Fara í efni

SAMNINGAR, DÓMSTÓLAR OG GREIN 11


Nokkuð hefur verið deilt um það hvort Íslendingum beri að greiða lágmarksskuldbindingar gagnvart innistæðueigendum í bönkum sem kveðið er á um í tilskipunum Evrópusambandsins. Samkvæmt þeim skyldi sérstökum innistæðutryggingasjóðum komið á laggirnar til að veita lágmarks tryggingu við gjaldþrot banka sem starfa á Hinu Evrópska Efnahagssvæði. Sú spurning hefur vaknað hverjar skyldurnar væru þegar um kerfishrun er að ræða, þegar efnahagskerfið í heild sinni fer á hliðina, eins og raunin varð hjá okkur Íslendingum.
Ýmsir virtir lögfræðingar telja að við slíkar aðstæður sé bakábyrgð samfélagsins önnur en við hrun einstakra banka.

Kerfishrun annað en bankahrun

Ég hef hallast á sveif með þeim og talið að á slíkt mætti aldrei fallast nema þá að óvihallir dómstólar hefðu komist að slíkri niðurstöðu. Um dómstólameðferð hefur okkur hins vegar verið neitað sem kunnugt er - það er að segja fram til þessa.
En málið stendur verr en þetta því síðustu daga hefur skörin heldur betur verið að færast upp í bekkinn. Komið hefur í ljós að Bretar og Hollendingar telja sig hafa jafnan rétt til eigna Landsbankans og íslenski innistæðusjóðurinn. Samkvæmt þeim samningsdrögum sem nú liggja fyrir gera Bretar og Hollendingar nefnilega kröfu um að þeir fái fjármuni við sölu eigna til jafns við íslenska innistæðusjóðinn sem ætlað er að fullnusta "lögboðna" lágmarkstryggingu Íslands.

Eitt hundrað milljónir á dag

Þetta þýðir að eignir Landsbankans væru fjær því en ella að duga upp í lágmarksskuldbindingarnar og lengri tíma tæki að saxa á höfuðstól "íslensku" skuldarinnar, sem stendur á vöxtum upp á litlar eitt hundrað milljónir á dag!
Þá fæ ég ekki betur séð en að þetta stríði gegn tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingasjóðinn. Í grein númer 11 í þeirri tilskipun er kveðið á um forgangsrétt í eignir:
"Without prejudice to any other rights which they may have under national law, schemes which make payments under guarantee shall have the right of subrogation to the rights of depositors in liquidation proceedings for an amount equal to their payments."
Íslensk þýðing á þessu ákvæði er svona:
"Við greiðslur samkvæmt tryggingakerfinu hefur tryggingakerfið rétt til að ganga inn í kröfuréttindi innstæðueiganda við skiptameðferð sem svarar til fjárhæðarinnar sem greidd er, án þess að þetta hafi að öðru leyti áhrif á þau réttindi sem kerfið kann að hafa samkvæmt landslögum."

Samningar eða Dómstólar?

Í þessari tilskipunargrein felst að þar sem Ísland er ábyrgt fyrir tryggingakerfinu og ábyrgist þess vegna fyrstu greiðslurnar - lágmarksgreiðslurnar - þá beri Íslandi fyrstu fjármunirnir sem inn koma. Þetta virðist mér vera rökrétt og sanngjarnt. Eftir stendur að lögspekingar og aðrir spekingar deila um túlkun laganna. Hollendingar og Bretar segja að við höfum mismunað í þágu Íslendinga með neyðarlögunum frá því í október. Við bendum á að Bretar hafi mismunað í þágu eigin þegna með hryðjuverkalögunum og auk þess stórskaðað hagsmuni Íslands.
Hvað gera menn þá í lýðræðislegu réttarríki? Menn eiga um tvennt að velja. Reyna að ná samningum eða úkljá málið frammi fyrir óháðum dómstól.
Við vildum fara dómstólaleið sem áður segir. Bretar og Hollendingar hafa fram til þessa hafnað þeirri leið og viljað semja, helst með leynd, fjarri kastljósum almennings.

Hollvinaráð að hætti AGS

Svo var komið að við áttum ekki annarra kosta völ en reyna þá leið - enda samkvæmt "ráðleggingum" Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samninganefnd okkar átti frá upphafi við ramman reip að draga. Um það bera órækan vitnisburð hótanir AGS og Evrópusambandsins, nú með Verhagen hinn hollenska sýnilegan í broddi fylkingar, áður Gordon Brown hinn breska, samanbitinn og hótandi á sínu heimaþingi. Til annarra hefur minna sést, þótt við höfum fundið fyrir þeim. Og nú þegar samningsdrög liggja fyrir og vöflur komnar á Íslendinga, má heyra vopnaskakið í nánst gervöllu sjóðaveldi heimsins: Ykkur verður refsað ef þið ekki hlýðið!
Af þessu má skilja hve fráleitt það er að beina gagnrýninni að samninganefnd Íslands eins og sumir hafa gert. Hún var að fást við hið ómögulega. Formaður samninganenfdar Íslands segir enda að eðlilegt sé að á Alþingi verði samningsdrögin nú sett í "umgjörð" þingsins, eins og hann komst að orði. Annað hvort verður það niðurstaðan eða að ríkisábyrgð verður alfarið hafnað á þeim forsendum sem fyrir liggja. Það er jafnvel líklegra að mínu mati eins og sakir standa. Hvað sem því líður þá er málið nú á borði Alþingis, ekki ríkisstjórnar.

Treysta sér ekki dómstólaleið?

Hvor kosturinn sem fyrir valinu verður - fyrirvarar Alþingis eða höfnun - mun ekki kæta gömlu nýlenduherrana í Hag og Lundúnum. Þeir eiga þá þann kost að sætta sig við niðurstöðu Alþingis, setjast að nýju að samningaborði eða sækja mál sitt gagnvart Íslendingum fyrir óháðum dómstól. Einhverra hluta vegna finnst þeim síðastnefndur kosturinn erfiðastur að kyngja. Hvað skyldi valda því? Lélegur málstaður?