Fara í efni

SÁÁ: ÞAR SEM VERKIN TALA


Ávarpsorð til SÁÁ á hátíðarsamkomu í Háskólabíói 06.10.10.
 Óhætt er að segja að við lifum erfiða tíma, vaxandi þrengingar, samdrátt  og niðurskurð. SÁÁ hefur því miður þurft að kynnast þessum niðurskurði af eigin raun.
Við bankahrunið rýrnuðu allar efnahagsstærðir í hagkerfinu, kaupmáttur launamannsins, verðgildi húsnæðis og annarra eigna, gjaldmiðillinn hrundi - og tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga brustu. Einnig þar varð hrun.
Þótt deila megi um hvernig staðið er að verki og hversu hratt er farið í sakirnar í niðurskurði hjá ríki og sveitarfélögum, þá er hitt óumflýjanlegt að dregið sé úr útgjöldum. Sjaldan eða aldrei hefur verið eins mikilvægt og einmitt við þessar aðstæður að fjármunum sé ráðstafað skynsamlega og af ráðdeild.
Ég er þeirrar skoðunar að fjármunum ráðstafað til heilbrigðiskerfisins sé vel varið og horfi ég þar á meðal annars til SÁÁ sem rekur heilbrigðisþjónustu sem löngu hefur sannað sig. Þetta þekki ég vel sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra og sem þjóðfélagsþegn.
Forsvarsmenn SÁÁ hafa jafnan lagt kapp á að kynna vel starfsemina og hef ég notið góðs af því en einnig hef ég fengið nasajón af innra félagslífi í heimsóknum til Heiðursmanna - þeirra sem funda vikulega á Vogi til styrktar samtökum sínum.
Kjarnakonur, samsvarandi félagsskap kvenna hef ég hins vegar ekki enn heimsótt.
Mér var sagt á fyrsta fundi Heiðursmanna sem ég sótti að í þesssum hópi myndi aldrei nokkur maður kjósa mig eins og ég léti gagnvart spilavítiskössum en þeir eru sem kunnugt er mikilvæg tekjulind SÁÁ. Ég svaraði að bragði að ég myndi þá bara gerast forstokkaðri en nokkru sinni fyrr í því efni og stóð við það.
Auðvitað var þetta sagt í gríni en öllu gríni fylgir alvara og í þessu tilviki var ádeilan á fjárveitingavald sem býr þjóðþrifastofnunum á borð við SÁÁ upp það hlutskipti að hafa tekjur upp úr vösum spilafíkla. Í þessu efni veit ég að við erum samherjar í raun og þurfum saman að finna lausn á fjárhagsvandanum og spilavandanum. Sem dómsmálaráherra er ég staðráðinn í því að gera það sem í mínu valdi stendur til að stemma stigu við spilafíkn sem er ógæfa alltof margra. 
Annars nefni ég þennan fund með Heiðursmönnum og ádeilur sem þar voru uppi vegna þess að hann er dæmigerður um hreinskiptin samskipti SÁÁ manna inná við og útávið. Allt óttalaust og engin undirmál.
Áhersla SÁÁ manna að sérhver maður taki ábyrgð á sjálfum sér er mér að skapi. Sykursjúkur maður heldur sig frá sykri, alkóhólisti frá áfengi og vímuefnum. Þetta tekst hins vegar ekki öllum af sjálfsdáðum og þurfa læknisfræðilega aðstoð. Þar gegna heilbrigðisstofnanir SÁÁ lykilhlutverki. Forvarnir skipta hér einnig miklu máli og er mikilvægt að stuðla að umhverfi sem hjálpar fólki en hvetur ekki og örvar til áfengisneyslu og neyslu annarra fíkniefna.
Sem dómsmálaráherra mun ég fara að ráði  Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar sem hvetur til þess að bann við áfengisauglýsingum sé virkt og virt auk þess sem markaðskraftarnir verði ekki virkjaðir til hins ítrasta til að koma áfengi ofan í þjóðina. Sumir halda að ég sé fylgjandi einkarekstri ÁTVR  vegna þess að mér sé uppsigað við markaðsöflin. Hið gagnstæða er raunin. Svo mikla trúa hef ég á markaðnum að ég tel að markaðskraftarnir kæmu miklu meira brennivíni ofan í þjóðina en einkarekin áfengisverslun gæti nokkur tíma gert. Á Íslandi er bann við auglýsingum á áfengi og verð ég að segja að aumara sé ég ekki á markaðstorginu en tilraunir sem þar eru ástundaðar til þess að brjóta þetta bann.

En aftur að SÁÁ.
Það hefur verið sagt um starfið þar á bæ,  að það sé fyrirbæri sem áhöld eru um að virki  í teóríu. Hitt efast enginn um að  SÁÁ virkar í praxís.
SÁÁ er dæmi um hverju hægt er að áorka með samtakamætti, ósérhlífni og löngun til að vinna öðrum gagn. SÁÁ er líka gott dæmi um hvernig hægt er að byggja upp samstarf ríkis og frjálsra félagasamtaka.
Grasrótarsamtök sem ekki vinna verk sín til auðsöfnunar, heldur af náungakærleik, eru til þess fallin til að taka á verkefnum sem krefjast sálgæslu, ekki síður en læknismeðferðar.

SÁÁ er eðli málsins samkvæmt raunsæasti félagsskapur sem til er. Það er ekkert sem kemur þeim sem þar starfar á óvart. Það er heldur ekkert sem er ómögulegt og það gæti hafa verið í félagi einsog SÁÁ sem til varð setningin: Verum raunsæ, stefnum á hið ómögulega.
SÁÁ hefur nú starfað í þrjátíu ár og hjálpað þúsundum einstaklinga til að ná bata og öðlast lífshamingju á ný eftir harða og oft langvinna baráttu. Maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér í þeirri stöðu sem þjóðin er í um þessar mundir, hve verðmætt eitt líf og ein fjölskylda er?
Hversu mörgum einstaklingum og fjölskyldum skyldi SÁÁ hafa hjálpað til að komast á réttan kjöl? Og hvers virði skyldi það starf vera samfélaginu öllu. Það verður vart reiknað til fjár. En samt er það staðreynd að án þessa félags og án þessa starfs væri Ísland veikara og aumara en ella.
Samt er mönnum kennt í þessum klúbbi að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Treysta síðan á að gæfan fylgi þeim sem lifir í sátt við
umhverfi sitt, rétt eins og fuglar himinsins og liljur vallarins.
Starfið hjá SÁÁ kennir manni að kvíða ekki hinu óvinnandi verki. Þar sem er von og trú og vilji - og ekki síst kærleikur, þar opnast ævinlega vegur handan við hólinn eða beygjuna. Þannig getur SÁÁ orðið okkur leiðsögn í sínu verki. Það er verkið sem skapar vitneskjuna og skilninginn. Það er praxísinn sem er öllum teóríum yfirsterkari.
SÁÁ er klúbbur sem aldrei predikar en fyrirgefur ævinlega. Einsog þeir séu umboðsmenn almættisins, í það minnsta í Grafarvoginum. Þeir hafa enga stjórnmálaskoðun, enga peningamálastefnu og vita aldrei betur en aðrir. En samt er ávöxtunin af þeirra starfi öruggasta ávöxtun sem fáanleg er.
SÁÁ er einnig merkilegt fyrir tímamælingar sínar, þar sem hjá þeim er lengsta tímaeining einn dagur. Þeir hafa komist að því að sérhver maður lifir bara einn dag í einu. Þótt fyrir suma, geti fyrstu dagarnir eflaust verið einsog þúsund ár að líða, í baráttu við fíknir og sorgir og erfiði. Í óeigingjörnu starfi SÁÁ kristallast samt okkar íslensku þúsund ár ávallt í lokin í einum degi í lífi eins manns, sem berst baráttu uppá líf og dauða.
Því öll verkefni SÁÁ eru uppá líf og dauða. Skekkjumörkin á þeim bæ eru skilin á milli feigs og ófeigs. Skilin milli brotinnar fjölskyldu og lífshamingjunnar sjálfrar. Eitthvað má það kosta og einhverja skuld eigum við sem samfélag að gjalda.
Fjárlög eru nú smíðuð í vaxandi kreppu. Í gegnum hana þurfum við að komast með óskaddað velferðararkerfi. Það gerum við í samstarfi. Af æðruleysi en líka raunsæi. Við gerum það í anda SÁÁ. Við skulum aldrei gleyma því að allt er hægt.