Fara í efni

Saga Reagans endurskrifuð?

Forseti Íslands hefur sent samúðarskeyti vestur um haf vegna fráfalls Ronalds Reagans forseta Bandaríkjanna 1980-88. Hann lést í fyrradag á tíræðisaldri. Í Morgunblaðinu í dag er leitað eftir ummælum forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fyrrverandi forseta, fyrrverandi ráðherra, leiðarahöfundur fjallar um manninn svo og sérfræðingar í erlendum málefnum. Það kemur nokkuð á óvart hve einhæf mynd er dreginn upp af þessum mjög svo hægrisinnaða og herskáa forseta tíunda áratugarins. Í yfirlýsingu forseta Íslands er minnst á Reykjavíkurfund þeirra Reagans og Gorbatsjofs og að "vonandi myndi sá friðarandi sem einkennt hafi framtíðarsýn Ronalds Reagan á þeim fundi fylgja mannkyni um alla framtíð".
Davíð Oddsson segir að öll hans sjónarmið og lífsskoðanir "hafi legið alveg klár fyrir" og hann hafi þess vegna átt auðvelt með að taka ákvarðanir án vafninga. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra telur það rangt mat marga að Reagan hafi ekki verið snjall maður; "ég tel að hann hafi verið það", segir utanríkisráðherra. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sem sinnti erlendum skrifum á Morgunblaðinu í langan tíma, lýsir mikilli hrifningu á Reagan fyrir hugrekki og stefnufestu: "Það þurfti enginn að fara í grafgötur um það markmið hans að svara sovéskum hernaðarmætti með því að standa feti framar..." Þarna hittir Björn Bjarnason naglann á höfuðið. Ronald Reagan var hernaðarsinni, hann taldi að með hernaðaryfirburðum myndu Bandaríkjamenn hafa sitt fram. Í hans tíð var stjörnustríðsáætluninni hrundið af stokkunum, áætlun sem Reagan vildi ekki hvika frá á Reykjavíkurfundinum með Gorbatsjof ( erfitt á ég því með að átta mig á friðarandanum í framtíðarsýn hans), Evrópa logaði í mótmælum vegna uppsetningar skammdrægra og meðaldrægra kjarnorkueldflauga, dauðasveitir voru þjálfaðar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA í Mið-Ameríku og var grafið þar undan öllum ríkisstjórnum sem sýndu viðleitni il að reisa skorður við ofurvaldi bandarískra auðhringa; framganga Reagans og félaga var í þessum anda um nær alla jarðarkringluna. Enda bendir leiðarahöfundur Morgunblaðsins á samfelluna í valdatíð hægrisinnaðra Repúblikana í Hvíta Húsinu: "Sá hópur manna sem nú stjórnar Bandaríkjunum undir forystu Bush yngra kom fyrst inn í Hvíta Húsið í forsetatíð Nixons og hefur fylgt Reagan og Bush-feðgunum síðan".  

Ronald Reagan hafði vissulega skýra sýn (allt frá leikaradögum sínum í Hollywood og í gegnum MaCarthy-ofsóknirnar gegn  vinstrisinnum þar) og það vafðist ekkert fyrir honum að taka ákvarðanir. Þær ákvarðanir þóttu hins vegar ekki alltaf sérlega snjallar og yfirvegaðar. Hitt er annað mál að ásamt Margréti Thatcher, forsætisráðherra Breta, lagði Reagan sitt af mörkum til að búa í haginn fyrir nýfrjálshyggjuna sem heita má að hafi orðið ráðandi hugmyndastefna valdastéttanna á tíunda áratugnum - með hrikalegum afleiðingum.
Ég verð hins vegar að lýsa mig ósammála Birni Bjarnasyni og sérfræðingum Morgunblaðsins um að hernaðarstefna Reagans og haukanna í Washington hafi fellt kommúnismann. Ríkin í Austur-Evrópu sem kenndu sig við kommúnisma hrundu á endanum innan frá en hvatinn hygg ég að hafi að verulegu leyti kviknað í því mikla umróti, fjöldamótmælum í Evrópu og víðs vegar um heiminn gegn hernaðarstefnu Reagans. Þetta umrót og andófsandi smitaði og hafði áhrif um heiminn allan. Sovéskir fjölmiðlar voru óþreytandi að sýna andófið og mótmælin gegn vestrænu kapítalistunum. Þær fréttir fengu þeir síðar í bakið sjálfir. Þeir áttuðu sig ekki á því að þeir voru að grafa sína eigin gröf.
Eflaust er hægt að finna eitthvað fallegt til að segja um Ronald Reagan og sjálfsagt að gera það í skeytum og ummælum að honum látnum. En ætli menn að endurskrifa söguna, þá verða menn að vanda sig aðeins betur.