Fara í efni

RÓTTÆKRA AÐGERÐA ÞÖRF


Í aðdraganda aðalfundar BSRB sem haldinn var í dag var haft samband við ýmsar stofnanir innan almannaþjónustunnar til að kanna atvinnuástandið. Kom í ljós að víða var það mat þeirra sem gerst þekkja til, að manneklan væri slík að nálgist hættumörk. Fólk fáist hreinlega ekki til starfa á þeim kjörum sem í boði séu. Á Landspítala háskólasjúkrahúsi til dæmis bráðvanti tugi umönnunar og hjúkrunarstarfsmanna. Þetta valdi síðan auknu álagi á þá sem eru starfandi sem síðan leiði til þess að enn fleiri hröklist frá störfum. Þannig vindi vandinn enn upp á sig.
Kjarakannanir hafa sýnt að starfsfólk innan almannaþjónustunnar hefur dregist aftur úr á vinnumarkaði hvað kjör varðar. Upp úr aðalfundi BSRB í dag stóð sú krafa á hendur viðsemjendum aðildarfélaga BSRB að í næstu kjarasamningum yrði gerð róttæk tilraun til þess að bæta úr þessu ófremdarástandi. Það verður ekki gert nema innan almannaþjónustunnar verði greidd laun og starfsfólki búin kjör eins og best gerist annars staðar á vinnumarkaði. Ella fáist starfsfólk þar einfaldlega ekki til starfa. Sjá nánar HÉR.