Fara í efni

RÉTT HJÁ MOGGA – RANGT HJÁ ÖSSURI


Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, ritar að mörgu leyti ágætan pistil á heimasíðu sína um þær deilur sem risið hafa í kjölfar heimsóknar Ingibjargar Sólrúnar, utanríkisráðherra, til Miðausturlanda í júlímánuði. Greinin er góð að því leyti að þar er að finna ágæta greiningu á stöðu mála og síðan finnst mér gott að Össur skuli taka fram að þótt afstaða okkar til þess hvaða leið sé líkleg til að skila árangri í friðarviðleitni í Palestínu, þá sé sín nálgun "ekki hafin yfir gagnrýni" og að hann finni ekkert að því þótt ég sé á öðru máli: "Lýðræðið byggir á málefnalegum skoðanaskiptum…"

Góðir tónar en gagnrýniverður boðskapur

Mikið rétt og ástæða til að lýsa ánægju með þessa afstöðu í ljósi yfirlýsinga ýmissa flokkssystkina Össurar sem ekki verður beinlínis sagt um að hafi viljað ræða þessi mál af yfirvegun og með hliðsjón af kaldhömruðum staðreyndum sögunnar. En hér lýkur líka lofi mínu og prísi um pistil Össurar Skarphéðinssonar.
Þótt þessir tónar séu góðir er ég ósammála heildarboðskapnum sem ég hef grun um að sé settur fram til að sýna utanríkisráðherra Samfylkingarinnar samstöðu, en sem kunnugt er hafnaði Ingibjörg Sólrún því alfarið að eiga nokkur samskipti við Hamas, sigurvegara síðustu þingkosninga í Palestínu. Um þetta segir ÖS: "Minn vandi með Hamas er hins vegar sá að á stefnuskrá samtakanna er enn að finna ákvæði um að má Ísrael út af heimskortinu. Ábyrgt stjórnvald getur ekki að mínu mati viðurkennt með samstarfi ríkisstjórn eða samtök sem hefur það á stefnuskrá sinni - jafnvel þó þau hafi í seinni tíð reynt að fela það. Þessvegna er ég ekki hlynntur samstarfi við Hamas meðan sú afstaða er enn við lýði."

"Að vera sjálfum sér samkvæmur"

Ég hef í nokkrum greinum og pistlum gert grein fyrir því hvers vegna ég tel fráleitt að sniðganga Hamas. Morgunblaðið sá framvinduna fyrir (þegar vorið 2006), að Ísraelar og bakhjarlar þeirra myndu reyna að hrekja lýðræðislega stjórn Palestínumanna frá völdum og að slíkt gengi ekki: "Þótt Hamas-samtökin hafi unnið afgerandi sigur og hafi nú myndað ríkisstjórn í Palestínu...er nú markvisst unnið að því af hálfu Vesturlanda að grafa undan ríkisstjórn Hamas  ... Hvernig geta ríkisstjórnir á Vesturlöndum haldið því fram, að þær vilji tryggja lýðræði fyrir botni Miðjarðarhafs, þegar þær eru staðnar að því að virða ekki niðurstöður lýðræðislegra kosninga?"
Þessi ummæli í leiðara Morgunblaðsins 24. apríl 2006 - sem bar yfirskriftina Að vera sjálfum sér samkvæmur -  eru einsog töluð út frá mínu hjarta. 
Þess vegna mín eigin fyrirsögn: Rétt hjá Mogga, rangt hjá Össuri.

 ---------------------------------------------------------------

Ívitnaður pistill Össurar:
Ögmundur skammaður fyrir Hamas
Það eru allir að skammast út í félaga Ögmund fyrir að taka máli Hamas samtakanna í Palestínu.
Silbermann, Egill, lætur hann fá það óþvegið. Sigurður Kári saumar að honum, og meira að segja hinn hófstillti prestssonur og alþingismaður míns eigin ranns, Árni Páll Árnason, sendir í hann hvassbrýndum spjótum.
En verður ekki einhver að tala fyrir þá? Hamas vann sinn mikla sigur í kosningunum af því samtökin höfðu unnið feykilega gott starf við að byggja upp félagslega þjónustu og skólakerfi meðal fátækra palestínubúa þar sem hið úr sér gengna og spillta Al Fatah dugði ekki til.
Sigur Hamas á sínum tíma í kosningunum í Palestínu var ekki aðeins viðurkenning á þessu starfi þeirra, heldur öðru fremur djúptæk höfnun á vinnubrögðum Al Fatah. Svo fór raunar sem fór með þá ríkisstjórn sem Hamas leiddi. Hún féll fyrst og fremst vegna íhlutunar ríkja utan Palestínu.
Mig minnir að Mogginn hafi eftir þingkosningarnar sem Hamas vann hvatt til þess að samtöl yrðu á alþjóðlega vísu tekin upp við Hamas. Beitti ekki blaðið þeim sterku lýðræðislegu rökum að það væri ekki hægt að hundsa meirihlutastjórn sem kjörin var með lýðræðislegum hætti? Það eru sterk rök.Við ræddum þetta mikið í Nató meðan ég var þar á dögum með mínum sæla og sálaða vini, Einari Oddi.
Minn vandi með Hamas er hins vegar sá að á stefnuskrá samtakanna er enn að finna ákvæði um að má Ísrael út af heimskortinu. Ábyrgt stjórnvald getur ekki að mínu mati viðurkennt með samstarfi ríkisstjórn eða samtök sem hefur það á stefnuskrá sinni - jafnvel þó þau hafi í seinni tíð reynt að fela það. Þessvegna er ég ekki hlynntur samstarfi við Hamas meðan sú afstaða er enn við lýði.
Hins vegar geri ég mér grein fyrir að sú afstaða er ekki að öllu leyti hafin yfir gagnrýni - og ég finn ekkert að því að Ögmundur Jónasson sé á öðru máli. Lýðræðið byggir á málefnalegum skoðanaskiptum, og hann hefur fullan rétt til að tala máli Hamas og hvers sem hann vill.
Það eru engar skoðanir löggiltar í lýðræðisríkinu. Þar ríkir samkeppni hugmynda og raka - sem betur fer.
- Össur
Sjá HÉR

Leiðari Morgunblaðsins 24. apríl sl.
Að vera samkvæmur sjálfum sér
Fyrir nokkru fóru fram kosningar í Palestínu. Óumdeildir sigurvegarar þeirra kosninga voru hin svonefndu Hamas-samtök. Kjósendur ýttu Fatah-hreyfingunni til hliðar m.a. vegna þess, að hún var orðin gjörspillt.
Fyrir nokkru fóru fram kosningar í Palestínu. Óumdeildir sigurvegarar þeirra kosninga voru hin svonefndu Hamas-samtök. Kjósendur ýttu Fatah-hreyfingunni til hliðar m.a. vegna þess, að hún var orðin gjörspillt. Enginn hefur haldið því fram, að kosningaúrslitin hafi verið fölsuð. Úrslitin voru svo afgerandi, að þau var ekki hægt að draga í efa.
Þótt Hamas-samtökin hafi unnið afgerandi sigur og hafi nú myndað ríkisstjórn í Palestínu, sem að vísu er í andstöðu við Abbas, forseta Palestínu, er nú markvisst unnið að því af hálfu Vesturlanda að grafa undan ríkisstjórn Hamas m.a. með því að neita henni um þann fjárstuðning, sem fyrri ríkisstjórn Fatah-hreyfingarinnar naut. Nú eru Arabaríkin að byrja að taka höndum saman um að veita ríkisstjórn Hamas-hreyfingarinnar einhvern fjárstuðning.
Hvernig geta ríkisstjórnir á Vesturlöndum haldið því fram, að þær vilji tryggja lýðræði fyrir botni Miðjarðarhafs, þegar þær eru staðnar að því að virða ekki niðurstöður lýðræðislegra kosninga?
Hvernig geta Bandaríkjamenn haldið því fram, að þeir vinni að því að koma á lýðræði í Írak, þegar í ljós kemur, að þeir vinna gegn lýðræðislegum niðurstöðum frjálsra kosninga í Palestínu?
Það er auðvitað ekkert vit í þessari pólitík. Það hafa áður orðið erfiðar niðurstöður í lýðræðislegum kosningum. Jomo Kenyatta var t.d. kjörinn forseti Kenya eftir að hafa verið í fangelsi Breta fyrir nokkrum áratugum vegna svonefndra hryðjuverka og Bretar sættu sig við þá niðurstöðu lýðræðislegra kosninga. Nelson Mandela var dæmdur í fangelsi og kallaður hryðjuverkamaður en var samt kosinn forseti Suður-Afríku eftir að honum var sleppt úr fangelsi og er nú talinn einn merkasti ef ekki merkasti stjórnmálaleiðtogi 20. aldarinnar.
Þeir, sem njóta almannafylgis í Palestínu eru líklegri til að verða traustir samningsaðilar Ísraelsmanna en þeir, sem voru búnir að glata öllu trausti fólksins vegna spillingar. Fyrstu skrefin í friðarviðræðum við Hamas-hreyfinguna geta orðið erfið en það má vel vera að þegar upp verður staðið reynist þeir traustari samningsaðilar en Fatah-hreyfingin, sem var rúin öllu trausti.
Vesturlönd geta ekki unnið svona. Vestræn lýðræðisríki geta ekki hafizt handa við að grafa undan niðurstöðu lýðræðislegra kosninga jafnvel þótt þeim líki ekki niðurstaðan.
Þessi ríki verða að vera sjálfum sér samkvæm. Annars geta þau ekki búizt við því að á þau verði hlustað.