Fara í efni

SAMSTÖÐUFUNDUR VEGNA PALESTÍNU – SAMTÖK LAUNAFÓLKS HVETJA TIL SAMSTÖÐU

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi fyrir sjálfsákvörðunarrétti palestínsku þjóðarinnar efnir félagið Ísland Palestína til samstöðufundar á Hótel Borg í kvöld, miðvikudag kl. 20, þar sem Ziad Amro, helsti frumkvöðull blindra og fatlaðra og stofnandi Öryrkjabandalags Palestínu, er aðalræðumaður. Hann mun fjalla fjalla um áhrif hernáms á líf þjóðar, með sérstakri áherslu á fólk með fötlun. Ziad missti sjálfur sjónina af völdum hernámsins.

Í grein sem Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins Ísland Palestína hefur sent frá sér segir um baráttudaginn m.a.: “Ár hvert, þann 29. nóvember, er hvatt til samstöðu  með baráttu palestínsku þjóðarinnar fyrir sjálfsákvörðunarrétti, að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Hernám Palestínu hefur á svæðum sem nú falla undir Ísrael varað frá árinu 1948, en á Gaza og Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem hefur hernámið staðið frá árinu 1967. Ekkert hernám á síðari tímum hefur varað lengur og flóttamannavandinn sem skapaðist 1948 er sá stærsti sem veröldin hefur horft upp á.

 Enn bólar ekkert á því að endir verði bundinn á hernám Palestínu. Því síður að ísraelskir valdamenn séu reiðubúnir að viðurkenna þau grundvallarréttindi sérhvers flóttamanns að fá að snúa heim aftur. Augum fjölmiðla hafa undanfarna mánuði beinst að blóðbaðinu á Gazaströnd, en minna verið gætt að byggingu aðskilnaðarmúrins sem heldur stöðugt áfram og stækkun landtökubyggða á Vesturbakkanum, en þetta hvort tveggja útilokar sjálfstæði Palestínu sem fullvalda ríkis.”


Alþjóðasamtök launafólks í almannaþjónustu, PSI hafa hvatt aðildarsambönd sín til þess að sýna Palestínumönnum samstöðu í þrengingum þeirra og sérstaklega vakið athygli á stöðu starfsfólks innan almannaþjónustunnar sem ekki hefur fengið launagreiðslur í tæpt ár vegna refsiaðgerða Vesturveldanna sem ekki þóknaðist niðurstaða lýðræðislegra kosninga í PALESTÍNU!

Í dag var ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins Grétari Má Sigurðssyni afhent fyrir hönd utanríkisráðherra bréf frá BSRB þar sem ríkisstjórn Íslands er hvött til að bregðast með jákvæðum hætti við því neyðarástandi sem nú ríkir í Palestínu Sjá slóð á BSRB HÉR