Fara í efni

SAMGÖNGURÁÐHERRA TALAR FYRIR AUKINNI GJALDTÖKU

Birtist í Morgunblaðinu 28.06.06.
Sturla Böðvarsson
, samgönguráðherra, upplýsir í viðtali í laugardagsútgáfu Morgunblaðsins að hann vilji að vegagerð fari í auknum mæli í einkaframkvæmd.
Hvers vegna skyldi samgönguráðherra tala fyrir þessu sjónarmiði?
1) Ljóst er að fyrirtæki geta hagnast verulega á vegum og öðrum samgöngumannvirkjum sem þau geta selt aðgang að. Er ráðherra og ríkisstjórn að þjóna slíkum aðilum?
2) Viðurkennt er að einkaframkvæmd er, þegar á heildina er litið, dýrari kostur en sá að hið opinbera bjóði framkvæmdir út, eins og almenna reglan er, einfaldlega vegna þess að ríkið fær fjármagn á hagkvæmari kjörum en einkaaðilar. Munurinn er hins vegar sá varðandi fjármögnunina, að þegar um opinberar framkvæmdir er að ræða er greitt fyrir þær úr sameiginlegum sjóðum; í einkaframkvæmd í samgöngukerfinu greiðir notandinn beint. Notendagjöld í þessu tilviki eru eins konar vegaskattar. Ekki verður annað skilið en Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sé að tala fyrir aukinni gjaldtöku í formi vegaskatta – eða hvað?
Vegaskattar geta að mínum dómi átt rétt á sér við tilteknar aðstæður. Ef hins vegar um er að ræða gjaldtöku sem rennur til einkaaðila er grundvallaratriði að vegfarendur eigi kost á annarri leið sem er gjaldfrí. Hitt væri nauðung sem ekki ætti rétt á sér. Ljóst er að ýmsir fjármálamenn hugsa nú gott til glóðarinnar. Að undanförnu hafa landsmenn fengið að heyra alls kyns uppástungur um veg hér og veg þar, sem einkaaðilar vilja leggja. Síðan er ætlunin að rukka okkur fyrir afnotin. Samgönguráðherra er ábyrgur fyrir samgöngukerfi landsins. Það á að vera okkur öllum til afnota. Ráðherrann verður að færa haldbær rök fyrir máli sínu áður en hann veitir fyrirtækjum frekari aðgang að pyngjum okkar en þegar hefur verið gert.
Samgönguráðherra leggur til dýrara fyrirkomulag en við búum nú við og jafnframt aukna skattheimtu. Þetta gengur ekki án nánari skýringa og umræðu.