Fara í efni

Réttindabarátta samkynhneigðra

Hinsegin dagar eru að verða fastur liður í sumardagskrá landsmanna og mælast vel fyrir. Í litskrúðugri fjöldagöngu skemmtir fólk sér og sýnir jafnframt hug sinn til mannréttindabaráttu samkynhneigðra. Ekki hef ég heyrt nokkurn mann agnúast út í þennan atburð. Þvert á móti er alls staðar jákvæðni að finna. Ekki efast ég þó um að víða leynast fordómar í garð samkynhneigðs fólks og fékk ég staðfestingu á því á fundi Samtakanna ´78 fyrir síðustu Alþingiskosningar. Þar vitnaði hver einstaklingurinn á fætur öðrum um erfiða reynslu, sem hann eða hún hefði upplifað vegna kynhneigðar sinnar. Víða yrðu sankynhneigðir varir við fordóma og óbilgirni í umhverfinu. Margir vísuðu til æsku sinnar, sérstaklega unglingsáranna, hvað þetta snertir.
Þeir sem haldnir eru fordómum gagnvart samkynhneigðum ættu að lesa mjög góðan Rrabb-pistil í Lesbók Morgunblaðsins sl. laugardag eftir  Baldur Þórhallsson dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Baldur fjalllar um Hinsegin daga og réttindabaráttu samkynhneigðra bæði hér á landi og erlendis. Hann setur málin í sögulegt samhengi og fjallar um hverja þýðingu Hinsegin dagar hafa fyrir samkynhneigða og hvern sess þeir skipa í mannréttindabaráttunni.
Niðurlagsorð Baldurs eru þessi: “ Með opinni fordómalausri umfjöllun um samkynhneigð og samkynhneigða má stórbæta líðan fjölda barna og unglinga, draga úr fordómum, minnka líkur á ofneyslu vímugjafa og síðast en ekki síst bjarga fjölda mannslífa. Það hlýtur að vera þess virði.” Undir þessi orð vil ég taka heilshugar.