Fara í efni

SAMGÖNGURÁÐHERRA KOMINN Á STÖKKBRETTIÐ

SIJ - af brettinu
SIJ - af brettinu


Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, hefur verið að reyna fyrir sér að undanförnu hvort hann komist upp með að seilast ofan í vasa vegfarenda til að láta þá fjármagna vegabætur á komandi árum. 

Í stað þess að við borgum hvert og eitt eftir efnum og aðstæðum til uppbyggingar samgöngukerfisins eins og við gerum til annarra innviða, þá daðrar ráðherrann nú við eins konar notendaskatt í samgöngukerfinu, segir að einkaframkvæmd hafi gefið gríðarlega góða raun. Vísar hann þar í Hvalfjarðargöng. 

Ekki eru þetta miklar fréttir. Auðvitað safnast peningar með þvingaðri gjaldtöku. Það gefur auga leið! En er þetta eitthvað sem landsmenn vilja? 

Ég held ekki. 

Alla vega vil ég fyrir mitt leyti fremur greiða fyrir samgöngukerfið með almennum tekjuskatti og eldsneytisskatti eins og verið hefur og hvað erlenda ferðamenn áhrærir eru aðrar leiðir færar til að tryggja að þeir taki þátt í uppbyggingu og viðhaldi vega og annarra samgöngumannvirkja en vegaskattar með tilheyrandi búnaði. 

Sigurður Ingi skrifar greinar og fer í viðtöl þar sem hann viðrar einkaframkvæmd og gjaldtöku. Hann dýfir stórutá í laugina, er að kanna hitastigið, hvort óhætt sé að stökkva út í. 

Eftir því sem sofandahátturinn og doðinn í þjóðfélaginu verður augljósari, þeim mun dýpra í vatnið rekur ráðherrann tána. 

Nú bíðum við eftir viðbrögðum þingmanna. Hvað vilja þeir? Ætla þeir ef til vill að sjá Sigurði Inga fyrir sundkúti? Úti i þjóðfélaginu er ekki slíkan kút að hafa. Nema náttúrlega frá væntanlegum handhöfum einkaframkvæmdar svo og hliðvörðum og rukkunarfyrirtækjum. 

Á þeim bæjum hugsa menn gott til glóðarinnar og hvetja Sigurð samgönguráðherra óspart til að stinga sér til sunds - ofan í vasa vegfarenda.

(Tekið skal fram að myndin sem fylgir þessum texta er ótengd samgönguráðherra.)