Fara í efni

REYNSLA FÆREYINGA OG FINNA RÆDD HJÁ BSRB


Í dag var haldin önnur málstofa BSRB í tengslum við efnahagsþrengingarnar. Sú fyrri var haldin í síðustu viku.
Að þessu sinni  voru frummælendur þær Sigurbjörg Árnadóttir, framkvæmdastjóri og Gunvör Balle, sendiherra Færeyja á Íslandi. Sigurbjörg var lengi búsett í Finnlandi og sagði okkur frá ráðstöfunum sem gripið var til í Finnlandi til að komast út úr mikilli kreppu í landinu á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Hún sagði að sumt hefði þar verið vel gert en miklu fleiri væru vítin til að varast. Og eru Finnar lausir við kreppu? Það færi eftir því hvaða mælikvarða væri beitt.  Horfðum við til hagvaxtar eða atvinnuleysis, sem enn væri um 8% í Finnlandi? Þannig byggju margir Finnar - og þar með finnskt samfélag  -  enn við þrengingar, efnahagslegar og félagslegar. Sigurbjörg kvaðst líta svo á að það væri glæpur að slá á vinnandi hönd. Þetta þótti mér vera gullkorn eins og svo margt annað sem frá henni  kom á þessari málstofu.

Gunvör Balle benti á margt athyglisvert úr reynslu Færeyinga í kreppunni, sem reið yfir Færeyjar um svipað leyti og kreppti að hjá Finnum. Gunvör sagði að ýmsar nýjungar hefðu sprottið upp í tengslum við kreppuna en einnig hefðu menn tekið að leggja meira upp úr gömlum gildum, samvinnu og samstöðu, innan fjölskyldu, byggðarlaga og þjóðfélagsins í heild sinni.
Nánari frásögn er að hafa af ráðstefnunni á heimasíðu BSRB og þar er einnig að finna slóð á alla ráðstefnuna sem tekin var upp á myndband. Sjá hér: http://www.bsrb.is/um-bsrb/frettir/nr/1416/