Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN TEKUR Á VANDANUM - Í SÝNDARGRÆJUM


Ríkisstjórn Íslands hefur verið önnum kafin - eða þannig. Ingibjörg Sólrún segir gífurlega vinnu (og þá væntanlega einnig fjármagn, les:skattfé) hafa farið í að reyna að tryggja okkur sæti í Öryggisráði Samerinuðu þjóðanna. Síðast sást til utanríkisráðherra Íslands (væntanlega í þessum erindagjörðum) í faðmlögum við Condoleezzu Rice, utanríkisráherra Bandaríkjanna. Öllu virðist eiga að kosta til - líka mannorði þjóðarinnar - fyrir að fá að sitja í Öryggisráði SÞ í tvö ár.
Heima fyrir gengur allt sinn vanagang, sumir ráðherranna tala um evru, aðrir kynda undir með einkavæðingarhugmyndum á sama tíma og óuppdreginn markaðskaítalismi er búinn að keyra efnahagskerfi heimsins inn í algert öngstræti. Þá bregður líka svo við hagsmunagæslumenn á fjármálamarkaði rísa upp og benda á að allt sé þetta í rauninni Seðlabankanum að kenna. Eigin óráðsía, allt fjárfestingarfylliríið, einkavinavæðingin, glórulausar stóriðjuframkvæmdir, allt er nú Seðlabankanum að kenna. Og þjóðin eigi Seðlabankann því beri hún líka ábyrgð.  Mikið hefði ég viljað að SA og einnig félagar mínir úr ASÍ, hefðu tekið undir varnaðarorð gegn þessari stefnu á sínum tíma í stað þess að bakradda nú tenórana úr Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum.
Geir okkar segir lítið. En vel tók hann sig út í sýndarveruleikagræjunum í Morgunblaðinu um daginn. Ég veit ekki nákvæmlega hverju hann var að stýra. Kannski var hann að taka á okkar vanda - svona í þykjustunni. Einsog gert er í svona græjum. En hve lengi skyldi það ganga í alvöruveruleikanum?