Fara í efni

RAUNSÆTT MAT HJÁ BJARNA

Bjarni Ben í ræðustól
Bjarni Ben í ræðustól

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, óttast að enn leynist lífsneisti með launaþjóðinni. Svo mikill er ótti hans reyndar, að hann telur að í þessum neista sé fólginn mestur ógnvaldur við íslenskt hagkerfi um þessar mundir. Þetta var þungamiðjan í stefnuræðu ráðherrans á Alþingi í gær.

Stjórnmálamaðurinn sem veitir forstöðu ríkisstjórn sem hefur hafist handa um að einkavæða heilbrigðiskerfið, bónusvæða á ný fjármálakerfið og stígur á lífskjör öryrkja og aldraðra á sama tíma og efnafólk landsins makar krókinn; hann telur mesta hættu sem nú steðji að Íslandi vera þá, að sjúkraliðar, lögreglumenn og leikskólakennarar krefjist hlutdeildar í „góðærinu" til samræmis við félaga forsætisráðherrans!

SALEK er það kallað þegar launaþjóðin er hætt að anda líkt og gerst hefur í ýmsum „fyrirheitnum" löndum, sem ráðamenn vísa gjarnan til. Þetta munu vera löndin þar sem verkalýðsbarátta er í svo miklum rénum að bregða verður spegli á vit hreyfingarinnar til að nema hvort hún er lífs eða liðin. Þegar þessu takmarki er náð heitir það SALEK. Í SALEK-landinu er talað um að skapa „eðlilegar aðstæður" til launamyndunar en það er dulmál um markaðsvædd einstaklingsbundin laun. Fyrst er samið um launasummuna og síðan fá einstaklingarinr að sprikla innan rammans.

Svona tala þeir Bjarni og Benedikt og svona talaði Thatcher líka. Hún vildi murka lífið úr verkalýðshreyfingunni - og hafði tekist að tappa af henni talsverðu blóði þegar hennar tími var kominn til að kveðja sviðið. En nákvæmlega þetta var hennar mesta pólitíska afrek því með þessu var skapaður vinnufriður fyrir hönnuði einkavæðingar og misskiptingar, höfuðhugsjónir peningafrjálshyggjunnar.

Allt sem ógnar þessum vinnufriði telur formaður Sjálfstæðisflokksins vera ógn við ríkisstjórn sína. Sennilega er það rétt metið hjá forsætisráðherra.