Fara í efni

SAMSTÆÐUR KRAGAHÓPUR VG!


Birtist í Kópi, blaði Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Kópavogi, 6.árg,3 tlbl.
Í fimm efstu sætum framboðslista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðvesturkjördæmi - Kraganum - eru þrjár konur og tveir karlar. Konurnar eru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands með meiru. Guðfríði Lilju kynntist ég fyrst sem starfsmanni Alþingis en hún starfaði meðal annars með alþjóðanefndum sem ég átti sæti í. Þá lærði ég fyrst að meta hana sem afburða starfsmann og skemmtilegan og góðan félaga. Í fjórða sætinu er Mireya Samper myndlistarmaður. Hún er eini hreinræktaði Kópavogsbúinn í hópnum. Mireya er auk þess formaður VG í Kópavogi og leiðir hún félagið af miklum myndarskap. Andreu Ólafsdóttur, sem skipar fimmta sætið á listanum, kynntist ég fyrst í gegnum fjölmiðla. Hún stóð fyrir stofnun Íslandsvina, grasrótarsamtaka sem beittu sér af alefli í þágu náttúruverndar og gegn stóriðjufári ríkisstjórnarinnar. Sannast sagna finnst mér alltaf traustvekjandi að hafa í forsvari í pólitíkinni fólk sem sjálft hefur tekið frumkvæði í félagslegri baráttu. Andrea er gott dæmi um slíkan eldhuga.

Við karlarnir í fimm efstu sætunum erum tveir. Auk mín er þar í þriðja sæti listans Gestur Svavarsson. Hann er alæta á pólitík, athafnasamur og kraftmikill. Gestur er víðsýnn og áhugasamur um alla þætti stjórnmálanna en mesta áherslu hefur hann lagt á fjölskyldupólitík í sínum málflutningi fyrir kosningarnar. Ekki er að undra því sjálfur er hann fjölskyldumaður sem er að ganga hinn hefðbundna tröppugang barnafjöskyldunnar sem er að koma sér upp húsnæði og hlúa að börnum sínum. Óskandi væri að fá notið starfskrafta Gests á Alþingi á komandi kjörtímabili.

Ef litið er til skoðanakannana eins og þær birtast okkur nú stendur baráttan um Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Ég má ekki til þess hugsa að hún nái ekki kjöri enda myndi ég seint trúa því að kjósendur létu sér annan eins happafeng úr greipum ganga. Guðfríður Lilja á að mínu mati meira erindi á Alþingi en flestir aðrir og er ég stoltur af því að VG tefli henni fram í baráttuna þar sem hún er mikilvægust.

Hvers vegna segi ég að baráttan sé sérstaklega mikilvæg í Kraganum? Fram til þessa hefur VG ekki haft þingmann úr Kraganum. Við teljum að fyrir Kragann sé mikilvægt að eiga málsvara þeirra sjónarmiða sem VG stendur fyrir og sömuleiðis er mikilvægt fyrir VG að hafa á þingi fulltrúa úr þessu kjördæmi.

Við vonum að í þessum kosningum heppnist okkur að bæta hér úr. Við sem skipum efstu sæti lista VG í þessu kjördæmi munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að rísa undir væntingum félaga okkar og þeirri ábyrgð sem kjósendur kæmu til með að fela okkur. Við Guðfríður Lilja þurfum stuðning kjósenda til að geta veitt þeim rödd sem standa höllum fæti í samfélaginu, og tala fyrir náttúruvernd og kvenfrelsi á þingi og í nýrri ríkisstjórn. Eftir 16 ára valdasetu eins flokks hefur það verkefni aldrei verið jafn brýnt og einmitt nú!