Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN ÖLL SAMSEK Í YFIRHYLMINGU VALGERÐAR SVERRISDÓTTUR

Æpandi er orðin þögn ríkisstjórnarinnar um þá ákvörðun Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrverandi iðnaðarráðherra, að halda leyndu frá Alþingi upplýsingum um greinargerð Gríms Björnssonar, jarðvísindamannas, sem ráðherra fékk í hendur í febrúar árið 2002. Þögnin er ávísun á samsekt ríkisstjórnarinnar allrar í þessu máli.
Ummæli ráðherra og forstjóra Orkustofnunar eru út og suður og stangast þar hvert á annars horn. Þannig segir Þorkell Helgason, orkumálastjóri að upplýsingarnar hafi lotið að rekstrinum á virkjuninni og hefðu því aðeins átt að fara til þess aðila, sem hugsanlega þyrfti að axla fjárhaglegt tjón. Ég spyr á móti, hver gæti það verið annar en ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, eigendur Landsvirkjunar, sem stýrir verkinu með fjárhagslegri ábyrgð þessara aðila?
Jón Sigurðsson, núverandi iðnaðarráðherra er með svipaða nálgun og segir að kostnaður við virkjunina hefði ekki verið úrlausnarefni eða álitaefni,  sem Alþingi var að fjalla um á þessum tíma. Það er nefnilega það! Hvað skyldi sá sem þetta skrifar hafa haldið margar ræður eða skrifað margar greinar um fjárhagsþætti framkvæmdanna? Það get ég fullvissað Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra um, að efnahags- og fjárhagsforsendur virkjunarinnar voru þungamiðja í mínum málflutningi á Alþingi.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að fjárhagsforsendurnar eigi ekki að vera opinber gögn! Nú vitum við að ríkisstjórnin hefur alla tíð viljað leyna þjóðina upplýsingum um raforkuverð. Þetta er hins vegar nýtt að allir kostnaðarliðir eigi að vera huldumál og samkvæmt þessu einnig þær forsendur sem útreikningar byggja á.
Hrikaleg eru ummæli Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrverandi iðnaðarráðherra, sem segir að Alþingi hafi fengið allar þær upplýsingar sem skiptu máli! Það eru þá væntanlega Valgerður sjálf, orkumálastjóri og Landsvirkjunarmenn sem eiga að ákveða hvað skiptir Alþingi máli! Forsætisráðherrann hefur í raun tekið undir þetta sjónarmið sbr. eftirfarandi í Fréttablaðinu 26. ágúst: " Ég treysti fullkomlega því sem fram er komið af hálfu Landsvirkjunar og Orkustofnunar…"

Nú vill svo til að á Alþingi voru þingmenn sem sjálfir vildu fara í saumana á málum og einnig bera álitamál undir sérfróða aðila sem þeir treystu. Ásetningur Gríms að Alþingi þyrfti að fá frekari upplýsingar kemur skýrt fram í greinargerð hans: "Nú í dag, 14. febrúar 2002, stendur svo til að leggja fyrir Alþingi frumvarp um virkjunina og fá leyfi þingsins til að mannvirkið verði reist. Sökum þess hve undirrituðum finnst þetta verkefni illa undirbúið og alls ekki tækt til ákvarðanatöku, er þessi greinargerð sett saman…" Í niðurlagi greinargerðar Gríms Björnssonar segir:
" Eftirfarandi atriði tel ég óskýrð og/eða verulega áhættuþætti við gerð Kárahnjúkamiðlunar, sem skýra/hrekja verði áður en Alþingi samþykkir lög um virkjunina:
Þungi miðlunarinnar getur valdið landsigi svo nemi e.t.v. metrum og þar með skertri afkastagetu lónsins
Verulegar líkur eru til þess að sjálf Kárahnjúkastíflann verði reist á virku sprungusvæði Því telur undirritaður hættumat það sem kynnt er í matsskýrslu Landsvirkjunar algerlega óviðunandi, líkur á stíflurofi séu umtalsverðar, og meðan svo er eigi virkjunin ekkert erindi inn á Alþingi.
Þungi Hálslóns veldur tilfærslum á kviku og kann þannig að hafa áhrif á eldvirkni nærri lóninu.
Til stendur að bora jarðgöng virkjunarinnar með tækni sem er óþekkt og óreynd á Íslandi
Þétting jarðganga getur orðið tímafrek og tafsöm, og þannig hægt á lúkningu virkjunar
Gera verður ráð fyrir talsverðum leka Hálslóns og þar með skertum afköstum virkjunar
Miðlunin dregur úr náttúrulegri bindingu gróðurhúsalofttegunda í hafi
Lífmassar í hafi kunna einnig að finna fyrir lónsmíðinni."

 Þetta telja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að hafi ekki átt erindi til Alþingis. Ekki nóg með það. Þessum upplýsingum var haldið leyndum. Ríkisstjórn sem verður uppvís af öðru eins pólitísku misferli á að fara frá.

Hér að neðan eru nokkur brot úr fréttaviðtölum undanfarna daga auk greinargerðar Gríms Björnssonar. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið látið í veðri vaka að hún sé mikil að vöxtum og flókin aflestrar. Því fer fjarri eins og sjá má. En jafnvel þótt skýrslan hefði verið leikmönnum ofviða, þá hefði þeim verið í lófa lagið að leita aðstoðar við yfirferðina. Að sjálfsöðgu hefði verið óskað eftir því að Grimur Björnsson kæmi fyrir umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis og gerði þar grein fyrir niðurstöðum sínum. Ég hefði án efa óskað eftir því að hann kæmi einnig fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þar sem efnahagsforsendur þessarar stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar voru til umfjöllunar.

 NFS 25.8. kl 18:30:
Þorkell Helgason, orkumálastjóri: Það sem að þetta snertir er eingöngu varðandi reksturinn á virkjuninni. Gæti leki aukist eitthvað meira umfram það sem áætlað er? Ja hvað áttum við að gera? Áttum við að senda þetta í pósti niður á Alþingi? Okkur fannst eðlilegt að kynna þetta aðilanum sem að er með framkvæmdina og bæri þess vegna tjón af því ef að þetta skerti eitthvað rekstrarhagkvæmnina… Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra: Eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá var það metið svo af sérfróðum mönnum sem athuguðu skýrsluna og fóru yfir hana á fundi, m.a. með höfundi hennar, á þeim tíma að skýrslan fjallaði um einstaka kostnaðarliði, þ.e.a.s. þörf fyrir aðgerðir og þetta mat á kostnaðarliðum var ekki eitt af þeim úrlausnarefnum eða álitaefnum sem Alþingi var að fjalla um á þessum tíma. Ríkisútvarpið 25.8. Rás 1 og 2 kl. 12:20
 Geir H. Haarde, forsætisráðherra: En ég tel nú alveg fráleitt að gera að því skóna að menn hafi vísvitandi verið að leyna einhverjum mikilvægum upplýsingum í þessu máli sem varða öryggi eða umhverfismálin, ég trúi því nú ekki…Hins vegar liggur alveg fyrir að fjárhagsupplýsingar og það sem varðar rekstraratriði og þess háttar er ekki opinber gögn.


NFS 26.8 kl 18:30:
Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra:
Þetta er nú þannig að það er gríðarleg vinna sem þarf að fara fram áður en byggð er virkjun sem þessi og mikið liggur fyrir af gögnum. Þau gögn sem að Landsvirkjun á og hefur undir höndum fóru ekki öll fyrir Alþingi eins og, eins og hlýtur að vera, vera eðlilegt að sé, sé ekki gert. Þingið fékk upplýsingar um allt það sem skipti máli og varðaði þá ákvörðunartöku sem að, sem að Alþingi stóð frammi fyrir að taka. Nú niðurstaðan er sú að, að Alþingi samþykki það að þessi framkvæmd sé, sé, eigi sér stað og það var samþykkt sem sagt með miklum meirihluta.

RÚV – Rás 1 og 2 26.8. kl 12:20
Fréttamaður:
Hvers vegna var þá ekki hægt að sýna Alþingi, ja ég veit ekki hvort maður á að segja þá virðingu að sýna þinginu þessi gögn áður en ákvörðun var tekin?
Valgerður Sverrisdóttir: Ja það er nú margt í þessum efnum sem að er mjög mikil, eða krefst mikillar sérþekkingar til þess að fjalla um og það er hlutverk sérfræðinga að fara yfir atriði sem þessi og það var gert eins og ég segi. Niðurstaðan er þessi og Grímur, eftir því sem ég best veit, sætti sig við það að niðurstaðan er sú að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessum atriðum nema eitt þeirra, eitt atriði er skoðað frekar og það varðar ekki atriði sem að Alþingi í raun fjallar um. Þannig að það er alveg af og frá að halda því fram að þarna hafi verið einhverju stungið undir stól eða upplýsingar hafi verið í raun haldið frá Alþingi. Það eru náttúrulega gríðarleg ósköp af upplýsingum og sérfræðiálitum sem að eru til um þetta mikla mannvirki og þau gögn geta ekki öll komið fyrir Alþingi…en á meðan á þessum framkvæmdum hefur staðið þá hefur farið fram rannsókn jafnhliða á ýmsum þáttum þar sem að það er augljóst að það er ekki hægt að rannsaka allt fyrirfram og áður en ákvörðun er tekin og það tíðkast ekki í sambandi við mannvirki sem þessi annars staðar í heiminum að það geti allt legið fyrir áður en að framkvæmdir eru hafnar og ég tel að það hafi verið staðið mjög eðlilega að þessu máli. En auðvitað er málið umdeilt, það er ekkert, það þarf enginn að fara í grafgötur um það.


Greinargerð Gríms Björnssonar:
Kárahnjúkavirkjun, sýnd veiði en ekki gefin Inngangur

Undirritaður hefur fylgst nokkuð með umræðu um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun og þau umhverfisáhrif sem henni fylgja. Strax um vorið 2001 sýndist mér að lítið færi fyrir jarðtæknilegum athugunum á þeim áhrifum sem verða af jafn þungu fargi og lónið sjálft er, auk áhrifamats á lífríki sjávar, kolefnisbindingu og fleira þar að lútandi. Las því af áhuga umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar (2001): Kárahnjúkavirkjun allt að 750 MW. Mat á umhverfisáhrifum. Að þeim lestri loknum setti ég á blað lungann af þeim athugasemdur sem hér fylgja, en hætti þó við að þær senda til Skipulagsstóra sökum þess hve mér fannst matsskýrslan illa unnin, og verkefnið því dæmt til að falla í matinu. Fór það eftir en þá upphófst nýtt matsferli hjá Umhverfisráðuneytinu sem endaði með því að virkjunin var heimiluð. Nú í dag, 14. febrúar 2002, stendur svo til að leggja fyrir Alþingi frumvarp um virkjunina og fá leyfi þingsins til að mannvirkið verði reist. Sökum þess hve undirrituðum finnst þetta verkefni illa undirbúið og alls ekki tækt til ákvarðanatöku, er þessi greinargerð sett saman og afhent Orkumálastjóra til kynningar og aðgerða. Er vonandi að flest sem hér er sagt megi hrekja með góðum og gegnum vísindalegum vinnubrögðum, en að það sem sannara reynist geti Orkumálastjóri þá miðlað til réttra aðila.

Greinargerðinni er skipt í eftirfarandi kafla. Að loknum inngangi er rætt um flotjafnvægi og landsig af völdum Hálslóns, og þar með skerta miðlunargetu þess. Því næst eru rök leidd til þess að Kárahnjúkastífla verði reist á virku sprungusvæði. Þessi umfjöllun leiðir eðlilega til þess að hættumat fyrir stífluna er véfengt. Þá er vikið að landsigi/risi með miðluninni og áhrif þess á þrýsting í kvikukerfum og eldvirkni. Minnt er á að til stendur að bora jarðgögn virkjunarinnar með bortækni sem er óþekkt og óreynd hér á landi.  Rætt er um leka til jarðganganna og leka úr sjálfu Hálslóni, og áhrif þessa á verktíma, kostnað og ársafköst virkjunar. Eins að set sest hratt í Hálslón og skerðir þannig miðlunargetu þess, hraðar landsigi og getur fallið sem eðjuhlaup í átt að Kárahnjúkastíflu. Loks er vikið að gróðurhúsaáhrifum sem virkjunin veldur og frumframleiðslu í hafi.

Flotjafnvægi og landsig

Eitt af helstu einkennunum í íslenskri landmótun er landsig/ris sem stafar af breytilegu jökulfargi. Fjaðrandi hluti jarðskorpunnar sígur þannig niður í mjukan mötulinn ef á er þrýst, og hækkar á ný þegar farginu sleppir. Ekki er minnst einu orði á flotjafnvægi í matsskýrslu Kárahnjúkavirkjunar.  Nú er stærð Hálslóns a.m.k. sambærileg við þykkt fjaðrandi jarðskorpunnar undir lóninu. Því segir þumalfingursregla um flotjafnvægi lands að lónið mun valda verulegu landsigi næst sér (telst líklega í metrum) en smávægilegri landhækkun fjær. Jafnframt veldur það massatilfærslum í hlutbráðarlaginu, undir stinnu skorpunni. Matsskýrslan lætur hvorki uppi skorpuþykkt, dýpi á hlutbráð né seigju hennar. Ómögulegt er að átta sig á áhrifum lónfargsins ef þessar stærðir eru ekki tilgreindar. En sig lónsins verður óneitanlega til þess að miðlunargeta þess minnkar.

Sprungur, jarðhiti og eldvirkni

Á blaðsíðu 23 í umhverfismatsskýrslunni segir að: “Kárahnjúkar og aðliggjandi móbergshnjúkar urðu til við gos undir jökli á sprungu sem lá skáhallt yfir fornan árfarveg Jökulsár á Dal.” Og síðan á blaðsíðu 30: “Kárahnjúkar eru á ungum móbergshrygg sem talið er að hafi myndast í gosum á síðasta jökulskeiði. Hryggurinn er því 10 til 100 þúsund ára gamall…” Getið er um talsverðan jarðhita í innanverðum Jökuldal og í Brúardölum á bls. 36. Og í töflu 4.2 er getið um jarðhitasvæði í fyrirhuguðu Hálslónsstæði og að við Sauðárfoss sé jarðhitasprunga að mestu kulnuð og nokkuð af hverahrúðri. Hvergi er nefnt að jarðhiti fannst í könnunarholum, sem voru boraðar við Hafrahvammagljúfrin, en þar veit undirritaður af uppkomu volgra borkjarna. Því má ljóst vera að jarðhiti þrífst í sprungukerfi sem nær undir fyrirhugaða Kárahnjúkastíflu og hefur verið ágætlega virkt með köflum a.m.k. síðustu 10 þúsund árin. Ómögulegt er því að samþykkja fullyrðingu á bls. 31 þar sem segir “Að mati tæknimanna hentar bergið á stíflustæðunum vel sem grunnur fyrir þær” (þ.e. stíflur við Kárahnjúka). Þvert á móti sýnast líkur til þess að þetta mikla mannvirki eigi að byggja ofan á sprungusvæði.

Hættumat fyrir stíflu

Nú mun hátt vatnsborð Hálslóns og víðátta breyta talsvert spennuástandi í bergi næst Hálslóni. Hvergi er minnst á núverandi spennuástand í bergi á þessum slóðum né hvernig það muni breytast við gerð lónsins. Meðan svo er ekki verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að gamlar sprungur eða nýjar opnist undir sjálfri Kárahnjúkastíflunni, einkum þegar lónið er fullt. Því getur þá fylgt stíflurof. Óviðunandi er að mínu mati fyrir Alþingi að afgreiða virkjanaleyfið, ef ekki er tekið sérstaklega á þessum þætti. Ella kann Alþingi sjált að teljast ábyrgt fyrir stærsta manngerða hamfarahlaupi Íslandssögunnar, auk þess sem stíflan verður tæpast endurgerð eftir að hafa rofnað einu sinni. Þessar vangaveltur ættu að sýna að hættumatið í kafla 11 í umhverfismatsskýrslunni er vægst sagt grunnrist og tekur ekki á sértækum bergtæknilegum eða jarðfræðilegum aðstæðum við Hálslón. Finnst því undirrituðum fáránlegt að meta líkur á stíflurofi á þessum mjög svo óvenjulega stað, eingöngu út frá alheimsmeðaltali á stíflurofum (viðauki V11).

Áhrif á eldvirkni

Hin árlega 60-75 m sveifla í vatnsborði Hálslóns léttir tæplega áraun á bergið við Kárahnjúkastíflu. Fargsveiflan getur jafnframt strokkað til kvikuna í hlutbráðnu lagi eystra gosbeltisins, sé fjaðrandi hluti jarðskorpunnar þunnur, og þess vegna gert einhverri megineldstöðinni bumbult. Slík fargtengd ógleði er t.d. árviss í Mýrdalsjökli á haustin og alþekkt er að Grímsvötn gjósa oft í kjölfar stórra jökulhlaupa, en þau hlaup eru í þunga sambærileg við massa Hálslóns. Í versta falli má giska á að eldstöðin í Snæfelli vakni til lífsins við þetta hoss og skjóti þar með kvikuinnskotum til norðurs, þvert á fyrirhugaða jarðgangaleið. Og stífli göngin. Eða þá að eldstöðvakerfið sem skóp Kárahnúka lifni við í sprungugosi. Undirritaður fellst því alls ekki á þá niðurstöðu matsskýrslunnar að lónið hafi engin áhrif á eldvirkni, þvert á móti teljast líkurnar talsverðar á að eldvirkni vaxi við lónið. Má í þessu samhengi minna á að Hekla hefur aldrei verið sprækari á sögulegum tíma en um og eftir árið 1970, einmitt þegar Þórisvatnsmiðlun tekur til starfa.

Óþekkt bortækni

Nýlega treysti Alþingi Íslendinga sér ekki til að láta Vegagerðina grafa Hvalfjarðargöng vegna meintrar áhættu. Þá taldi Orkumálastjóri, í tengslum við Eyjabakkadeiluna, að jarðhitavirkjanir á Norðausturlandi væru ekki valkostur fyrir álver á Austurlandi, vegna of mikillar bjartsýni/hraða við borun á háhitaholum. Hvergi örlar á slíkum jarðgangaáhyggjum í umhverfismati Kárahnjúkavirkjunar. Og stendur þó til að grafa allt að 79 km af jarðgöngum (tafla 5.6). Jafnframt stendur til að beita heilborun, tækni sem lítil eða engin reynsla er af hérlendis. Furðulega lítil umræða er í skýrslunni um þennan sértæka en mikilvæga þátt mannvirkisins. T.d. ef ófyrirséð jarðtæknileg vandamál leiða til þess að göngin klárast langt á eftir öðrum þáttum verksins. Slík umræða ætti að vera til staðar í kafla 11.

Leki til jarðganga

Þá eru lekavandamál vel þekkt í hérlendum jarðgöngum. Til að unnt sé að meta hugsanleg áhrif þeirra á aðliggjandi grunnvatnskerfi þarf að vita hvers eðlis lektin er sem leiðir vatnið (sprungur, lagmót, bergið allt), hvernig grunnvatnskerfið er sem fæðir lekann (lokað kerfi eða með frjálsu vatnsborði) og síðast en ekki síst hver er þrýstimunur ganganna og vatnskerfanna, bæði í greftri og eins í rekstri. Undirrituðum þykir Kárahnjúkaskýrslan ærið fátækleg um þetta mál. Og er þó hægt að bora og prófa holur á gangaleiðinni til að fræðast betur um þetta atriði. Eins má deila um hvort áhrif af leka inn í göngin verði eins staðbundin og talið er á bls 82. Sýnist enda sem umhverfisráðherra hafi sérstaklega tekið á þessum þætti í úrskurði sínum og heimilað jarðgöngin þá og því aðeins að allir lekar verði þéttir jafnóðum. Er það gott og vel en fylgir þó sá böggull skammrifi að þéttingar eru dýrar og taka tíma. Þá ber að athuga hvort úrskurðurinn er bundinn við ákveðna gerð af þéttimassa, og hvort þau þéttiefni kunni að leysast upp og berast út í grunnvatn með tíð og tíma og menga það.

Leki úr Hálslóni

Skýrslan er óvenju fámál um lekt í jarðlögum að öðru leyti en því að lekt vex frá austri til vesturs á gangaleiðinni og er mest undir sjálfu Hálslóni. Ekki er eytt mikilli orku í að ræða þennan sérstaka þátt í grunnvatnsfræði lónsins. Mín fyrsta tilgáta er að lónlekinn verði mjög mikill og að þar með takist ekki að ná upp þeirri ársframleiðslu sem að er stefnt. Einhvers staðar er nefnt að leir í setinu stöðvi leka, en er þá hægt að treysta því að sá leir berist til norðurhluta lónsins þar sem þrýstimunur er mestur og þar með lekahætta? Hvergi er heldur minnst á t.d. áhrif flikrubergs, sem er útbreitt innan lónsins, né fyrrnefnt sprungusvæði sem jarðhitinn er á. Og er þó hægt að giska á slíkan leka með einföldum grunnvatnslíkönum þar sem lekt er breytt frá e.t.v. 1 milli-Darcy upp í 10 Darcy. Undirrituðum finnast þetta óvenju slök vinnubrögð, ekki síst í ljósi þess að lónlekinn kann að vera lykilstærð í hagkvæmni miðlunarinnar.

Ending miðlunar og ástand jökla

Þegar deilan um Hágöngumiðlun stóð hvað hæst birti Landsvirkjun auglýsingar í blöðum þar sem var mynd af vatnsorkuveri og yfir stóð “Eilífðarvél?”. Ætla má af lestri Kárahnjúkaskýrslunnar að eilífðin standi í 100-400 ár, og er þá eingöngu lesið í þau árabil sem skýrslan tilgreinir á rekstrartíma. Vísast þætti mörgum fróðlegt að vita meira um eftirfarandi atriði:

Hvaða áhrif hefur setfylling lónsins á framleiddar GWh á ári? Er hægt að gera slíkt línurit á grunni myndar 9.10 og nota við mat á hagkvæmni mannvirkisins.

Birst hafa fréttir í blöðum um óvenju mikla bráðnun í norðanverðum Vatnajökli. Hvergi er nefnt í matsskýrslunni hvernig þessi hegðan náttúrunnar kemur inn í rekstur Kárahnjúkavirkjunar en það hlýtur þó vissulega að skipta máli.

Hver verður eðlisþyngd aurkeilunnar syðst í Hálslóni og hvaða áhrif hefur hún á hraða landsigs, til viðbótar því sem lónvatnið sjálft veldur?

Þá er skýrslan fáorð um það gífurlega magn aurs sem mun safnast upp í Hálslóni. Hér mætti kanna t.d. stöðugleika aurkeilunnar syðst í lóninu, einkum þegar vatnsborð er hvað lægst. Getur hún t.d. skriðið af stað sem eðjuhlaup og runnið mjög langa leið eftir lónbotninum, e.t.v. allt að Kárahnjúkastíflu og laskað hana? Hér er hugsað til svipaðra atburða og skópu Kötluála.

Losun og binding gróðurhúsalofttegunda

Undirritaður telur að aukin gróðurhúsaáhrif fylgi Kárahnjúkavirkjun, vegna minnkaðrar upptöku koltvísýrings í hafi. Nú virðist almennt viðurkennt að ummyndun steindarinnar plagíoklas yfir í kalaónít og síðan áfram yfir í kalk í sjó, bindi feiknarlegt magn gróðurhúsalofttegunda við strendur Íslands. Hvað verður um þetta ferli við að mestur hluti aursins í Jöklu stoppar í Hálslóninu í stað þess að lenda úti í sjó? Þetta hlýtur að vera brennandi spurning, ekki síst fyrir íslenska stjórnmálamenn, sem nú óska undanþágu frá Kyoto-bókuninni vegna “hreinleika” vatnsorkunnar. Verður að teljast líklegast að bindingin minnki og að virkjunin teljist þar með ekki “hrein” í Kyoto skilningi.

Dýra- og plöntusvif í hafi

Athygli vekur að umhverfismatsskýrslan er mjög hljóð um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á hafið og lífríki þess. Þó er laumað inn kafla 9.1.7.4. um þetta málefni. Kemur þar fram að áhrif á botndýr eru talin lítil. Hins vegar segir orðrétt á bls. 110 um uppsjávardýrin: “Rannsóknir við Suðvesturland benda til þess að máli skipti fyrir dreifingu og afkomu lirfa og seiða að sjórinn sé lagskiptur. Við Austurland er klak seint á ferð og því er talið hugsanlegt, ef ferskvatnsframburður gegnir sama hlutverki og við suðvesturströndina, að breytingar á ferskvatnsframburði að sumri til hafi áhrif á útbreiðslu og afkomu þorsklirfa og seiða á þessu svæði.” Þessar setningar ber að taka mjög alvarlega og kanna til hlítar. Mætti þá byrja á að skoða nýliðun þorskseiða við Suðvesturland og kanna hvort viðvarandi slaka nýliðun þorsks upp úr 1970 megi tengja virkjun Þjórsár.

Niðurstaða

Eftirfarandi atriði tel ég óskýrð og/eða verulega áhættuþætti við gerð Kárahnjúkamiðlunar, sem skýra/hrekja verði áður en Alþingi samþykkir lög um virkjunina:

Þungi miðlunarinnar getur valdið landsigi svo nemi e.t.v. metrum og þar með skertri afkastagetu lónsins

Verulegar líkur eru til þess að sjálf Kárahnjúkastíflann verði reist á virku sprungusvæði

Því telur undirritaður hættumat það sem kynnt er í matsskýrslu Landsvirkjunar algerlega óviðunandi, líkur á stíflurofi séu umtalsverðar, og meðan svo er eigi virkjunin ekkert erindi inn á Alþingi.

Þungi Hálslóns veldur tilfærslum á kviku og kann þannig að hafa áhrif á eldvirkni nærri lóninu.

Til stendur að bora jarðgöng virkjunarinnar með tækni sem er óþekkt og óreynd á Íslandi

Þétting jarðganga getur orðið tímafrek og tafsöm, og þannig hægt á lúkningu virkjunar

Gera verður ráð fyrir talsverðum leka Hálslóns og þar með skertum afköstum virkjunar

Miðlunin dregur úr náttúrulegri bindingu gróðurhúsalofttegunda í hafi

Lífmassar í hafi kunna einnig að finna fyrir lónsmíðinni.

Orkustofnun, 14. febrúar 2002

Grímur Björnsson

Jarðeðlisfræðingur