Fara í efni

SAMSTAÐA UM FANGELSI


Árum og áratugum saman hefur verið rættt um nauðsyn þess að reisa nýtt öryggis- og gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar hafa ýmsar staðsetningar verið ræddar en nú hefur endanlega verið tekin ákvörðun. Í fyrsta lagi að fangelsi skuli reist og í öðru lagi hefur staðsetningin verið ákveðin á Hólmsheiði  í landi Reykjavíkurborgar.  
Áratuga þjark er nú að baki og er ástæða til að fagna. Enda gera það allir. Nánast. Suma fréttamenn langar óskaplega til að fá að vita hvort ekki hafi örugglega verið ósætti um eitthvað í ríkisstjórninni og þá kannski helst um fjármögnunina. Spurt er hver eigi að borga. Svarið er auglljóst: Við öll, skattgreiðendur, þegar upp er staðið, borgum við hverja einustu krónu. Hvort sem valin er ríkisleið eða einkaframkvæmdarleið, þá borgum við brúsann! Spurningin snýst þá aðeins um hver sé ódýrasta leiðin fyrir okkur að fara. Gaman væri ef fréttamenn veltu þessu fyrir sér og fengjust þannig við alvöru fréttamennsku.
Nýlega skrifaði ég blaðagrein til varnar alútboði. Í alútboði eru allir verkþættir boðnir út í einum pakka, hönnun, teikning , smíði, allur pakkinn eins og það heitir. Þetta getur haft sína kosti, verið leið til að ná kostnaði niður og miðstýra verkinu í samræmdan verkfarveg á frumstigi. Arkitektafélagi  Íslands  var hins vegar ekki skemmt. Arkitektar sögðust vilja samkeppni um teikningar og hönnun sérstaklega. Alútboð væri hamlandi fyrir litlar og meðalstórar stofur. Í alútboði væru þær iðulega settar undir hælinn á stórverktökum. Og þar sem arkitektar væru sú stétt sem verst hefði orðið úti í hruninu, mætti spyrja hvers þeir ættu eiginlega að gjalda. Ég sannfærðist og breytti afstöðu minni. Hafði reyndar verið að gera það smám saman. Fannst alltaf nokkuð til í þeirri gagnrýni að alútboð gæti hæglega orðið of verktakamiðað.
Niðurstaðan hefur nú orðið sú að bjóða út hönnun og semja síðan við vinningshafann. Þegar grunntreikningar liggja fyrir verður smíðin síðan boðin út á markaði þar sem verktakafyrirtæki keppa sín á milli.
Nýja fangelsið á Hólmsheiði á að taka til starfa innan þriggja ára. Um það var góð samstaða í ríkisstjórn.
Frétt Innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27248