Fara í efni

SAMFÉLAGSVITUND/SJÓÐSVITUND OG EIN LÍTIL SPURNING


Íslensk verkalýðshreyfing á sér glæsta sögu. Hún átti með baráttu sinni þátt í smíði velferðarþjóðfélags 20. aldarinnar; velferðarþjóðfélags sem stóð öllum opið og mismunaði ekki fólki. Eftir því sem á öldina leið urðu úrræði, sem í fyrstu voru vinnumarkaðstengd, smám saman og með stuðningi og samþykki verkalýðshreyfingarinnar hluti samfélagsþjónustunnar.
Fyrir hálfum öðrum áratug eða svo er byrjað að snúa þessari þróun til baka. Farið er að innleiða alls kyns gjöld og skatta í velferðarkerfinu, m.ö.o. aðgangur að því varð nú í auknum mæli takamarkaður nema greitt sé fyrir. Samhliða þessu er farið að leggja ríkari áherslu á sjúkrasjóði verkalýðsfélaga og fara samtök launafólks í opinbera geiranum að sælast eftir slíkum sjóðum svo félagsmenn þar sitji við sama borð þegar kemur að ýmiss konar þjálfun, krabbameinsskoðun eða öðru slíku.

Frekari á fjármuni en heilsugæslan!

Þetta þykir sumum verkalýðsforkólfum ágæt þróun því sjóðirnir færa þeim völd og áhrif. Tólfunum kastaði fyrir fáeinum misserum þegar samið var um nýjan Starfsendurhæfingarsjóð sem mun þegar upp er staðið hafa á milli handa álíka fjármagn og öll heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu: Í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi! Greiðslurnar eru smám saman að koma í sjóðinn og eru þær eitt af því sem þjarkað er um þessa dagana.
Sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna eru góðra gjalda verðir en skörin var heldur betur farin að færast upp í bekkinn síðastliðið vor. Það þótti mér alla vega þegar aðilar vinnumarkaðar blessuðu í bak og fyrir, í margrómuðum "Stöðugleikasáttmála." niðurskurðarkröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í velferðarkerfinu. Allt mátti skera niður  að undanskildum félagslegum úrræðum undir handarjaðri aðila vinnumarkaðar sjálfra.  

Og nú er það Atvinnuleysistryggingasjóður!

Þótti sárt að horfa upp á, ekki síst þegar í kjölfarið var farið að draga úr fjárframlögum hins opinbera til sjúkraþjálfunar, Reykjalundar og Grensásdeildar og áþekkra stofnana. Þarna var skorið niður en þanin út ný félagsleg úrræði á vegum vinnumarkaðar! Ekki efast ég um að nýr Starfsendurhæfingasjóður muni gera margt gott, en höfum í huga að hér er byrjað að feta sig aftur til 20. aldarinnar öndverðrar, þegar öll úrræði voru vinnumarkaðstengd, eitt gilti fyrir einstaklinga á vinnumarkaði, annað fyrir alla hina, öryrkjana, heimavinnandi, börnin, gamla fólkið...
Í dag og í gær heyrum við síðan fulltrúa vinnumarkaðar krefjast þess að fá atvinnuleysistryggingasjóð yfir til sín eins og var fyrr á tíð.

Ein lítil spurning

Það er ágæt vinnuregla að spyrja hvernig maður vildi hafa hlutina fyrir sjálfan sig. Ef ég væri atvinnulaus myndi ég vilja geta fengið bætur mínar rafrænt eða fengið afgreiðslu hjá háþróaðri stofnun á vegum almannaþjónustunnar. Ef eitthvað fer hins vegar úrskeiðis vil ég eiga þess kost að geta leitað til míns stéttarfélags -  eða heildarsamtaka ef reglunum almennt er ábótavant. Sama gildir um veikindin. Ef ég verð veikur vil ég fara út á heilsugæslustöð og eiga um veikindi mín við minn lækni og síðan eftir atvikum fara á Reykjalund, Grensásdeild eða annað sem heilsugæslan ráðleggur mér.

Frekar lækni en Vilhjálm Egilsson

Þetta vil ég miklu frekar en fá Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA eða Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ eða fulltrúa þeirra í heimsókn.
Ég vil hins vegar áfram geta sótt til Gylfa, Elínar Bjargar formanns BSRB,  Sigurðar Bessa, formanns Efilingar og Árna Stefáns formanns SFR, þurfi ég á að halda stuðningi gagnvart "kerfinu"  og þá einnig til míns sjúkrasjóðs ef um einhverjar sérstakar aðstæður er að ræða. Verkalýðshreyfingin og þar með sjúkrasjóðirnir gera samfélagskerfið smurðara og sveigjanlegra. Það er gott.
Mín niðurstaða er þessi: Veraklýðshreyfingin á að efla samfélagsvitundina en halda sjóðsvitundinni í skefjum.