Fara í efni

REYKJAVÍK ROUND TABLE ON HUMAN RIGHTS

Reykjavík - yfirlit
Reykjavík - yfirlit


Í vikunni fór fram í Reykjavík ráðstefna sem Edda, Öndvegissetur Háskóla Íslands, í samstarfi við Institute of Cultural Diplomacy, ICD, stóðu fyrir undir heitinu Reykjavík Round Table on Human Rights.
Grundvallarþema ráðstefnunnar var hvernig megi brúa hið síbreikkandi bil á milli góðra áforma einsog þau birtust okkur í margvíslegum alþjóðasáttmálum og skuldbindingum annars vegar og veruleikans á taflborði valdastjórnmálanna hins vegar.
Að þessari umræðu komu fræðimenn, dómarar frá Alþjóðadómstólnum í Haag, fulltrúar frá mannréttindastofnunum á borð við Evrópuráðið, hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu,  almannasamtökum á borð við Alþjóðasamtök þingmanna gegn spillingu og fleiri.   
Borgarstjórinn í Reykjavík bauð ráðstefnugestum í Höfða og var ráðstefnan í reynd opnuð þar á miðvikudagkvöld. Í lok ráðstefnudags á fimmtudag tók Ólafur Ragnar Grímsson, forseti íslands, þátt í umræðunni og fórst honum það afar vel úr hendi.
Mál manna á ráðstefnunni var að vel væri ráðið að efna til samtals á milli fólks sem kæmi úr mörgum áttum um þetta mikilvæga viðfangsefni. Eflaust á ég eftir að láta meira frá mér heyra um þessa ráðstefnu sem að mínum dómi var á meðal hinna bestu sem ég hef setið og hef ég komið við á nokkrum þeirra.
Íslensk stjórnvöld heiðruðu þessa ráðstefnu með margvíslegum hætti. Forseti Alþingis tók á móti þátttakendum í Alþingishúsinu og forsætisráðherra efndi til móttöku í Ráðherrabústaðnum að ráðstefnunni lokinni. Þetta kunni fólk mjög vel að meta.
Sjá vefsíðu EDDU: https://edda.hi.is/wp-content/uploads/2016/04/Roundtable-Program-heimas%c3%ad%c3%b0a.pdf