Fara í efni

RÍKISSTJÓRN HÁTEKJUHEIMILANNA

DV
DV

Birtist í DV 24.05.13.
Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson klifa á því að þeim sé sérstaklega annt um heimilin í landinu. Þegar þeir eru hins vegar inntir nánar eftir þessu kemur á daginn hvaða heimili þeir einkum hafa í huga. Það eru ekki lágtekjuheimilin og ekki millitekjuheimilin. Hátekjuheimilin eru þeim félögum Sigmundi Davíð og Bjarna efst í huga. Hag þeirra bera þeir fyrir brjósti.
Nú er að koma á daginn hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn var svo feiminn að ræða útfærslur á skattastefnu sinni í aðdraganda kosninga. Aftur og ítrekað gekk ég eftir því að fá svör við því  hvort boðuð skattastefna Sjálfstæðisflokksins væri af sama toga og sú sem flokkurinn framfylgdi með dyggri aðstoð Framsóknar í stjórnartíð þessara flokka á árunum 1995 til 2007. 

Hefðu betur spurt fyrir kosningar

Á þessum árum voru gerðar breytingar á skattkerfinu, flestar í þá veru að þyngja byrðarnar á herðum lágtekju - og millitekjuhópa en létta þær og ívílna hinum tekjuhæstu.
Á að feta inn á þessa braut að nýju? Um þetta spurðu fjölmiðlar eftir undirritun stjórnarsáttmálans fyrr í vikunni. Betra hefði verið ef þeir hefðu knúið fastar á um svör fyrir kosningar og ekki leyft Sjálfstæðisflokknum að sveipa málið dulúð. Nema hvað nú varð sú breyting á að formaður Sjálfstæðisflokksins áræddi að svara - enda kosningar að baki.

Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur feiminn

Inntakið í svari hans var að persónuafslátturinn og þar með skattleysismörkin gögnuðust vel hinum tekjulægri en síður hinum tekjuhærri. Það hallaði með öðrum orðum á hátekjuhópana. Þetta þyrfti að laga! Síðan hefði Sjálfstæðisflokkkurinn einnig af því þungar áhyggjur að auðlegðar skattur stæðist hugsanlega ekki stjórnarskrá. Skatturinn væri að vísu tímabundinn og rynni út um áramót. En ef einhver áhöld væru á því að skatturinn stríddi gegn stjórnarskrá yrði það forgangsverkefni að afnema hann.

Á fljúgandi ferð til fortíðar

Þannig að við erum komin á flúgandi ferð aftur í tímann. Meira að segja svo langt að er fyrir daga Umhverfisráðuneytisins. Það á helst að gera að engu með því að koma því mikilvæga ráðuneyti fyrir í skúffu Stjórnarráðsins. Þetta er ákveðið þremur vikum eftir að þúsundir fylktu liði í þágu náttúrunnar á baráttudegi verkalýðsins 1. maí sl. Skyldi ríkisstjórnin halda að hægt sé að snúa framfara-gangverki samfélagsins afturábak á þennan hátt?

Gamalkunnur matseðill

Síðan er allt hið gamalakunna að skjóta upp kollinum, verðbréfabraskarar iða í skinninu og daginn sem hin nýja ríkisstjórn var sett á laggirnar kom út 1.tölublað fyrsta árgangs af tímaritinu Kauphöllin. Þar fjallaði forsíðufréttin um matseðil fjárfestanna og á forsíðu var vísað í umfjöllun um lán til hlutafjárkaupa. Og viti menn í blaðinu var að finna tilvísan til þess að braskið örvi framleiðni vinnuafls og leiði til betri lífskjara!
Bara alveg eins og í gamla daga.

Hleranir og virkjanir

Í stjórnarsáttmálanum var meira segja skírskotað til aukinna rannsóknarheimilda lögreglunnar. Það þýðir  frjálsari heimildir lögreglu til að hlera síma. Í tíð fráfarandi ríkisstjórnar var kappkostað að takmarka allar slíkar heimildir með skýrum lögum og reglugerðum en þó þannig að unnt væri að glíma við grófa brotamenn. En aldrei á kostnað mannréttindasamfélagsins.
Auðvitað vonum við að nýrri ríkisstjórn takist vel upp við landsstjórnina. En við þurfum jafnframt að horfa með raunsæi til þeirrar hagsmunagæslu sem hún vísar ófeimin til í sínum málflutningi. Það liggur líka fyrir að hin nýja ríkisstjórn mun fara þá einu leið sem hún sér færa til að efna peningaloforð sín, það er að virkja og virkja meira. Sjálfbærni verður orð í skýrslum í skúffu. Tékkann á að senda komandi kynslóðum með dauðum Lagarfljótum. .

Svörin á reiðum höndum

Auðvitað munu svörin vera á reiðum höndum. Fullyrt verður að skattaafsláttur komi fyrirtækjum og heimilum að gagni. Það er nú það. Ég þekki til fjölskyldu sem er að snúa heim til Íslands eftir áralanga veru í Bandaríkjunum. Þar eru skattar lægri en hér. En hvers vegna er fjölskyldan að snúa heim? Það er vegna sjúkleika hjá einum fjölskyldumeðlim og síðan eru börnin á leið í framhaldsskóla. Hvort tveggja kostar sitt: Veikindin og menntunin.
Bandaríska hátekjufólkið klífur þetta, fólkið þeirra Sigmundar Davíðs og Bjarna en ekki venjulegar fjölskyldur. Þess vegna er snúið heim til Íslands þar sem byrðunum er dreift með réttlátu skattakerfi.
Á því eru nú boðaðar breytingar. Það eru ekki góðar fréttir. Nema náttúrlega fyrir hátekjufólkið.