Fara í efni

RÍKISSTJÓRNINNI BER AÐ KVEÐJA ALÞINGI SAMAN ÞEGAR Í STAÐ

Stjórnarandstaðan ítrekaði í dag kröfu um að Alþingi verði kallað saman til þess að fresta með lögformlegum hætti framkvæmd á ákvörðun Kjaradóms um launahækkanir til handa dómurum, alþingismönnum, ráðherrum, forseta Íslands, biskupi og þeim öðrum sem heyra undir hans forsjá. Þar með gæfist Alþingi nauðsynlegt svigrúm til þess að meta þá stöðu sem upp er komin eftir að Kjaradómur úrskurðaði fyrrnefndum aðilum meiri hækkanir en um samdist almennt fyrir launafólk nú um áramótin.

Kjaramisréttið slæmt - ekki að fólk skuli koma auga á það

Ákvörðun Kjaradóms endurspeglar vaxandi kjaramismunun á Íslandi. Margir hörðustu gagnrýnendur ákvörðunar Kjaradóms virðast hafa minni áhyggjur af þessari þróun en hinu að gjáin verði sýnileg. Þeir segja að ákvörðun Kjaradóms um launahækkanir geti valdið usla þegar fram í sækir og orðið til þess að launafólk á lágum og miðlungstekjum fari að reisa kröfur fyrir eigin hönd. Þetta eru sömu aðilar og á Alþingi hafa smám saman verið að tína forstjóra ríkisfyrirtækja út úr opinbera kerfinu og setja þá á leynilega sérsamninga. Þetta er gert til þess að hægt sé að hækka þá verulega í launum – en í kyrrþey. Í þessu er fólginn hrottalegur tvískinnungur. Auðvitað er það kjaramisréttið sem á að gagnrýna, ekki hitt að menn komi auga á það.

Misrétti á einum stað réttlætir ekki misrétti á öðrum

En ef það er nú svo, að ákvörðun Kjaradóms endurspegli það sem er að gerast í þjóðfélaginu almennt, bæði innan opinbera launakerfisins og þá ekki síður í kjaraumhverfinu á vinnumarkaði almennt, er þá nokkuð við hana að athuga? Já, í fyrsta lagi vegna þess að misrétti á einum stað réttlætir ekki misrétti á öðrum, og einhvers staðar þarf að byrja. Nærtækast er að horfa sérstaklega til alþingismanna, sem sjálfir taka ákvörðun um kjör mjög stórra þjóðfélagshópa, svo sem aldraðra, öryrkja, atvinnulausra, auk að sjálfsögðu þess fólks sem þarf að sæta álögum í velferðarkerfinu. Eðlilegt er að fólk beini sjónum sínum sérstaklega að alþingismönnum. Ákvarðanir sem snúa að kjörum þeirra eru táknrænar um margt.
Nú er ég í hópi þeirra sem tók eindregið undir með forsætisráðherra er hann ritaði Kjaradómi og bað hann um að endurskoða ákvörðun sína. Frá þessari afstöðu hef ég ekki hvikað þrátt fyrir efasemdir víðs vegar að í þjóðfélaginu um að þetta hafi ekki verið réttmætt. Í þessu sambandi hefur einkum tvennt verið sagt. Í fyrsta lagi að Kjaradómur sé dómstóll og rangt af framkvæmdavaldinu að reyna að hlutast til um ákvarðanir hans. Í öðru lagi geti Kjaradómur ekki breytt ákvörðunum sínum að óbreyttum lögum. Þessu er ég ósammála.

Kjaradómur er ekki dómstóll og byggir ekki á vísindum

Hvað fyrra atriðið áhrærir, lít ég ekki á Kjaradóm sem dómstól. Kjaradómur er eins konar lögskipuð launanefnd, sem hefur ákvörðunarvald með hendi um launakjör tiltekins hóps starfsmanna ríkisins. Kjaradómur á lögum samkvæmt að starfa sjálfstætt. Það breytir því ekki að réttmætt getur verið að biðja hann að endurskoða ákvörðun sína. Það skal játast að það kom mér ekki á óvart að hann væri ekki reiðubúinn að breyta afstöðu sinni enda ákvörðun hans væntanlega vel ígrunduð. Kjarni máls er hins vegar sá, að ekkert bannar að Kjaradómur taki ákvörðun um að breyta niðurstöðu sinni í ljósi nýrra aðstæðna eða áður ókunnra forsendna. En hvorki ríkisstjórn né Alþingi getur þvingað hann til þess að óbreyttum lögum. Þess vegna stendur allt og fellur með því að Alþingi komi saman, fresti fyrri ákvörðun Kjaradóms með lögum, breyti þeim forsendum sem hann starfar samkvæmt, nema hvort tveggja væri.
Hvað hitt atriðið snertir ber að hafa í huga að ákvörðun Kjaradóms byggir ekki á vísindum. Þau eru þvert á móti matskennd. Í 5. grein laga um Kjaradóm og kjaranefnd er kveðið á um forsendur launaákvarðana: "Við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði."

Hvor ber meiri ábyrgð, heilaskurðlæknir eða matráðskona?

Þetta er eins opið og hugsast getur. Hvaða störf eru sambærileg? Hvað er sambærileg ábyrgð? Á hvaða forsendum á að bera saman ábyrgð bankastjóra og ráðherra, strætisvagnastjóra og alþingismanns, biskups og kennara, sjúkraliða og dómara? Mér finnst svarið alls ekki liggja í augum uppi. Hvor ber meiri ábyrgð, heilaskurðlæknir á sjúkrahúsi eða matráðskonan á sjúkrahúsinu? Einn maður liggur undir hníf læknisins, matráðskonan getur hins vegar drepið allan spítalann ef hún gerir alvarleg mistök. Er hennar ábyrgð þá meiri? Engin vísindi geta svarað þessari spurningu, og það er sama hversu langt lögfræðinám menn leggja stund á, menn verða engu nær. Frjálshyggjumenn vísa í markaðinn, aðeins framboð og eftirspurn fái svarað þessum spurningum á raunhæfum forsendum. Kjaradómur segist vera að teygja sig í átt til þessara lögmála markaðarins. Það er hins vegar að mínu mati heilbrigðisvottur þegar samfélagið rís upp og hafnar niðurstöðu sem endurspeglar "réttlæti" markaðarins.

Ríkisstjórnin vill þögn um réttlætismál

Stjórnarandstaðan á Alþingi vill að þing verði kvatt saman, umdeildum kjaraákvörðunum verði frestað og reynt að ná samstöðu um leiðir til að uppræta misréttið. Það væri vægast sagt óskynsamlegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafna þessari kröfu. En því miður kæmi það ekki á óvart. Þegar réttlætið er til umræðu í þjóðfélaginu hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar verið umhugað um að þingið sitji heima. Hún kýs þögnina þegar réttlætismálin eru annars vegar.

Sjá nánar HÉR og HÉR