Fara í efni

SALMANN TAMINI: MÁLSVARI HÓFSEMDAR

Salman Tamini II
Salman Tamini II

Ég hef kynnst Salmann Tamini í pólitísku starfi í langan tíma. Hann hefur verið öflugur málsvari Palestínumanna sem hafa verið beittir harðræði og ofbeldi af stærðargráðu sem oft vill gleymast en sem heimurinn má ekki gleyma.

Salmann Tamini er frá Palestínu. Frændi hans einn var leiðsögumaður minn þegar ég heimsótti Palestínu fyrir nokkrum árum. Ég kyntist öðrum ættmennum hans þar og var mér tekið af hlýju og alúð. Þrátt fyrir ættar- og tilfinningatengsl sín við Palestínu hefur Salmann Tamini auðnast að tala máli undirokaðra Palestínumanna af ótrúlegri yfirvegun og hófsemd.

Salmann er í forsvari fyrir söfnuð múslíma á Íslandi og í bæjarstjórnarkosningunum nú skipar hann þriðja sætið á lista Dögunar í Reykjavík. Um hann segir Þorleifur Gunnlaugsson, oddviti listans í nýlegri grein í DV: „Nú vill svo til að ég þekki til þess að safnaðarstarf þeirra  múslíma sem hafa skipulagt sig hér á landi og standa að umræddri mosku, byggir á hófsemi  og umburðarlyndi. Einn helsti talsmaður múslima er Salman Tamini sem skipar þriðja sæti á lista Dögunar í Reykjavík. Allir sem til hans þekkja vita að hann er boðberi umburðarlyndis og mannréttinda. Það er ástæðan fyrir því að hann skipar sæti ofarlega á okkar framboðslista." http://www.dv.is/blogg/thorleifur-gunnlaugsson/2014/5/28/moskutal-er-dulbuin-adfor-ad-freslinu/

Tilefni þessara skrifa minna er að mér ofbýður haturstal og hatursskrif í garð múslíma almennt og Salmanns Taminis persónulega á undanförnum dögum og vikum. Því miður fengu slíkir pennar kærkomna tylliástæðu til árása á Salmann þegar hann í reiði og hálfkæringi svaraði „absúrd tali" um að það tíðkaðist í Islam að höggva hendur af þjóðfum. Allir þeir sem til þekkja vita að þarna var svarað út í hött til þess að svara út í hött!
Eyjan.is tók málið upp. Það kallaði strax á viðbrögð á á vefnum. http://www.dv.is/blogg/thorleifur-gunnlaugsson/2014/5/28/moskutal-er-dulbuin-adfor-ad-freslinu/ Eyjan hefur fjarlægt þau verstu.

Innan allra trúarbragða fyrirfinnast öfgar. Hingað komu einhverjir talsmenn Islams ekki alls fyrir löngu sem töluðu máli öfganna. Ekki hef ég áhuga á að fá slík viðhorf inn í okkar samfélag. Ég er því meira að segja mjög andvígur. Ég hef það fyrir satt að ekki hafi þessi viðhorf heldur mælst vel fyrir á meðal múslíma hér á landi - innan þeirra raða gerist nákvæmlega það sama og í nánast öllum samfélögum. Þar er að finna einstrengingslegt öfgafólk og hófsemdarfólk einnig.

Á Íslandi þekkjum við til öfgafullra ofstækismanna sem segjast tala í nafni Kristni. Þetta þekkist í öllum trúarbrögðum. Viðhorfin eru ekki til trúarbragðanna vegna heldur öfganna vegna. Gegn þeim vil ég tala og gegn þeim mun ég tala því ofstækisöfgar meiða. Þær meiða einstaklinga og þær meiða samfélagið allt. Salmann Tamini er ekki talsmaður öfga. Hann er talsmaður jafnaðar og hófsemdar. Ég er stoltur af því að hafa átt pólitíska samleið með Salmann Tamini um langt árabil.