Fara í efni

Reykjavík í uppnámi

Deilur um borgarstjóraembættið setja svip á stjórnmálaumræðuna þessa dagana. Málið blasir þannig við mér: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðastliðið vor að hún hygðist ekki taka þátt í komandi Alþingiskosningum. Yfirlýsing hennar var afdráttarlaus. Nú hefur komið á daginn að hún ætlar að ganga á bak þessara orða sinna. Trúverðugleiki hennar gagnvart kjósendum er ekki samur eftir. Borgarfulltrúar VG og Framsóknar telja sig einnig vera svikna því þeir hafi staðið í þeirri trú að krafa hennar um að standa utan flokkakvóta þýddi að hún hygðist starfa á þeim forsendum út kjörtímabilið. Engu að síður hefur komið fram að áhersla VG í þessu máli snýst ekki um persónu Ingibjargar Gísladóttur borgarstjóra heldur fyrst og fremst um málefni Reykvíkinga og þau kosningaloforð sem kjósendum í Reykjavík voru gefin fyrir síðustu kosningar í húsnæðismálum, varðandi aldraða, barnafólk og í öllum þeim málaflokkum sem tekist var á um í kosningabaráttunni. Það væri mikill ábyrgðarhluti að sundra samstarfinu í Reykjavík vegna þessarar deilu sem nú er sprottin upp. Að mínum dómi kæmi það aðeins til greina að slíta samstarfinu ef málefnalegur ágreiningur gæfi tilefni til þess. Sá ágreiningur þyrfti að vera ærinn. Það breytir því ekki að þær deilur sem upp eru risnar þarf að leiða til lykta og þá þurfa allir að leggja sig fram. Sannast sagna þykja mér hvorki framsóknarmenn né borgarstjórinn gera það. Ég tek undir með Steingrími Ólafssyni, formanni VG í Reykjavík, í útvarpsfréttum í morgun (23/12) að skylda okkar sé að hugsa einvörðungu um málefni en blindast ekki af persónum. Ef til vill erum við að uppskera nú afraksturinn af gegndarlausri persónupólitík sem hér hefur verið rekin, ekki síst á vettvangi borgarmálanna. Ég hef varað mjög við þessari þróun um langt skeið og ef dæma skal af viðbrögðum fólks sem ég hef átt tal við er ég ekki einn um þessa skoðun. Lesendabréf sem heimasíðunni berast endirspegla þessi viðhorf einnig. Hafsteinn talar um frama-framboð í mjög umhugsunarverðum pistli sínum sem birtist undir heitinu “Heil brú og brotin”, Dolli varar við þröngri einstaklingshyggju á gamansömum nótum en með alvarlegum undirtón og Þorleifur bendir á hróplegar mótsagnir í afstöðu ungs fólks sem vill kenna sig jafnaðarmennsku.