Fara í efni

Ríkisstjórn Reykásanna

Birtist í Fréttablaðinu 26.11.03
Allir þekkja Ragnar Reykás þeirra Spaugstofumanna. Hann er persónugervingur hentistefnunnar, kann öllum öðrum betur að haga seglum eftir vindi, venda sínu kvæði í kross ef honum þykir henta. Ragnar Reykás á fáa sína líka. Það er helst að hann finni jafningja sína í  ríkisstjórn Íslands. Hún hefur átt stórfenglega spretti í uppákomum af því tagi sem Ragnar er kunnur fyrir.
Að öðrum ólöstuðum stendur forsætisráðherrann flestum framar hvað þetta varðar. Að undanförnu höfum við kynnst vandlætaranum Davíð Oddssyni með seðlabúntið í annarri hendinni, volgt úr fjárhirslum Búnaðarbankans, og Passíusálma Hallgríms Péturssonar í hinni. Þetta er sami maður og fyrir örfáum misserum hvatti þjóðina til dáða í lífsgæðakapphlaupinu, gróðavonin væri eftirsóknarverð var okkur þá sagt; eignagleði var hugtakið sem forsætisráðherra notaði. Gott ef hann boðaði þetta ekki í Hóladómkirkju.
Menn tóku að sjálfsögðu forsætisráðherra sinn á orðinu og gerðust nú margir óskaplega eignaglaðir. Á þessum tíma var farið að gera samninga af því tagi sem nú eru í umræðunni  við unga fjárgróðamenn í stórfyrirtækjum landsins. Einhverjir stjórnendur Íslandsbanka höluðu þá inn eitt hundrað milljónir eða svo á slíkum samningum. Í Stjórnarráðinu kipptu menn sér ekki upp við þetta enda var þar sagt að hinn frjálsi markaður ætti að sjá um sína. Allt tal um að viðkomandi einstaklingar hefðu fengið vænan heimamund af opinberu fé, úr fjárfestingarsjóðum atvinnulífsins sem þá höfðu nýlega verið einkavæddir undir hatti FBA, væri öfundartal.

 Í anda eignagleðinnar

Í Stjórnarráðinu var því líka tekið með þegjandi þögninni þegar stjórnendur Landsbankans opnuðu auðugum viðskiptavinum sínum skattskjól á Ermasundinu. Það væri skiljanlegt að slíkir menn vildu hafa "sín stærri mál" út af fyrir sig var haft eftir einum bankastjóranum. Það mál neyddust ráðherrar þó til að ræða á Alþingi því bankinn var þá enn í ríkiseigu.
Til var það fólk sem óaði við allri þessari eignagleði sem forsætisráðherrann vildi innræta þjóðinni og var ríkisstjórnin vöruð við að fara geyst og of langt út á þessar brautir. Haft var á orði að menn skyldu ganga hægt um þær gleðinnar dyr sem Davíð Oddsson vildi vísa þjóðinni inn um. Aftur og ítrekað komu fram varnaðarorð til forsætisráðherrans og bankamálaráðherrans varðandi frekari einkavæðingu. Gagnrýnendur sögðu það ekki vera sáluhjálparatrði að bankastarfsemi væri á hendi opinberra aðila en að öllum líkindum væri það þó besta vörnin gegn einokun og hvers kyns misnotkun að halda ríkisbönkunum í almannaeign. Sú hætta væri nefnilega raunveruleg í okkar litla samfélagi að sömu menn og nú væru að ná undir sig atvinnulífi þjóðarinnar myndu einnig ná tangarhaldi á bönkunum. Þá væri voðinn vís því bankana gætu þeir notað til að búa í haginn fyrir sjáfa sig til frekari áhrifa í atvinnulífinu. Hætta væri á því að þeir misnotuðu aðstöðu sína á þennan hátt og að sjálfsögðu einnig að þeir mökuðu krókinn í anda eignagleðinnar.
Engar áhyggjur sagði Valgerður bankamálaráðherra, ríkið á ekkert að skipta sér af því sem gerist á markaði. Hún sagði að ríkisstjórnin myndi sjá fyrir því að bönkunum yrði borgið í höndum sérstakra kjölfestufjárfesta. Þeir eru nú  farnir að taka til hendinni og afraksturinn af starfi þeirra að koma í ljós.
Eignaglöðu mennirnir vita hins vegar ekki hvaðan á þá stendur veðrið og endurtaka sjálfir í fjölmiðlum nokkurra mánaða gömul orð vandlætaranna í Stjórnarráðinu um að það sé úrelt að stjórnmálamenn skipti sér af bönkum. Og ef menn voga sér að þrengja að okkur með lögum segir framkvæmdastjóri Kaupþings Búnaðarbanka – sem talar væntanlega í nafni kjölfestufjárfestanna sem þau Davíð og Valgerður fundu – þá förum við bara eitthvað annað! Þessa hugsun orðaði stjórnarformaður Kaupþings Búnaðarbanka í útvarpsfréttum á þá leið að bankinn væri í reynd ekkert íslenskur, þetta væri alþjóðlegur banki!

 Einstaklega vel heppnuð aðgerð

Á þessum punkti erum við semsagt stödd núna. Forsætisráðherra les upp úr Passíusálmum og Valgerður Sverisdóttir lýsir hneykslan og furðu. Mér er "ögrað", sagði hún á forsíðu Mogga um atferli ráðamanna bankanna. Ekkert af þessu þarf að koma okkur á óvart af hálfu þessarar Reykása-ríkisstjórnar. Það er þó óneitanlega hrollvekjandi að þau virðast ekkert ætla að læra af afleiðingum eigin gjörða. Þannig segir bankamálaráðherrann á Alþingi í tilefni nýlegrar bankamálaumræðu, að "einakvæðingarferlið sé einhver best heppnaða aðgerð stjórnvalda". Þarf frekari vitnanna við? Ragnar Reykás er prýðilegur í Spaugstofunni. Öðru máli gegnir þegar hann eða hans líkar fara með völdin í Stjórnarráði Íslands. Þá kárnar gamanið.