Fara í efni

Raunsæ leið til kjarabóta

Birtist í Fréttablaðinu 04.04.2003
Sannast sagna átti ég ekki von á því að stjórnarflokkarnir tveir gerðu sig seka um eins mikil yfirboð og raun hefur orðið á. Framsókn reið á vaðið, skelfingu lostin yfir slæmri útreið í skoðanakönnunum, og bauð upp á skattalækkanir og aukin ríkisútgjöld sem flokkurinn segir sjálfur að komi til með að kosta fimmtán milljarða á ári. Sjálfstæðisflokkurinn bætti um betur og hækkaði tilboð sitt til kjósenda um væna fimm milljarða. Það er svipuð upphæð og varið er til félagslegra ráðstafana í gegnum Félagsmálaráðuneytið á heilu ári.

Þessir tveir flokkar, sem hafa verið afspyrnu nískir gagnvart láglaunafólki og millitekjuhópum á þeim átta árum sem þeim hefur verið treyst fyrir stjórnartaumunum, lofa nú gulli og grænum skógum. Eða hvað? Gæti verið að loforð um skattalækkanir séu jafnframt hótanir um lífskjaraskerðingu? Ef svo færi að hagvöxtur yrði ekki eins mikill og vonir okkar allra standa til, þá þýða þessar skattalækkanir annað tveggja, stórfelldan niðurskurð eða að kostnaður fyrir veitta þjónustu yrði tekinn beint, þ.e. með notendagjöldum, skólagjöldum, sjúklingasköttum og öðrum álögum.

Þessu verða ábyrgir stjórnmálaflokkar að svara; hvernig ætla þeir að bregðast við ef hagvöxturinn veitir þeim ekki sjálfkrafa tækifæri til að efna kosningaloforð sín? Hvar ætla þeir þá að skera niður eða hverjir verða rukkaðir? Þetta eru sjálfsagðar og eðlilegar spurningar. Í ljósi reynslunnar upplifa margir kosningaloforð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hótanir um niðurskurð og gjaldtöku.

Hverjar eru þá tillögur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs? Þær ganga ekki út á skattalækkun heldur tilfærslu innan skattkerfisins. Við viljum auka ráðstöfunarfé þeirra sem hafa minnstar tekjur eða heyra til svokallaðra millitekjuhópa. Með öðrum orðum við viljum bæta stöðu almennings í landinu. Það hyggjumst við gera með tilfærslu innan skattkerfisins og millifærsukerfisins, svo sem í barnabótum og húsnæðisbótum.

Við leggjum einnig fram tillögur um hvernig við hyggjumst reisa húsnæðiskerfið við og þá sérstaklega bæta stöðu láglauna og millitekjufólks til að kaupa eða leigja húsnæði. Stuðning við barnafjölskyldur viljum við stórauka. Þar leggjum við áherslu á að leikskólagjöld verði felld niður í áföngum og komið verði í veg fyrir að efnahagur foreldra ráði því hvort börn geti stundað íþróttir eða sótt tónlistartíma.

Þetta eru dæmi um áherslur okkar á sviði velferðarmála. Við erum staðráðin í því að efla velferðarkerfið á Íslandi. Það gerum við ekki í neinum heljarstökkum. Þvert á móti þá setjum við fram tillögur sem ganga upp, segjum hvernig við ætlum að afla fjárins og með hvaða hætti við hyggjumst framkvæma loforð okkar.

Kosningastefna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs mun ekki fá falleinkunn eins og kosningastefnuskrár Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eru þessa dagana að fá frá greiningardeildum bankanna.

Og eitt mega menn vita, að ef við verðum svo lánsöm að ytri skyilyrði verða hagstæð, eins og þau hafa verið undanfarin ár, með miklum afla og hagstæðu markaðsverði, þá munum við láta allan þann ávinning sem þjóðinni sameiginlega áskotnast, renna til þeirra hópa sem ríkisstjórnir undir forræði Sjálfstæðisflokksins hafa fryst úti allar götur frá 1991.