Fara í efni

Samfylkingin í Hafnarfirði og einkavæðingin

Fyrirsögnin hér að ofan er sótt í pistil Árna Guðmundssonar, formanns Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, sem hann skrifaði nýlega í Dagskinnu formanns STH. (Netslóð Dagskinnu, sem er hin líflegasta er hér.) Í pistli sínum segir Árni :"Skil ekki alveg hvert Samfylkingin stefnir varðandi einkavæðingu hér í bæ. Og ekki er það til neinar fyrirmyndar að hún skuli beinast gegn hópum sem hvað síst hafa það launalega. Einkavæðing ræstinga í skólum er að skella á. Menn vita að launakostnaður er yfir 90% af kostnaðinum við ræstinguna. Með "hagstæðu" tilboði skilst mér að boðið hafi verið rúmlega 60% af kostnaði í verkið allt. Niðurstaðan er einföld fyrirtækið þarf að fá sitt, enda ekki um góðgerðarstarfsemi að ræða. Starfsmenn munu því margir missa störf sín og miðað við einfalda reikniformúlu mun sennilega tæplega helmingur starfsmanna missa vinnuna og þeir sem eftir verða munu þurfa að leggja helmingi meira á sig en áður var fyrir sama lélega kaupið."
Síðan segir formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar: "Mér finnst ekki viðeigandi að bæjarfélag standi með óbeinum hætti að svo víðtækum uppsögnum eins og hér verður um að ræða og það er ekki hægt að skýla sér bak við eitthvað fyrirtæki út í bæ í þeim efnum. Hafnarfjarðabær er verkkaupi og ber auðvitað sem slíkur siðferðilegar skyldur á gerðum verktakans."
Undir þessi ummæli skal hjartanlega tekið. Einkavæðing ræstinga hefur nánast alltaf leitt af sér fækkun starfsmanna, meira álag og minna kaup. Þess vegna er ádrepa formanns Starfsmannafélags Hafnarfjarðar fullkomlega réttmæt og fráleitt annað en að halda uppi kröfu um að undið verði ofan af þessum ákvörðunum sem er stefnt gegn láglaunafólki. Við erum orðin ýmsu vön frá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum. Samfylkingin hefur að vísu daðrað við einkavæðingu en stórlega efast ég um að félagslega þenkjandi stuðningsmenn þess flokks séu ánægðir með þessa ákvöðrun.

 VG í Hafnarfirði sendi frá sér mjög eindregin mótmæli gegn þessari ákvörðun meirihlutans en þar segir : "Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur tekið ákvörðun um að bjóða út ræstingar á vegum bæjarins. Með þessari ákvörðun hefur bæjarstjórn sett atvinnu fjölda starfsmanna í uppnám. Reynslan sýnir að kjör og annar aðbúnaður starfsmanna versnar við það að starfsemi eins og ræstingar eru færðar til einkaaðila.
Stjórn VG  í Hafnarfirði lýsir sig andsnúna þessari ákvörðun og bendir á að sparnaðurinn sem næst með þessari breytingu er fyrst og fremst á kostnað starfsmanna. Einnig hefur komið í ljós á mörgum stöðum þar sem þessar breytingar hafa verið gerðar að ræstingin hefur versnað til muna þar sem einkaaðilinn setur markið fyrst og fremst á peningalegan ágóða. Stjórn VG í Hafnarfirði skorar á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að endurskoða þessa ákvörðun sína."