Fara í efni

SAMBAND/AÐSKILNAÐUR RÍKIS OG KIRKJU TIL UMRÆÐU HJÁ VG

Í tengslum við flokksráðstefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs nú um helgina fór fram málþing um trúfrelsi. Á síðasta landsfundi VG kom fram tillaga um að flokkurinn skyldi beita sér fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Ákveðið var að skjóta afgreiðslu málsins á frest en efna til djúprar umræðu um þetta efni innan hreyfingarinnar. Ég tel það hafa verið vel ráðið.

Á málþinginu voru haldin nokkur erindi, öll sérlega áhugaverð. Valgerður H. Bjarnadóttir stýrði umræðunni en hún opnaði hana með frábærri hugvekju þar sem rauði þráðurinn var umburðarlyndi og mikilvægi þess að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir , verkefnisstjóri á Biskupsstofu, flutti mjög upplýsandi og áhugavert erindi þar sem meðal annars kom fram afstaða þjóðarinnar, eins og hún birtist í skoðanakönnunum, til sambands ríkis og kirkju. Flestar skoðanakannanir benda til þess að meirihluti þjóðarinnar sé á þeirri skoðun að samband eigi að vera á milli ríkis og kirkju og þótti fundarmönnum athyglisvert að í sundurgreiningu á þessum könnunum hefði komið fram að kjósendur VG væru yfirleitt fyrir ofan meðaltal í jákvæðri afstöðu til þessa efnis!

Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar, spurði hvort trúfrelsi væri á Íslandi, og komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki í reynd. Tók hann um þetta fjölmörg dæmi, svo sem að helgihald rataði inn í skólana og fléttaðist þar inn í almenna kennslu og skattborgarinn héldi uppi kristilegum stofnunum á borð við guðfræðideild Háskóla Íslands án þess að eiga annarra kosta völ. Slíkt væri hvorki í anda jafnræðis né umburðarlyndis. Sigurður Hólm kom víða við í fróðlegu erindi sínu og vísaði m.a. til yfirlýsingar Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hann taldi okkur ekki fylgja í verki.

Séra Sigurður Pálsson, sem hefur haft umsjón með námsgagnagerð um trúarbragðafræðslu fyrir skóla, býr að mikilli þekkingu um þessi efni. Hann sagði trúarbragðafræðslu í skólum sniðna með það fyrir augum að kynna trúarbrögðin á þeirra eigin forsendum. Skörp lína skyldi hins vegar jafnan dregin á milli fræðslu annars vegar og helgihalds hins vegar. Þekking á þessu viðfangsefni sem öllu öðru væri forsenda umburðarlyndis. Við mættum ekki vanrækja umræðu um lífsgildi en um þau gætum við ekki rætt án þess að fjalla jafnframt um trúarbrögð. Við ættum aldrei að breiða yfir skoðanaágreining heldur kenna og læra að lifa með honum. Umburðarlyndi væri hér lykilatriði. Sigurður kvaðst telja mikilvægt að innræta börnum umburðarlyndi í trúarlegum efnum ekki síður en á öðrum sviðum, það væri ekki gert með þögninni, því "þögn er innræting", sagði hann. Hann sagði mikilvægt að haga kennslunni á þann veg  í skólum að allir gætu vel við unað.

Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri, flutti erindi stútfullt af athyglisverðum upplýsingum. Í upphafi staðnæmdist hún við setningu í aðalnámskrá leikskóla þar sem um það er rætt "að efla kristilegt siðgæði". Hvað þýðir þetta, spurði Kristín og svaraði því til að þetta mætti túlka á margvíslegan hátt. Hún vitnaði síðan í rannsóknir sem hún hefur gert á viðhorfum og breytni innan leikskólans. Þar komu fram afar áhugaverðar mótsagnir. Þannig kom til dæmis fram að meirihluti forsvarsmanna leikskólans taldi að þjóðkirkjan ætti ekki að hafa hlutverk innan leikskólans en á hinn bóginn kom fram að yfir 70% höfðu farið með börnin í kirkju og rétt undir 70% höfðu tekið þátt í helgiathöfnum innan veggja leikskólans. Helgiathöfn má túlka bæði þröngt og vítt. Þannig mætti eflaust líta á sálmasöng í tengslum við jól sem helgiathöfn. Í þessu sambandi sagði Kristín okkur, sposk á svip, að í öllum leikskólum væri sungið um Jólasveina einn og átta og benti það til þess að tröllatrú fengi 100% aðgang að íslenskum leikskólabörnum! Nokkur alvara fylgdi þessu gríni Kristínar því hún var að sýna okkur fram á að fyrrgreindar mótsagnir í viðhorfum annars vegar og breytni hins vegar bæri að skýra í ljósi menningar og hefða.

Og þar erum við – að mínu viti - komin að kjarna máls og að þeim spurningum sem þarf að spyrja. Erum við sátt við þessa samtvinnun trúar og daglegs lífs eða viljum við skera á þessi tengsl? Og, ef svarið er játandi, hvernig eigum við að bera okkur að?

Síðasti fyrirlesarinn var Hanna Ragnarsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands. Yfirleitt er  erfitt að flytja síðasta erindið á ráðstefnu. Mér þótti hins vegar þær upplýsingar sem Hanna færði okkur vera svo athyglisverðar að ég er enn að leggja út af þeim og er henni því mjög þakklátur fyrir innleggið! Hanna vísaði m.a. í rannsóknir sem hún hafði gert á innflytjendum hér á landi. Niðurstaða hennar var sú að almennt reyndu innflytjendur að laga sig að samfélaginu. Skólarnir okkar, sagði Hanna, væru ekki hugsaðir fyrir það fjölmenningarsamfélag sem hér væri þegar orðið. Þetta þýddi til dæmis að börnum, sem kæmu frá fjölskyldum sem væru ekki kristinnar trúar, væri þröngvað inn í annan heim í skólanum. Spenna myndaðist, annars vegar vegna viljans til að aðlagast og hins vegar löngunar til að sýna þeim gildum sem fjölskyldan innrætti virðingu og fylgispekt. Þetta gæti grafið undan samstöðu innan fjölskyldunnar og/eða leitt til einangrunar hennar, sem þá færi að sinna sinni trú á heimilinu og þá í samneyti við aðrar fjölskyldur af sama uppruna og menningarheimi. Þessi einangrun væri varasöm, að mati lektorsins, og yrði skólinn að íhuga leiðir til að laga sig að þörfum fólksins í stað þess að þröngva því inn í sitt einsleita mót.

Hófust nú almennar umræður. Mér þóttu þær skemmtilegar og vekjandi. Greinilegt er að þessi málefni eru mörgum mikið tilfinningamál – enda viðfangsefnið hvorki meira né minna en trú manna og viðhorf til mannréttinda. Ég er sjálfur á þeirri skoðun að þessi efni beri að skoða í ljósi markmiða, nefnilega þeirra að tryggja skoðanafrelsi og umburðarlyndi. Ég skal hins vegar játa að sú leið sem Sigurður Pálsson vísaði til finnst mér ríma nokkuð við mín viðhorf:  Að upplýsa og fræða, á forsendum þeirra sem boða, að gera fræðslu um heimspeki og trúmál þannig úr garði að allir geti vel við unað. Það þýðir hins vegar - að mínu mati - að draga verður úr vægi kristnifræðslu í skólunum og setja hana á svipaðan stall og önnur trúarbrögð og heimspeki. Þótt ég telji varnaðarorð Hönnu Ragnarsdóttur mjög virðingarverð efast ég um að rétt sé að laga skólana að þörfum fólksins þegar trúarbrögðin eru annars vegar í þeim mæli sem mér skildist hún mæla með. Slíkt hefði að mínu mati í för með sér trúvæðingu skólanna sem ég held að væri mjög óæskileg. Ég tel að við eigum að halda trúarhitanum á tiltölulega lágu stigi. Kristín Dýrfjörð sagði okkur að í leikskólanum þurfi að sýna nærgætni og spyrja – til dæmis um viljann til að borða svínapylsur. Við yrðum að horfast í augu við að slíkt samræmdist ekki trúarsiðum í sumum heimshlutum. Mitt svar er að hirða sem minnst um þetta, spyrja sem minnst um svínapylsur. Getur verið að hér ljúki mínu umburðarlyndi? Ég hef mikla samúð og finn til samstöðu með grænmetisætum en þegar þeirra óskum sleppir vil ég varast að innræta kreddubundna matvendni. Ef einhver vill ekki borða það sem borið er á borð fyrir hann þar sem hann er staddur í heiminum þá er það vandi sem er viðkomandi einstaklings við að glíma. Annars er þetta  smámál sem á að meðhöndla sem slíkt. Hungrað fólk – sem er drjúgur hluti mannskyns – myndi aldrei skilja þessa umræðu.

Þáttur Sverris Jakobssonar í lokin þar sem hann dró umræðuna saman í tíu mínútna samantekt var aldeilis frábær. Hann fór yfir söguna, skilgreindi prinsippin og allir voru sammála. Allir eiga að vera trúir sannfæringu sinni, líka kirkjan, sagði Sverrir. Þar ættu menn að boða kristna trú en ekki vera opinberir starfsmenn að fylla inn í skrár ríkisins. Með öðrum orðum, kirkjan fyrir hina trúræknu, opinberir starfsmenn fyrir hina. Hljómar vel. Þó er ég ekki viss – svona eftir á að hyggja. Ég vil spyrja hvaða fyrirkomulag sé líklegast til þess að okkur takist að búa til þjóðfélag – skóla og aðrar stofnanir - sem við teljum ásættanlegt fyrir alla að aðlagast. Með því að kynda upp trúarneistann í einstaklingum og söfnuðum þessa lands? Eða með því að leggja áherslu á fræðslu og umburðarlyndi? Ef þetta tækist þá skal ég játa að það veldur mér ekki hugarangri þótt prestar sinni skyldum sem opinberir starfsmenn. Öllu skiptir að við setjum okkur það takmark að mismuna ekki trúarbrögðum og stefnum í átt til umburðarlyndis. Um það eitt er ég alveg viss, að í þessa átt eigum við að halda, en ef til vill í rólegheitum.

Gæti verið að það væri umburðarlyndið og velvildin sem skiptir máli, ekki kerfið? Í þessa veru mælti heimspekingurinn þingeyski Sigurjón Friðjónsson á svo áhrifaríkan hátt að aldrei fer mér úr huga. Sigurjón var uppi á árunum 1867-1950. Eftir hann liggur meðal annars stórmerkilegt rit sem ber heitið Skriftamál einsetumannsins. Auk þess að vera heimspekilega þenkjandi, var Sigurjón greinilega trúhneigður en lítið gefinn fyrir hina veraldlegu umgjörð trúarinnar. Velviljað hugarfar og umburðarlyndi var honum hins vegar hugleikið. Eftirfarandi texti fjallar um velvildina og hverju hún fær áorkað ef að baki henni býr þolinmæði og staðfesta: " Sólin vinnur ekki á ísunum, þegar hún byrjar að hækka á lofti. En þó fer svo að lokum, að þeir renna og verða að lífslindum sumarblómans. Líkt er því varið með kærleikann og mannssál, sem bundin er í klaka blindrar eigingirni. Stöðugir velvildargeislar vinna á þeim klaka að lokum og kenna manninum hvað lífið í fyllingu sinni er......."

Ef við nú aðeins bærum gæfu til að nálgast viðfangsefni okkar – þess vegna sambúð/aðskilnað ríkis og kirkju - í anda Sigurjóns Friðjónssonar – þá væri vel.