Fara í efni

Reykjavíkurborg rekur fátækt fólk á dyr

Ekki veit eg hversu algengt er að borgaryfirvöld láti bera fólk út úr húsnæði í eigu borgarinnar. Eflaust hendir það endrum og eins. Iðulega hefur fólk snúið sér til mín með margvísleg vandamál vegna starfa minna í verkalýðshreyfingu eða sem þingmanns. Ég hef lagt áherslu á að fólk snúi sér til réttra aðila, þ.e. þeirra sem sinna félagsþjónustu. Í flestum tilvikum tekur fagfólk þar á málum af þekkingu, góðum hug og velvilja. Upp hafa þó komið dæmi þar sem ég hef talið eðlilegt að vekja athygli yfirvalda á málum þegar mér hefur þótt velferðarþjónustan ekki bregðast við sem skyldi. Þannig hefur stundum of harkalega verið gengið að mjög efnalitlu fólki, sem ekki hefur getað staðið í skilum, ekki síst vegna vanskila á húsnæðisleigu, rafmagni og hita.

Fyrir fáeinum árum átti ég, sem formaður BSRB, fund með borgarstjóra ásamt forseta ASÍ og formanni Leigjendasamtakanna vegna útburðar á fólki úr félagslega húsnæðiskerfinu. Við mótmæltum slíkum aðförum og hvöttum til annarra og manneskjulegri vinnubragða. Ég veit ekki hve margt efnalítið fólk hefur verið borið út úr húsnæði borgarinnar síðan þessi fundur átti sér stað og naga ég mig í handarbökin fyrir að hafa ekki grennsalst fyrir um það, því það er ábyrgðarhluti að kjörnir fulltrúar láti brot á mannréttindum, og lögbrot í ofanálag (á sveitarfélögum hvíla lagalegar skyldur), viðgangast fyrir framan nefið á sér. Ekki síst vildi ég fá að vita hvort það hafi oft átt sér stað, að krabbameinssjúkur öryrki til margra ára hafi verið borinn út með lögregluvaldi. Þetta gerðist síðastliðinn föstudag. Málið er mér skylt því ég hafði viku áður, tveimur dögum áður en bera átti manninn út, skrifað borgaryfirvöldum (félagsmálaráði með afriti til félagsmálastjóra og framkvæmdastjóra Félagsíbúða)  svohljóðandi bréf ( ég set x í stað nafns viðkomandi einstaklings og y í stað heimilsfangs):

 

"X hefur verið skipað að rýma íbúð sína að y vegna langvarandi vanskila við Félagsíbúðir og vofir nú yfir að hann verði borinn út. X hefur leitað til mín með beiðni um aðstoð. Hann er krabbameinssjúklingur til langs tíma. Ég fer þess vinsamlegast á leit við Reykjavíkurborg að fallið verði frá aðgerðum gagnvart X eða í það minnsta tekin ákvörðun um að fresta þeim á meðan nánari könnun verði gerð á högum hans. Ég tel mikilvægt að kannað verði hvernig X er á sig kominn líkamlega og andlega. Ég rita þetta bréf í samráði við Katrínu Fjeldsted sem komið hefur að málum X sem læknir."

                                                            Ögmundur Jónasson, alþingismaður

 

 

Borgaryfirvöld ákváðu að fresta útburðinum um eina viku. Engu að síður voru sendir heim til mannsins menn til að loka fyrir rafmagn! Þetta var gert þótt þessi biðtími hefði verið gefinn til þess að ráðrúm gæfist til að láta trúnaðarlækni borgarinnar skoða manninn. Þegar ég átti símtöl við hann á næstu dögum sat hann í íbúð sinni við kertaljós og gat að sjálfsögðu ekki hitað mat. Einni viku eftir að þetta gerðist var mér tilkynnt, þegar ég leitaði upplýsinga um framvindu málsins, að nefnd politíkusa og fagfólks hefði komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir veikindi mannsins, sem enginn véfengir, væri hann ekki talinn of veikur fyrir útburð!

Eins og flestir án efa vita fara pólitískir samherjar mínir með stjórn borgarinnar. Ég leitaði til fólks úr meirihlutanum um aðstoð en einnig reyndi ég að snúa mér til fulltrúa stjórnarandstöðunnar í borginni. Þegar sýnt var að stefndi í útburð á föstudag reyndi ég að ná sambandi við þann fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem kom að þessum úrskurði. Ósk minni um samtal var ekki sinnt.

Þau svör sem ég hef fengið eru á þann veg að viðkomandi einstaklingur hafi ekki staðið skil á greiðslum fyrir húsaleigu, rafmagni og hita árum saman. Það sé óverjandi fordæmi að veita honum undanþágu og grafi slík undanlátssemi undan kerfinu. Í þessu kerfi sé að finna fjöldann allan af fátæku fólki, sem sé illa aflögufært, hvers eigi það að gjalda? Allt kann þetta að vera rétt þótt ég skrifi aldrei upp á þessar aðfarir.

Tími er kominn til að ræða opinskátt og opinberlega um fátækt í Reykjavík. Í þeirri umræðu skulum við vissulega ræða skyldur einstaklinganna gagnvart samfélaginu. Ég ætla þó í þessari umræðu að byrja á hinum endanum, sem stendur stjórnmálamönnum nær: Skyldum ríkis og sveitarfélaga gagnvart einstaklingum; skyldum sem meðal annars eru skilgreindar í lögum, samþykktum og yfirlýsingum og að sjalfsögðu pólitískum heitstrengingum.

 

Í mínum huga er prófsteinninn á pólitík hvernig komið er fram gagnvart efnalitlu fólki og sjúku, að ekki sé minnst á þá sem ekki eru fyllilega sjálfráða gerða sinna vegna aðstæðna eða sjúkleika. Ef Reykjavíkurborg stenst ekki þá prófraun, þá er kominn  tími á opinbera umræðu.