Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN Á MÓTI ATVINNULÝÐRÆÐI!

Í umræðum um Ríkisútvarpið á Alþingi sögðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar að það tilheyrði ekki "nútímarekstri" að tryggja starfsmönnum aðgang að stjórn stofnana! Í kjarasamningum í byrjun níunda áratugar síðustu aldar var samið um að efla atvinnulýðræði í opinberum stofnunum. Því miður var ákvæðum þessara samninga sem BSRB gerði við Ragnar Arnalds þáverandi fjármálaráðherra, ekki alls staðar fylgt eftir. Það var þó gert í Ríkisútvarpinu.  Í 9. grein laga um Ríkisútvarpið er kveðið á um aðkomu starfsmanna að framkvæmdastjórn RÚV með eftirfarandi hætti: "Framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins skipa útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar og formaður útvarpsráðs. Útvarpsstjóri er formaður stjórnarinnar. Skal framkvæmdastjórn vinna að samræmingu á starfi deilda og gera tillögur um önnur mál sem fyrir hana verða lögð. Tveir fulltrúar starfsmanna Ríkisútvarpsins, annar frá hljóðvarpi, hinn frá sjónvarpi, eiga sæti á fundum framkvæmdastjórnar og hafa þar málfrelsi og tillögurétt."

Þetta lagaákvæði ætla ríkisstjórnarflokkarnir að afnema. Ekki er einu sinni látið svo lítið að ræða við samtök starfsmanna, sem á sínum tíma sömdu um þessa aðild starfsfólks að stjórn Ríkisútvarpsins.

Ég leyfi mér að fullyrða að aðkoma fulltrúa starfsmanna að stjórn RÚV hafi reynst stofnuninni vel. Fulltrúar starfsmanna hafa verið tillögugóðir og nærvera þeirra hefur oftar en ekki orðið til að leysa vandamál og koma í veg fyrir óþarfa árekstra. Þetta þykja Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki vera gamaldags viðhorf. Öðru vísi mér áður brá. Sjálfstæðisflokkurinn stærði sig að því hér á árum áður að vilja stuðla að samvinnu stétta, að leiða menn saman til sátta og Framsóknarflokkurinn kvaðst leggja mikið upp úr samvinnuhugsjóninni. Og það gerði hann vissulega.

En þetta er löngu liðin tíð. Nú standa þessir flokkar að lagabreytingu sem á að úthýsa fulltrúum starfsmanna úr stjórn Ríkisútvarpsins. Atvinnulýðræði er sagt gamaldags rugl. Nú er það valdstjórnin sem blífur! Þetta heldur stjórnarmeirihlutinn að sé nútímalegt þegar hann í reynd er að reyna að skrúfa okkur aftur til forstjóraveldis fortíðarinnar. Hversu langt aftur í tímann skyldu þau vilja halda? Það verður fróðlegt að hlusta á fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á vinnustaðafundum fyrir næstu kosningar. Þá þurfa auglýsingaráðgjafarnir að hafa sig alla fram. Það er þó ekki víst að það dugi til. Það er nefnilega til í dæminu að starfsfólk á vinnustöðum muni hvern hug í brjósti stjórnarflokkarnir bera gagnvart því.  Sá hugur er hrokafullur og seint verður sagt að hann byggi  á lýðræðisást.