Fara í efni

SAMFYLKINGIN OG TALIÐ UM ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLU

Danski rithöfundurinn, Hans Scherfig, sagði einhvern tímann að sumir skrifuðu um lífið, aðrir skrifuðu um þá sem skrifuðu um lífið, en svo væru til þeir sem lifðu lífinu. Mér kemur þetta í hug þegar ég heyri Samfylkinguna tala um lýðræðið. Gott ef það var ekki Framtíðarhópur Samfylkingarinnar sem nú síðast talar um mikilvægi þess að þjóðin greiði atkvæði um allt bæði stórt og smátt. Alla vega talar þessi hópur mikið um lýðræði. Það hefur Samfylkingin reyndar oft gert á undanförnum árum. Meira að segja á mjög hástemmdan hátt. Það er svo mikilvægt að þjóðin fái að ráða, segja flokksmenn gjarnan á málfundum og í greinaskrifum.

En síðan þegar á hólminn kemur og látið er á það reyna hver vilji manna raunverulega er, þá hefur því miður annað verið uppi á teningnum.

Vinstrihreyfingin grænt framboð setti fram um það formlega tillögu á Alþingi áður en framkvæmdir hófust við Kárahnjúka, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um þá framkvæmd – sennilega einhverja umdeildustu framkvæmd Íslandssögunnar. Ekki fékk sú tillaga brautargengi á Alþingi. Stjórnarflokkarnir treystu sér ekki til að styðja hana. Samfylkingin ekki heldur.

Kannski var það þess vegna að mér komu í hug vangaveltur danska rithöfundarins þegar ég heyrði frásögn af lýðræðishugmyndum Framtíðarhóps Samfylkingarinnar. Sumum fellur best að skrifa um hlutina, jafnvel skrifa um þá sem skrifa um hlutina. Sjálfum líkar mér best við hina sem eru sjálfum sér samkvæmir og láta orð og athafnir fylgjast að. Kannski er það þess vegna sem ég er ekki í Samfylkingunni.