Fara í efni

RÉTTUR TIL VATNS OFAR EIGNARRÉTTI


Árið 2002 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar að líta bæri á vatn sem grunnmannréttindi sem væru forsenda annarra réttinda.
Hvað þýðir þetta í heimi þar sem meiri eftirspurn er eftir hreinu vatni en framboð?

Bannað að níðast á alþýðunni

Það þýðir til dæmis að ekki er leyfilegt í gróðaskyni að halda vatni frá þurfandi fólki. „Það liggur í augum uppi",  myndi einhver segja. Svo er þó ekki. Alræmdasta dæmið er frá Bolívíu þar sem alþjóða auðhringur reyndi að koma í veg fyrir að fátæk alþýða nýtti sér regnvatn til drykkjar og hreinlætis. Sjá nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/jonina-bjartmarz-umhverfisverdlaunin-og-hinar-syrgjandi-maedur

Vitlausustu lög Íslandssögunnar?

En þetta þýðir annað og meira. Þetta þýðir að eignarréttur á vatni er háður þessum grundvallarrétti.
Verstu lög sem sett hafa verið á Alþingi frá upphafi vega eru sennilega lögin frá 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í þessum lögum var rétt sisona ákveðið að færa allt grunnvatn undir einkaeignarrétt.

Hefði farið í þjóðaratkvæði

Í dag hefði án nokkurs vafa verið barist fyrir því að þessi lög færu í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þau hefðu nær örugglega verið kolfelld. Þetta var hins vegar - og illu heilli - fyrir þann dag að litið væri á þjóðaratkvæðagreiðslu sem raunhæfan kost.

Þá væri ennþá þrælahald!

Auðvitað er það fásinna að einstaklingur geti átt - prívat og persónulega - dýrmætar auðlindir á borð við Gvendarbrunnana, eða vatn undan Ingólfsfjalli, Esjunni eða Snæfellsjökli.
Slík hugsun er nánast eins fráleit og þrælahald var  á sínum tíma. Ef eignarrétturinn hefði verið algildur og óafturkræfur - eins og sumir tala um eignarrétt á vatni -  þá sætu Bandaríkjamenn uppi með þrælahald. Þræll var jú eign húsbónda síns.

Vatnið í stjórnarskrá!!

En auðvitað hlaut skilningur manna á mannréttindum að ryðja þessum fáránleika úr vegi. Það mun einnig gerast með vatnið. Þess vegna þarf að setja í stjórnarskrá Íslands að réttur til vatns teljist til mannréttinda og að vatnið - allt vatn  - sé almannaeign.
Að vatninu og eignarréttinu vék ég að í erindi á aðalfundi Samorku í gær: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27008