Fara í efni

S-HÓPURINN, HVAÐ ER NÚ ÞAÐ?

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað skýri þær tilfæringar sem nú eiga sér stað við slitin á Samvinnutryggingum. Nokkrar blaðagreinar hafa birst um efnið en tilefnið hefði ég haldið að kallaði á miklu meiri umfjöllun. Ég vona að Fjármálaeftirlitið hafi kannað málið og viðskiptaráðherrann að sama skapi svo hann verði undir það búinn að skýra þessi mál fyrir hönd eftirlitsaðila þegar Alþingi kemur saman. Svo er að skilja að við slit Samvinnutrygginga – sem á sér rúmlega sextíu ára sögu – hafi tuttugu og fjögurra manna fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga ákveðið hvaða hópur skyldi fá greidda tugmilljarða króna.
Það er þó ekki aðeins þetta sem vekur athygli. Menn hafa spurt hvort fjármunir Samvinnutrygginga hafi verið notaðir þegar ýmsir innanbúðarmenn í Framsóknarflokknum – S-hópurinn svonefndi - komust yfir Búnaðarbankann þegar Valgerður þáverandi bankamálaráðherra Framsóknarflokksins einkavæddi bankann. Væri svo færi málið að lykta illa. Meginákæran í Baugsmálinu lýtur einmitt að því hvort fjármunir í hlutafélagi hafi verið notaðir í einkahagsmunaskyni takmarkaðs hóps. Um þetta var Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri á Sauðárkróki m.a. spurður í fréttaviðtali í RÚV 18. júní sl.. Þórólfur hefur um langt árabil verið einn af innstu koppum í fjármálabúri Framsóknarflokksins. Án þess að ég geti fullyrt eitt eða neitt um ráðstöfun fjármuna Samvinnutrygginga í þágu flokksgæðinga Framsóknarflokksins þá leyfi ég mér engu að síður að fullyrða að Þórólfur Gíslason hefur eflaust komist nærri því að slá heimsmet í óskammfeilni í framangreindu viðtali. Í viðtalinu kveðst hann ekki átta sig neitt á því hvað átt sé við með S-hópnum! Hann kunni engin skil á honum!! Ætli Ólafur Ólafsson, sem hélt afmælispartí fyrir hundrað  milljónir um daginn og Finnur milljarðamæringur, fyrrverandi varaformaður Framsóknar og síðar lykilmaður í VÍS og einkavæddum Búnaðarbanka séu ekki bara tilbúningur? Ætli Þórólfur hafi nokkurn tímann heyrt um þessa menn? Í hans huga eru þeir kannski ekki til, bara svona tilbúningur, eða hvað?
Frétt RÚV og viðtalið við fjármálavesír Framsóknarflokksins fer hér á eftir. Góða skemmtun:

"Tuttugu og fjögurra manna fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga ákvað hvaða hópur skyldi fá greidda tugmilljarða króna við slit félagsins. Ráðið hefur kosið sig sjálft síðan sambandið leið undir lok.

Samvinnutryggingar gt-gagnkvæmt tryggingafélag voru stofnaðar árið 1946. Þær sameinuðust svo Brunabótafélaginu í VÍS árið 1989. Eftir lifði samt eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar sem hefur verið umsvifamikið í fjárfestingum síðustu ár. Þeir sem tryggðu hjá Samvinnutryggingum árin 1987 til 1988 og héldu áfram að tryggja hjá VÍS fram til 1. júní 2006 eiga nú að fá sinn hluta greiddan í hlutabréfum í Gift, dótturfélagi Samvinnutrygginga ehf. En hvers vegna á bara þessi hópur rétt á greiðslu en ekki þeir sem áttu í viðskiptum við Samvinnutryggingar fyrr eða fluttu sig yfir til annars tryggingafélags eftir stofnun VÍS.

Þórólfur Gíslason, stjórnarformaður Samvinnutrygginga ehf.: Ja, þetta er nú bara, fer eftir samþykktum félagsins og félagið hefur alltaf starfað eftir sínum samþykktum.

Þóra Arnórsdóttir: En, er þetta dálítið, já, hvað á maður að segja, svona tilviljanakennt val að velja nákvæmlega þennan hóp?

Þórólfur Gíslason: Hvað áttu við, fyrirgefðu?

Þóra: Það er að segja nákvæmlega þennan hóp sem að tryggði þarna 87, 88 og svo fram til 2006 hjá VÍS?

Þórólfur Gíslason: Nei, það er ekki sko, vegna þess að tryggingastarfsemin, sko, hún er þannig að þetta er ákveðin skil sem verða þarna og þá er þetta gagnkvæma tryggingafélag ekki lengur með tryggingastarfsemi, sko, beina. En þetta eru bara samþykktirnar og þær eru svona að ég vona að, að þetta sé það sem að, að hérna, menn geti verið bara mjög ánægðir með þegar upp verður staðið.


Það er 24 manna fulltrúaráð sem gerir þessar samþykktir og það hefur líka kosið stjórn sem ákveður fjárfestingastefnu, styrkveitingar og fleira.

Þóra: Hvaðan kemur þeirra umboð eftir að SÍS líður undir lok?

Þórólfur Gíslason: Ja, það kemur, þeirra umboð kemur frá fulltrúaráðinu að sjálfsögðu, sem hefur verið starfandi allan tímann. Fulltrúarráðið hefur verið kosið, það er þannig að það er kosið til 4 ára í senn og síðan hefur það sem sagt verið endurnýjað árlega, einn fjórði af fulltrúarráðinu.

Þóra: Bíddu, en hver kýs?

Þórólfur Gíslason: Ja, aðalfundur sambandsins kaus meðan hann var og hét, síðan hefur, hefur sko, hefur fulltrúaráðið tilnefnt eftir það, þar sem að það hefur endurnýjað sig.


Tugþúsundir manna eiga skilyrtan eignarrétt í félaginu, þótt fæstir hafi kannski vitað af því.

Þóra: Hefði ekki verið eðlilegt þá einmitt þá að boða þá á fundi einmitt til þess að kjósa fulltrúaráð og fleira.

Þórólfur Gíslason: Ja, það liggur raunverulega, þetta fer bara eftir samþykktum félagsins, nákvæmlega og eins og ég hef margsagt að þeir hafi ekki lagt fram neina fjármuni og þetta er algjörlega skilyrt að þeirra eignaréttur verður ekki virkur nema félaginu verði slitið.


S-hópurinn sem keypti Búnaðarbankann á sínum tíma hefur löngum verið nefndur í sömu andrá og Samvinnutryggingar ehf. Þórólfur kannast ekki við þann hóp.

Þórólfur Gíslason: Ég kannast víst ekki við þennan S-hóp. Hann er nú svona tilbúinn, þó að svona í umræðunni hafi verið reynt að gera þetta tortryggilegt hjá sumum þá er þetta allt saman á misskilningi byggt. Samvinnutryggingar lánuðu engum fé til að kaupa hlutabréf í Búnaðarbankanum. Þeir fengu bara eins og aðrir, á þeim tíma sem stóð að þessum kaupum, keyptu ákveðin hlut í bankanum sem hefur ávaxtað sig ágætlega en það, það er margt annað sem hefur ávaxtað sig mjög vel."