Fara í efni

RÍKISSTJÓRN ÍSLANDS STYÐUR AUKNA HERVÆÐINGU


Bandarískur hergagnaiðnaður stendur í þakkarskuld við George Bush, Bandaríkjaforseta. Hann hefur beitt sér fyrir hervæðingu Bandaríkjanna af meiri krafti en flestir fyririrrennarar hans á forsetastóli. Á fyrstu mánuðum Bush í Hvíta húsinu mátti sjá hvað verða vildi þegar hann sagði upp samningnum um gagnflaugavarnakerfi frá 1972 (Anti-Ballistic Missile Treaty). Bandarískum vopnaframleiðendum fannst þessi samningur svo og ýmsir aðrir samningar um takmörkun vígbúnaðar of hamlandi og tók Bush heils hugar undir með þeim ( í maí 2001 sagði hann "...we must move beyond the constraints of the 30-year-old ABM Treaty..." )
Nú vill vopnaiðnaðurinn afnema fleiri hindranir og hefur Bush stjórnin beitt sér fyrir því að sett verði upp ný eldflaugakerfi í öllum ríkjum NATÓ, að sjálfsögðu til að verjast hryðjuverkaríkjum einsog það heitir og stemma jafnframt stigu við yfirgangi Rússa. Ég hef oft fjallað um þróun mála í Rússlandi á gagnrýninn hátt og aukna hervæðingu þar. Pútín kveðst svo aftur vera að bregðast við aukinni vígvæðingu NATÓ ríkjanna.
En spurning mín til ríkisstjórnarflokkanna á Íslandi, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, er hvort þeir telji það vera eftirsóknarvert framlag Íslands til heimsmálanna að leggjast á sveif með vopnaiðnaðinum og kynda undir nýtt vígbúnaðarkapphlaup? Einmitt þetta gerðu þau Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar með stuðningi sínum - fyrir Íslands hönd - við NATÓ samþykktina á nýfstöðnum fundi hernaðarbandalagsins í Búkarest.

Sjá frétt Viðskiptablaðsins:

http://vb.is/?gluggi=frett&flokkur=1&id=41475


Sjá samþykkt NATO (grein 37) :

http://www.nato.int/docu/pr/2008/p08-049e.html