Fara í efni

RÍKISSTJÓRN ÍSLANDS FORDÆMI ÁRÁSIRNAR Á SÝRLAND!

USA - Sýrland
USA - Sýrland

Ríkisstjórn Íslands ber siðferðileg skylda til að  fordæma villimennsku Bandaríkjamanna, Breta og Frakka sem í nótt gerðu eldflauga- og loftárásir á Sýrland.
Árásirnar voru gerðar á sama tíma og sérfræðingar OPCW, alþjóðastofnunar sem beitir sér fyrir banni efnavopna, voru væntanlegir til Sýrlands að hefjast handa um rannsóknir sínar.

https://en.wikipedia.org/wiki/Organisation_for_the_Prohibition_of_Chemical_Weapons

Sú spurning vaknar hvort tímasetning árásanna sé til að torvelda að RAUNVERULEG rannsókn fari fram á meintri efnavopnaárás og í framhaldinu hverjir beri þar ábyrgð ef sannast að efnavopnum hafi verið beitt.  

Evrópusambandið styður árásirnar og er athyglisverður sá tónn sem áður hefur heyrst frá þeim bænum og lyktar af hefnigirni, auga fyrir auga tönn fyrir tönn; árásin í nótt er með öðrum orðum sögð vera svar við meintum efnahernaði sýrlenska stjórnarhersins. Því miður er þetta enn verra, því þetta fólk veit að öll kurl eru hér ekki komin til grafar en kýs þrátt fyrir það að kynda undir frekari átökum. Hvers vegna skyldu NATÓ og ESB ekki vilja láta rannsaka fleiri mögulega kosti en þann að sýrlenski stjórnarherinn hafi beitt efnavopnum gegn almenningi í Sýrlandi?

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2018/04/14/esb_stydur_aras_vesturveldanna/

Utanríkisráðherra Íslands segir að árásin sé "skiljanleg" vegna "aðgerðarleysis" Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/04/14/adgerdirnar_eru_skiljanlegar/

Bandaríkjastjórn segist hafa nægar sannanir, bæði fyrir því að efnavopnaárás hafi verið gerð og að það hafi verið sýrlenski stjórnarherinn sem hafi verið valdur að henni. Aðspurð um sannanir, þá sé því miður ekki hægt að greina frá þeim að svo stöddu! Getur verið að hægt sé að endurtaka Írakslygarnar eins og ekkert sé?

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2018/04/13/bandarikin_telja_sig_hafa_naegar_sannanir/

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur iðulega verið aðgerðalaust þegar þörf hefur verið á aðgerðum. En eiga aðgerðirnar nú ekki að beinast að því að láta fara fram rannsókn og jafnframt bera klæði á vopn? Ef engin stórveldi hefðu komið að Sýrlandsstríðinu væri því löngu lokið. Þar bera bandamenn Íslendinga í NATÓ ásamt Saudi Arabíu mikla ábyrgð.

En hver er ábyrgð Íslands? Undir henni geta íslensk stjórnvöld því aðeins risið að þau fordæmi á afdráttarlausan hátt villimennsku þessa stríðs. Árásirnar í nótt eru dæmi um þá villimennsku og þær ber að fordæma sérstaklega með skýrum hætti.