyndir og einmitt það gerði Ómar. Þetta gerði hann á mjög faglega vísu og af sanngirni. Hann heimsótti virkjanir og þjóðgarða vestan hafs og austan. Hann fjallaði einnig um þá hugarfarsbreytingu sem orðið hefur í heiminum á síðustu þremur áratugum. Fram kom að virkjanastefna Íslendinga myndi hvorki ganga upp í Bandaríkjunum, í Noregi né hér á landi væru sömu viðhorfin til náttúrunnar ráðandi hér.

Eitt það merkilegasta sem verður ljóst af myndinni er einmitt að viðhorf andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar mótast hvorki af illvilja í garð Austfirðinga né af því að þetta séu kverúlantar á “móti öllu”. Þvert á móti eru þessi viðhorf í takt við viðteknar venjur og skoðanir í þróuðum ríkjum. Það, ásamt því að sjá með eigin augum hversu víðfeðm, einstök og ægifögur landssvæði eiga að fara undir vatn svo þjóna megi stóriðjukosningaloforðum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, eru helstu uppgötvanirnar sem hinn almenni áhorfandi myndar Ómars gerir með sjálfum sér.

Þessar uppgötvanir eiga vonandi eftir að verða til þess að fleiri eigi eftir að snúast á sveif með náttúrunni og þeim sem leggja sig fram um að verja hana. Baráttunni um Kárahnjúka er enn ekki lokið og framundan er mörg orrustan á meðan að stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum og verkfræðingar sem hafa starf af að byggja sem stærstar virkjanir og göng fá að ráða. En þegar þjóðin hefur gert sínar eigin uppgötvanir þá eru þeirra dagar liðnir. Vonandi hafa ekki orðið fleiri óafturkræf stórslys í náttúrunni áður en að því kemur.

                                                            Ögmundur Jónasson