Fara í efni

SAMFYLKINGIN OG SÝNDARMENNSKAN

Birtist í Morgunblaðinu 10.07.07.
FYRIR síðustu alþingiskosningar ákvað fjármálaráðherra (Sjálfstæðisflokki) í umboði þáverandi ríkisstjórnar (Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks) að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mótmælti þessu harðlega á opinberum vettvangi. Ekki minnist ég þess að hafa heyrt nein viðbrögð frá Samfylkingunni. Sölutilboð ríkisins var þó ódulbúin tilraun til að hefja þá vegferð Sjálfstæðisflokksins að koma orkugeiranum í einkahendur því í útboðsgögnum var tekið fram að almannaveitur mættu ekki bjóða í hlutinn. Þegar í ljós kom að einkafjárfestar, FL-group, Glitnir og fleiri sem koma sameiginlega fram undir heitinu Geysir Green Energy, ætluðu að kaupa hlutinn, skoraði VG á núverandi ríkisstjórn (Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar) að falla frá kauptilboðinu áður en það yrði of seint. Við þessu urðu engin viðbrögð í stjórnarráðinu önnur en almennt tal út í loftið á tröppum stjórnarráðsins.

Tíminn sem ríkið hafði til að endurskoða söluna leið – hann rann út 3. júlí sl. Ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn sögðu að auðvitað þyrfti að ræða málið – um það þyrfti að fara fram almenn umræða í þjóðfélaginu. Mörgum fjölmiðlum þótti þetta merkilegt framlag af hálfu Samfylkingarinnar. Því var slegið upp að Samfylkingin vildi umræðu í þjóðfélaginu um framtíð grunnþjónustu á borð við raforkugeirann.

Nú er það svo að um nákvæmlega þetta hefur farið fram mikil umræða innan þings og utan mánuðum, misserum og árum saman. Það sem á hefur skort er að stjórnmálamenn og flokkar – alltént sumir flokkar – hafi tekið afstöðu. Oftar en ekki hafa fulltrúar Samfylkingar staðið utangátta í þessari umræðu – þó heldur hallir undir markaðsvæðingartilburðina.

Hvers vegna tók Samfylkingin ekki umræðuna um Hitaveitu Suðurnesja þegar sala ríkisins var tilkynnt og hvers vegna í ósköpunum hreyfðu ráðherrar Samfylkingarinnar ekki litla fingur við ráðherraborðið þegar ráðrúm var enn til að stöðva söluna? Sem betur fer gripu sveitarfélögin í taumana en eðlilegast hefði verið að ríkið hefði dregið tilboð sitt til baka.

Samfylkingin segir nú að hún vilji tala um þessi mál. Það er góðra gjalda vert. Það er vissulega mikilvægt að tala um hlutina. En umræðustjórnmál, eins og Samfylkingin leitast við að gera að eins konar merkimiða sínum, mega ekki bara vera til að sýnast – til að komast hjá því að taka afstöðu og fylgja henni eftir. Hve lengi skyldu fjölmiðlar láta Samfylkinguna komast upp með sýndarmennsku af því tagi sem við nú verðum vitni að?